Samningur um hefðbundinn herafla í Evrópu

52. fundur
Laugardaginn 14. desember 1991, kl. 15:57:00 (2082)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
     Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að upplýsa hv. 14. þm. Reykv. um það að hún þarf ekki að óttast að fá heimsókn á Túngötuna frá þessari eftirlitsnefnd því að þeir mega ekki fara inn um dyr sem eru mjórri en tveir metrar. Hv. þm. er því nokkuð öruggur. ( GHelg: Það eru þó fréttir.)
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um fullgildingu samnings um hefðbundinn herafla í Evrópu, sem eins og fram hefur komið, var undirritaður í París 19. nóv. 1990. Fyrir aðeins örfáum vikum hefði okkur öllum þótt sjálfsagt að staðfesta þennan samning og höfum öll tekið undir það að inntak hans er af hinu góða, en sú þróun sem átt hefur sér stað í Austur-Evrópu á undanförnum vikum og dögum er þess eðlis að ýmsar spurningar hafa vaknað um gildi þessa samnings, hvort hann hafi einhverja þýðingu þegar á reynir. Þessi samningur gengur út á fækkun svokallaðra hefðbundinna vopna. Þeir sem fylgst hafa með umræðum um afvopnunarmál á undanförnum árum minnast þess að sú umræða hófst af krafti í kjölfar kólnandi sambúðar milli stórveldanna eftir innrásina í Afganistan 1979 og þeirra ákvarðana NATO-ríkjanna að staðsetja skammdrægar eldflaugar í ýmsum ríkjum Vestur-Evrópu. Almenningur vaknaði upp við vondan draum, hóf að kynna sér málið af krafti og til urðu friðarhreyfingar sem náðu því markmiði sínu að breyta almenningsálitinu í heiminum og tókst að auka mjög þrýsting á stjórnendur stórveldanna sem sáu sér ekki annan kost en að setjast við samningaborðið og reyna þar að ná samkomulagi um fækkun þeirra vopna sem þá voru mest í umræðunni, kjarnorkuvopn af ýmsu tagi.
    Við höfum á undanförnum árum horft upp á þá ánægjulegu þróun að hver samningurinn á fætur öðrum hefur verið gerður um fækkun kjarnorkuvopna, en þar er þó mikið verk óunnið enn og vil ég sérstaklega nefna afvopnun á höfunum sem ég held að við, sem nú sitjum á Alþingi, séum öll sammála um að er afar nauðsynlegt og mikið hagsmunamál fyrir okkur Íslendinga.
    Í öðru lagi á eftir að ná samkomulagi um bann við öllum tilraunum með kjarnorkuvopn sem hlýtur að verða næsta takmark okkar. Þegar þessir samningar, sem ég hef hér gert að umræðuefni, höfðu náðst tóku menn að beina sjónum enn frekar að hefðbundnum vopnum sem að sjálfsögðu voru gríðarlega mikil í allri Evrópu, ekki síst í eystri hluta Evrópu þó að menn geti deilt um gæði þeirra vopna. Þessi samningur sem hér er til umræðu er árangur þeirrar umræðu þar sem fjöldi ríkja lagðist á eitt um að semja um fækkun hefðbundinna vopna í Evrópu.
    Á undanförnum vikum hafa átt sér stað miklar breytingar í Austur-Evrópu. Sovétríkin eru að leysast upp eins og hér hefur komið fram en það eru ekki eingöngu Sovétríkin heldur verðum við líka að horfa á þá atburði sem hafa verið að gerast í Júgóslavíu. Þar er annað ríki sem er að leysast upp og við skulum minnast þess að það ástand sem þar ríkti á árunum fyrir fyrri heimsstyrjöldina var sú púðurtunna sem kveikti þá miklu og hörmulegu styrjöld. Það er því ekki eingöngu ástæða til þess að horfa á Sovétríkin heldur einnig það sem er að gerast í Júgóslavíu sem getur að sjálfsögðu haft áhrif á alla álfuna.
