Samningur um hefðbundinn herafla í Evrópu

52. fundur
Laugardaginn 14. desember 1991, kl. 17:07:00 (2093)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Við höfum heyrt mikil tíðindi í salnum í dag. Það er ljóst að þau eiga eftir að hafa afgerandi áhrif á margt í okkar málefnum og í íslenskum stjórnmálum. Ég stóð upp til þess að koma þeirri frómu ósk á framfæri við hæstv. utanrrh. að hann færi sér hægt í túlkanirnar, biði bara rólegur án þess að vera að segja mikið á þessari stundu og gæfi okkur öllum tækifæri til þess að ræða saman um þessi mál áður en hann færi fram

á völlinn til að lýsa hvað nú. Það er t.d. ekki rétt lýsing að segja að þetta sé bara vandamál Evrópubandalagsins nema afstaðan sé sú að EFTA ætli alls ekki að breyta samningnum. Sé það afstaða EFTA að segja skilyrðislaust: Við ætlum ekki að breyta samningnum er hægt að segja hér eins og utanrrh. sagði: Þetta er bara vandamál Evrópubandalagsins. Um leið og EFTA fer að ljá máls á því að breyta samningnum í samræmi við niðurstöðu Evrópudómstólsins verður málið vandamál EFTA. Og hvað er það sem hér er verið að tala um? Ef maður ræður að líkum þá er verið að tala um þá kröfu Evrópudómstólsins að fá fulla lögsögu, endanlega og afgerandi, yfir öllum þeim efnahagsmálum í EFTA-löndunum sem samið er um í Evrópsku efnahagssvæði. Þar með yrði Evrópudómstóllinn æðsta dómsvald Íslands á mjög stórum sviðum í okkar þjóðfélagi. Þess vegna held ég að skynsamlegast væri hjá öllum að vera ekki með miklar yfirlýsingar á þessu stigi. Ég vil koma þeirri ósk til hæstv. utanrrh. að nú bíði menn með hin stóru orðin og ræði saman um þá afstöðu sem tekin verður í framhaldi af þessum tíðindum.