Samningur um hefðbundinn herafla í Evrópu

52. fundur
Laugardaginn 14. desember 1991, kl. 16:08:00 (2084)

     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Mér þykir það undarleg þráhyggja að geta ekki viðurkennt að þær friðarhreyfingar sem spruttu upp í Evrópu og Norður-Ameríku höfðu gífurleg áhrif á alla umræðu og alla þróun þessara mála. Þær voru af ýmsu tagi og lögðu ýmsar áherslur ýmist um einhliða afvopnun eða aðrar leiðir í þeim málum og ég er algerlega ósammála hv. síðasta ræðumanni um það að hlutleysi sé úr sögunni. Ég vona svo sannarlega að það geti öll ríki búið við hlutleysi, að það skapist það ástand að slík umræða og hernaðarbandalög séu algerlega óþörf.