Skattskylda innlánsstofnana

52. fundur
Laugardaginn 14. desember 1991, kl. 14:02:00 (2066)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
     Herra forseti. Ég vil ekki víkjast undan því að svara hv. þm. nokkrum orðum á þeim stutta tíma sem ég hef til umráða. Það er svo um suma þá sjóði sem hann nefndi, Ferðamálasjóð t.d. sem er eingöngu lánastofnun og hefur ekki heimild til að veita styrki, að þeir styrkir sem hafa verið veittir í gegnum hann hafa verið veittir með sérstakri samþykkt Alþingis og samkvæmt fyrirmælum fjárveitinganefndar. Ég veit ekki betur en það sé rétt en stjórnin hefur á hinn bóginn ekki tekið ákvörðun um það. Má vera að þessi háttur á ríkisframlögum í gegnum einstaka sjóði sé hæpinn en það felst í því að Ferðamálasjóður hefur breytt lánum sínum í hlutafé en auðvitað haft af þessu tjón og skaða í sambandi við það að vaxtagreiðslur hafa fallið niður til sjóðsins sem hefur verið nettótap sjóðsins á þessum viðskiptum við fjárveitinganefnd.
    Um Hafnabótasjóð og Framleiðnisjóð er það að segja að auðvitað er tilgangur laganna um skattskyldu innlánsstofnana sá að skattleggja lánarekstur. Þessir sjóðir báðir eru að hluta til fjárfestingarlánasjóðir og að því leyti, sem kemur inn á þann rekstur sjóðanna, má segja að rétt sé að þeir sitji við sama borð og aðrir fjárfestingarlánasjóðir. Á hinn bóginn er auðvitað ekki hugmyndin sú að löggjöfin sé með þeim hætti að hún sé eyðsluhvetjandi fyrir stjórnir sjóðanna og verður það atriði sérstaklega athugað í nefnd.