Skattskylda innlánsstofnana

52. fundur
Laugardaginn 14. desember 1991, kl. 14:57:00 (2077)

     Ólafur Ragnar Grímsson: (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Ég gerði þá athugasemd við gæslu þingskapa og taldi mig rökstyðja það alveg nægilega vel, hæstv. forseti, að erfitt væri að ráðherrar létu frá sér yfirlýsingar af því tagi sem hæstv. fjmrh. gerði undir liðnum andsvar. Hins vegar fagna ég því að hæstv. fjmrh. hefur tekið af skarið hér og lýst því yfir að hann hafi ekki tekið upp þann sið, sem ég taldi ófrávíkjanlega reglu þegar ég var fjmrh., að fjmrh. væri ekki að skoða skattframtöl einstakra borgara. Hæstv. ráðherra tók skýrt fram að hann hefði ekki gert það og hann hefði þess vegna ekki kynnt sér skattframtöl fyrrverandi ráðherra heldur byggt á ummælum þeirra. Það eina sem ég var hér að fjalla um var þessi yfirlýsing ráðherrans hér úr ræðustólnum sem gaf til kynna að hann hefði kynnt sér skattframtölin. Ég tel þess vegna mjög gott að það hefur komið fram að hæstv. ráðherra hefur ekki breytt um siðvenju sem hefur ríkt í fjmrn. og ég vona að hann geri það ekki.