Skattskylda innlánsstofnana

52. fundur
Laugardaginn 14. desember 1991, kl. 14:04:00 (2067)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Ég vil fyrst fagna þeirri umhyggju og þeim stuðningi sem hv. 1. þm. Austurl. hefur í sinni ræðu sýnt Iðnlánasjóði og skipaiðnaðinum og áhuga hans á því að fundnar verði leiðir til þess að fjármagna með öruggum hætti þróunarverk vegna hans. Það er rétt hjá hv. þm. að saman stóðum við að styrkjum til markaðsátaks og framleiðniátaks í íslenskum skipaiðnaði. Það var verk sem hafið hafði verið af hæstv. núv. fjmrh. Reyndar varð það svo nokkru meira með hönnunarstyrkjum til nýsmíðaverkefna hjá

nokkrum stöðvum og á því verður framhald. En ég vil láta það koma fram að skattskylda Iðnlánasjóðs mun ekki að mínu áliti skerða möguleika hans til að halda þessu verki áfram. Hann nýtur nú iðnlánasjóðsgjalds, sem m.a. stendur undir markaðs- og vöruþróunardeild sjóðsins, og eitt af því sem verður vandasamt í útfærslunni á skattskyldu sjóðsins, sem hér er gerð tillaga um, er að sjálfsögðu hvernig skattmeðferðin á iðnlánasjóðsgjaldinu verður. Við því hef ég ekki endanlegt svar en auðvitað fer geta hans til þess að standa undir verkum af því tagi sem hv. 1. þm. Austurl. bar svo mjög fyrir brjósti eftir því hvernig með það verður farið. Þetta vil ég láta koma fram.
    En vegna þess að hv. 1. þm. Austurl. vakti hér upp umræður um önnur mál, m.a. frv. sem er fyrir hv. Alþingi um rétt til veiða í efnahagslögsögu Íslands og um lánareglur Fiskveiðasjóðs og aðgang innlendra skipasmíðastöðva að lánsfé yfirleitt, vil ég láta það koma fram að því máli og tillögum mínum um það í fyrri ríkisstjórn voru gerð mjög ítarleg skil í skýrslu sem lögð var fyrir þingið í desember 1989 á 112. löggjafarþingi, 258. mál, þskj. 457 á því þingi.
    Þar kemur mjög greinilega fram að ég gerði ítrekað tillögur um það að aukinn yrði munur á lánum eftir því hvort nýsmíði skipa í Fiskveiðasjóði væri keypt innan lands eða frá öðrum löndum, að aðgangur iðnaðarins að stjórn þessa lánasjóðs væri aukinn og heimildir rýmkaðar fyrir erlend skip að þiggja hér viðgerðarþjónustu og aðra þjónustu. Samstaða um það mál náðist ekki í fyrri stjórn. Það tel ég að hafi ekki verið vel ráðið. Ég þekki og met rökin sem hv. 1. þm. Austurl. færði fram fyrir því að fara þurfi með gát í því að leyfa aðgang að íslenskum höfnum ef það kynni að verða til þess að auðvelda nytjar okkur í óhag á fiskstofnum á Íslandsmiðum. Nú er hins vegar komið fram frv. um málið sem nýtur víðtæks stuðnings í þinginu frá þingmönnum allra flokka, að ég hygg, og væntanlega fæst þá lausn á málinu.