Samningur um hefðbundinn herafla í Evrópu

52. fundur
Laugardaginn 14. desember 1991, kl. 16:18:00 (2086)

     Björn Bjarnason (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Af því að hv. síðasti ræðumaður túlkaði höfuðhneigingu mína með ákveðnum hætti vil ég ekki láta undir höfuð leggjast að láta þá skoðun mína koma fram, sem ég hef lýst annars staðar, að ég tel að þróunin sem varð hér í Evrópu í kjarnorkumálunum í byrjun síðasta áratugar hafi skipt sköpum um þróun mála, ekki aðeins öryggismála í Evrópu heldur einnig þróun stjórnmála í Sovétríkjunum, og ég er þeirrar skoðunar að ef Sovétríkin hefðu sigrað í því áróðursstríði sem þá var háð hefðu líkindi fyrir því að Mikhail Gorbatsjov kæmist til valda í Sovétríkjunum verið mun minni en ella.