Samningur um hefðbundinn herafla í Evrópu

52. fundur
Laugardaginn 14. desember 1991, kl. 16:57:00 (2092)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
     Virðulegi forseti. Það kom í hlut hv. 4. þm. Norðurl. e. að gerast hér boðberi válegra tíðinda. Rétt er að taka það fram að hann á enga sök á þeim válegu tíðindum sem hann flutti. (Gripið fram í.) Það þarf ekki rannsókn. Það sem hann fór hér með er fréttaskeyti frá Reuter sem hann hefur fengið frá fréttamönnum hér á ganginum. Efnislega fór hann rétt með, nefnilega að samkvæmt heimild danska útvarpsins sem Reuter-fréttastofan flytur er niðurstaða dómara Evrópubandalagsdómstólsins að EES-samningurinn á dómstólasviðinu sé, eins og það er orðað, ógildur og verði að takast upp aftur. Útvarpið sagði að dómstóllinn hefði ákveðið að dómstólakerfi sem stofnað væri samkvæmt samningnum væri ósamrýmanlegt Rómarsáttmálanum. Þetta er kjarni málsins og síðan eru boðaðir neyðarfundir framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins og ráðherraráðs Evrópubandalagsins nk. sunnudag og mánudag.
    Hvað merkja þessi tíðindi? Sem kunnugt er vísaði framkvæmdastjórnin þeim þætti málsins sem varðaði dómstólaskipunina og dómstólakerfið til umsagnar dómara í Evrópubandalagsdómstólnum. Það var reyndar gert áður en samningsniðurstaðan fékkst í Lúxemborg. Hins vegar hefur það dregist mjög lengi að dómararnir hafi skilað áliti. Kunnugt var um það að það átti að gerast á föstudag og síðan var áformað að framkvæmdastjórnin og ráðherraráðið tæki þær niðurstöður til umfjöllunar og ætluðu sér til þess um það bil 10 daga. Að venju hefur þessu öllu verið lekið út eins og við erum orðin vön í öllum samskiptum við Evrópubandalagið.
    Sé rétt farið með það sem segir í þessum fréttaskeytum er það vissulega mikið mál að því er varðar spurningar sem vakna upp um framtíð samningsins. En spurningarnar eru margar. Það fyrsta sem um þetta er að segja er að sjálfsögðu það að hér er um að ræða innri vandamál Evrópubandalagsins. Við hverja sömdu EFTA-ríkin? EFTA-ríkin sömdu við framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins sem hafði til þess umboð frá ráðherraráðinu. EFTA-ríkin sömdu ekki við dómstól. EFTA-ríkin sömdu ekki við Evrópuþingið í Strassborg og EFTA-ríkin sömdu ekki við einstök aðildarríki heldur við framkvæmdastjórnina. Það sem nú hefur gerst er að ein stofnun innan bandalagsins segir að framkvæmdastjórnin hafi brotið Rómarsáttmálann og þar með náttúrlega farið fram yfir samningsumboð sitt. Hvað merkir það í ljósi umræðunnar sem hér hefur verið og reyndar meðal margra EFTA-þjóða um niðurstöðu samningsins? Því var haldið fram hér í síbylju að þessi samningur táknaði að EFTA-ríkin hefðu engin áhrif varðandi innri ákvarðanir EES og allt væri þetta algerlega á forræði Evrópubandalagsins og að þarna hefði átt sér stað mikið framsal á dómsvaldi EFTA-ríkjanna til bandalagsins o.s.frv. Það sem bandalagið er hér að segja, þ.e. dómararnir í Evrópubandalagsdómstólnum, er þvert á móti að EES-samningurinn tryggi EFTA-ríkjunum of mikil áhrif varðandi þetta lykilsvið samningsins sem varðar úrskurð í ágreiningsefnum og það þýðir eftirlitsstofnun og dómstóla. Það samrýmist ekki sjálfræði stofnana Evrópubandalagsins. Með öðrum orðum eru þeir hér að kveða upp úrskurð sem gengur þvert á það sem haldið hefur verið fram og beint að EFTA-ríkjunum undir formerkjum gagnrýni.
