Samningur um hefðbundinn herafla í Evrópu

52. fundur
Laugardaginn 14. desember 1991, kl. 16:51:00 (2091)

     Steingrímur J. Sigfússon :
     Herra forseti. Aðeins örfá orð af minni hálfu, ekki vegna þess að þetta dagskrármál sé ekki fullkomlega þess verðugt að það sé ítarlega rætt, heldur vegna hins að ég treysti því að tækifæri muni gefast til þess á Alþingi í vetur við aðrar og hagstæðari aðstæður og þegar rýmri tími er fyrir hendi að ræða stóra atburði á sviði utanríkismála og afvopnunarmála rækilega. Auðvitað er alveg ljóst að þingið þarf svo fljótt sem við verður komið að taka sér tíma til rækilegrar umfjöllunar um hina breyttu heimsmynd og stóratburði í alþjóðasamskiptum. Þar er að sjálfsögðu þessi samningur, sem við hér ræðum um fullgildingu á, eitt af því sem ástæða er til að fagna og gleðjast yfir.
    Ég mun einnig geyma hugleiðingar, m.a. vegna ummæla hæstv. utanrrh. um Vestur-Evrópubandalagið eða samlagið eða hvað það nú heitir. Ég treysti því reyndar að málefni Evrópu muni koma til umræðu á þinginu innan skamms, m.a. af nýtilkomnu tilefni. Svo vill til, hæstv. forseti, að ég hef í höndunum fréttaskeyti frá Reuter-fréttastofunni, nokkurra mínútna gamalt, sem flytur fréttir sem ég held að hljóti að koma til umfjöllunar á þinginu fyrr en seinna. Þar er upplýst, og er heimildin Danmarks Radio, að í dag hafi Evrópudómstóllinnn fellt þann úrskurð að samningur Evrópubandalagsins og EFTA um Evrópskt efnahagssvæði fái ekki staðist, sé ,,invalid``, eins og þar segir á erlendu máli, og taka verði hann upp og endursemja um þau ákvæði þar sem hann fái ekki samrýmst grundvallarákvæðum Rómarsáttmálans, sérstaklega ekki það sem snýr að dómstólunum.
    Það er kannski leyfilegt, hæstv. forseti, að lesa örfáar línur á erlendu máli ef hv. alþm. skilja betur með því ( Utanrrh.: Þú þýðir þetta nú á móðurmálið.) hvað ég er að fara. Ég er að reyna að þýða þetta á móðurmálið, hæstv. utanrrh., og skiljanlega veit ég að hæstv. utanrrh. hefur áhuga á því að fá þetta á einhverja tungu sem hann skilur. Það stendur sem sagt í þessu fréttaskeyti:
    ,,Evrópudómstóllinn í Lúxemborg felldi á laugardag [þ.e. í dag] þann úrskurð að samningur Evrópubandalagsins og EFTA væri ógildur og yrði að takast upp og endurgerast samkvæmt fréttum í danska útvarpinu. Danska útvarpið sagði dóminn hafa ákveðið að dómstólaákvæði samningsins eða hluti samningsins fengi ekki samrýmst grundvallarákvæðum Rómarsáttmálans. Enn fremur sagði danska útvarpið að framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins mundi halda neyðarfund á morgun, á sunnudag, og utanríkisráðherrar Evrópubandalagsins mundu hittast strax á mánudaginn til að,`` eins og segir í skeytinu, ,,ræða hvernig hinum nýju samningaviðræðum yrði við komið.``
    Ég taldi óhjákvæmilegt að nefna þetta hér, úr því að umræður standa yfir, hæstv. forseti, um utanríkismál og m.a. hefur verið rætt dálítið um Vestur-Evrópusamlagið. Það er nú svo að ekki er alveg víst að þar sé allt jafnfast í hendi eins og hæstv. utanrrh. gæti gefið mönnum tilefni til að halda með ummælum sínum undanfarna daga. Við höfum af því nokkra reynslu, því miður, og hana heldur dapurlega, hv. alþm., að ýmislegt tekur breytingum sem okkur var áður sagt að væri ákveðið og frágengið. Þannig höfum við upplifað það að tegundin langhali breyttist í karfa á einni nóttu og margt fleira hefur farið úr böndunum sem hæstv. utanrrh. hefur talið frágengið og jafnvel hreykt sér af. Hér virðast stóratburðir vera að gerast sem ég tel óhjákvæmilegt að forusta þingsins, virðulegur forseti, og formenn þingflokka, hæstv. utanrrh. og utanrmn.-menn ræði þegar að loknum þessum fundi eða í framhaldinu hvernig með verði farið. Ég sé ekki að nokkur von sé til annars en að Alþingi verði að taka þessa nýjustu atburði til umfjöllunar með einhverjum hætti og skoða hvaða áhrif þeir hafi eða muni hafa hér á nefndarstörf og fundahöld á næstu sólarhringum.
    Virðulegi forseti. Ég lýk máli mínu í trausti þess að að þessir atburðir verði teknir til umfjöllunar og okkur gefist næg tækifæri til þess á þinginu við hentugar aðstæður að ræða hina stóru atburði í utanríkis- og afvopnunarmálum eins og þörf er á.