    Þessi samningur snertir okkur Íslendinga að nokkru leyti og hlýtur að kveikja hér umræður um það hver staða Íslands á að vera í breyttri Evrópu þegar búið er að leggja niður Varsjárbandalagið og þjóðir Evrópubandalagsins hafa lýst því yfir að þau hyggist efla sína samvinnu hvað varðar öryggi álfunnar. Ég ligg ekkert á þeirri skoðun minni að ég tel að Íslendingar eigi að móta sér sjálfstæða stefnu í þessum málum. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að við Íslendingar ættum að taka upp þá stefnu sem hér var mótuð árið 1918, þess efnis að Íslendingar væru hlutlausir og ég tel að skilyrði fyrir því að við tökum aftur upp ævarandi hlutleysi Íslands séu að verða til staðar vegna þess að þær forsendur sem Atlantshafsbandalagið byggði á, þ.e. óvinurinn í austri, eru ekki lengur til staðar. Hin svokallaða þýðing Íslands í hernaðaruppbyggingu Atlantshafsbandalagsins hefur byggst á því að Ísland væri mikilvægur hlekkur í því að flytja vopn á milli Bandaríkjanna og Vestur-Evrópu og einnig í því að fylgjast með því sem gerist á höfunum í kringum Ísland. Ég er þeirrar skoðunar að það sé orðið fyllilega tímabært að við tökum sjálf í okkar hendur þá öryggisgæslu sem við teljum nauðsynlega.
    Við höfum þegar séð hér á landi áhrif þeirra breytinga sem orðið hafa í heiminum í þeim samdrætti sem orðið hefur á starfsemi hersins á Keflavíkurflugvelli. Ég er alveg sannfærð um það að sú þróun mun halda áfram. Starfsmönnum þar mun fækka og e.t.v. kemur sú stund að herstöðinni þar verði lokað. Þetta eru mál sem við þurfum að ræða á Alþingi og almennt í þjóðfélaginu því að við vitum það öll að staðsetning bandaríska hersins á Keflavíkurflugvelli hefur haft gífurleg áhrif á okkar þjóðlíf, ekki síst á Suðurnesjunum, og menn verða einfaldlega að gera sér grein fyrir því og ræða það hvernig eigi að bregðast við þessum samdrætti. Hann er ánægjulegur, en hann þýðir auðvitað það að fólk missir vinnu sína og því miður hafa atvinnumál verið mjög vanrækt á Suðurnesjum og menn einblínt um of á herstöðina. Þetta eru allt saman mál sem við þurfum að ræða.
    En í ljósi þeirrar umræðu, sem hér hefur átt sér stað í dag um þennan samning, vil ég ítreka þá spurningu sem hefur komið fram að hæstv. utanrrh. greini okkur frá því hvaða áhrif upplausnin í Sovétríkjunum mun hafa á gildi þessa samnings. Ég vildi gjarnan fá skýringu á því. Ég veit að hér eru margir fróðir menn um þennan samning og þróun mála í Austur-Evrópu. Mér er einfaldlega ekki kunnugt um hvers vegna það hefur dregist svo mjög að Sovétríkin hafi undirritað þennan samning. Það er alveg greinilegt að það er orðið of seint núna að hann verði undirritaður í nafni Sovétríkjanna. En ég fagna innihaldi þessa samnings og vona að hæstv. utanrrh. beiti sér til þess að áframhaldandi afvopnun eigi sér stað í Evrópu og að afvopnun hafanna komist á dagskrá. Jafnframt vil ég láta þá ósk í ljós að þróunin í Sovétríkjunum verði á þann veg að við getum áfram haldið þeirri göngu sem nú hefur staðið í nokkur ár og hefur orðið til þess að vekja vonir um það að friður

muni haldast áfram í Evrópu sem heild og okkar hluta veraldarinnar en því miður er ástandið í ýmsum öðrum heimshlutum þess eðlis að þar er lítil von um frið og framþróun á meðan heimurinn skiptist jafnátakanlega milli ríkra þjóða og fátækra sem raun ber vitni.