    Á þessari stundu er það ekki mitt og ekki EFTA-ríkjanna að segja margt um það sem hér hefur skeð. Þetta er auðvitað fyrst og fremst vandamál Evrópubandalagsins. Þetta

er vandamál sem staðfestir reyndar þá gagnrýni, sem ég hef leyft mér að flytja að fenginni reynslu af samningum við Evrópubandalagið, að þar sé erfitt að treysta orðum og niðurstöðu einnar stofnunar vegna þess að Evrópubandalagið virðist koma fram á mörgum stigum í slíkum samningum. Það er ekki í reynd við neinn einn aðila að ræða. Þótt formlega sé framkvæmdastjórnin með samningsumboðið höfum við haft af því reynslu áður að einstakar aðrar stofnanir, Evrópubandalagsþingið, einstök aðildarríki eða enn aðrar stofnanir, hagsmunaaðilar í einstökum aðildarríkjum hafa reynt að hnekkja því sem framkvæmdastjórnin hefur sagt í samningum. Þess vegna hefur framkvæmdastjórnin einatt staðið frammi fyrir því að geta ekki staðið við samningstilboð sín. Hér er með öðrum orðum komið upp vandamál sem Evrópubandalagsþjóðirnar verða að gera upp við sjálfar sig. Þær hljóta að gera það upp sín í milli hvort framkvæmdastjórnin hafi ekki haft samningsumboð, hvort hún hafi farið fram yfir samningsumboð sitt. Það er auðvitað fyrst og fremst vandi þess samningsaðilans sem er í þessum sporum að koma til EFTA-ríkjanna, ef þau gera það, með ósk um að samningarnir verði teknir upp á þessu samningssviði. Viðbrögð EFTA-ríkjanna eru einfaldlega þau að við höfum náð samningum sem réttir aðilar innan Evrópubandalagsins hafa lýst fullgilda. Sá aðili í slíkum samningum sem nú óskar af þessum ástæðum að taka samningana upp hlýtur að eiga það undir hinum samningsaðilanum. Um niðurstöðuna skal ekkert fullyrt. En ég legg á það áherslu að við lítum svo á að þetta sé innra vandamál Evrópubandalagsins. Við munum bíða átekta meðan þau eru að gera upp þennan innri ágreining sinn. Við munum að sjálfsögðu ráðgast um það í okkar hópi, vegna þess að okkur kemur þessi niðurstaða dómstólsins út af fyrir sig ekki á óvart, hvernig við munum bregðast við, hvort við munum gefa kost á því að þessi þáttur samningsins verði tekinn upp. Það er ekki hægt að fullyrða um það á þessu stigi málsins. Við verðum að heyra það nákvæmlega og nákvæmar en af fréttaskeytum hver þau lykilatriði í samningnum eru sem dómstóllinn telur að samrýmist ekki Rómarsáttmálanum. Þetta mun að sjálfsögðu hafa þau áhrif að draga enn á langinn að samningurinn verði fullfrágenginn, að hann verði áritaður hvað þá heldur undirritaður og staðfestur. Meira hef ég ekki um það mál að segja.
    Tvennt annað bar á góma. Hið fyrra varðar spurninguna um hugsanlega áheyrnarfulltrúa að aðild Íslands að Vestur-Evrópubandalaginu. Ég segi það eitt um það mál að það mun bera að með réttum hætti. Það verður tekið upp í ríkisstjórn. Það verður að sjálfsögðu rætt í utanrmn. þannig að í það þarf ekki að eyða miklum tíma nú. Annað var að hv. boðberi válegra tíðinda, 4. þm. Norðurl. e., hafði uppi orð sem mér fyndist að hann ætti að biðjast velvirðingar á. Hann sagði að það hefði enn einu sinni gerst, og staðfesti eitthvað sem áður hefði gerst, að Alþingi hefði ekki verið veittar réttar upplýsingar um hluti. Þannig hefði ákveðin fisktegund breytt um eðli, langhali breyst í karfa o.s.frv. Að gefnu tilefni tek ég bara fram að búið er að færa á það sönnur, hafi menn skort eitthvað á þær sönnur, að ég og sjútvrh. skýrðum rétt og satt frá niðurstöðum samningsins. Við gáfum um það greinargerð í utanrmn. Það hefur verið farið yfir það af hljómböndum meira að segja, fengnar útskriftir og það er rétt með farið. Við höfðum uppi varnaðarorð um það. Það er rangt, sem hefur verið haldið fram, að nokkurn tíma hafi verið sagt að þessi samningur hafi verið fullfrágenginn. Hann var það ekki. Viðvörunarorðin voru höfð uppi þannig að það eru ósannindi að hvort heldur ég eða sjútvrh. hafi farið með rangt orð um það.