Samningur um hefðbundinn herafla í Evrópu

52. fundur
Laugardaginn 14. desember 1991, kl. 17:09:00 (2094)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
     Hæstv. forseti. Það liggur nú í hlutarins eðli að erfitt er að veita andsvar við ræðu manns sem er rokinn burt úr fundarsalnum. Ég held að ég hljóti að fara fram á að hæstv. utanrrh. komi hér aftur. Honum var ljóst að ekki færri en þrír þingmenn höfðu beðið um að fá að veita andsvar við ræðu hans en tók samt strikið út úr salnum, henti tösku sinni í stól í hliðarbergi og hvarf á braut. (Gripið fram í.) Ég á ekkert vantalað við hæstv. forseta um þetta mál, ég hef ekkert út á fundarstjórn hæstv. forseta að setja. Það er hæstv. utanrrh. sem ég ætlaði að veita andsvar. Ég bíð því, vona að klukkan verði stillt á nýjan leik þegar hæstv. utanrrh. gengur í salinn þannig að ég geti komið mínu andsvari á framfæri, ekki nema ég eigi að ávarpa töskuna. Það er að vísu ljóst að töskur gegna mikilvægu hlutverki í lífi hæstv. utanrrh. og ýmislegt hendir þær, en ég held að þær hafi ekki enn fengið þann status að tala máli hans og hlýða á andsvör þingmanna nema þá fyrst nú. (Gripið fram í.) Það er fullt samkomulag milli forseta og ræðumanns um það að klukkan verði stillt upp á nýtt. ( Forseti: Það er þegjandi samkomulag á milli hv. 4. þm. Norðurl. e. og forseta að bíða komu hæstv. utanrrh. svo að hann geti heyrt andsvarið sem hann á von á frá hv. þm.) --- Hæstv. forseti. Ég vona að utanrrh. sé ekki kominn upp á Akranes eða annað lengra þannig að ég fái ekki verk í fæturna að bíða eftir honum. (Gripið fram í: Hann er á rauðu ljósi.) ( Forseti: Þá er þetta þegjandi samkomulag forseta og hv. 4. þm. Norðurl. e. rofið með því að hv. 4. þm. Norðurl. e. veitir andsvar við ræðu hæstv. utanrrh.)
    Já, það gleður mig stórlega, virðulegur forseti, að hæstv. utanrrh. skuli kominn í salinn á nýjan leik og ég vona að framvegis leiðist honum ekki svo mjög inni í þingsalnum að hann þurfi að taka strikið út þó svo að þrír hv. þm. hafi beðið um orðið og hyggist nota rétt sinn til að veita andsvar við ræðu hans.
    Ég taldi sjálfsagt að hreyfa þessu máli úr því að þingið átti orðastað við hæstv. utanrrh. og óhjákvæmilegt var að mínu mati að nota þetta tækifæri til þess að taka málið upp og gera það heyrinkunnugt, en að sjálfsögðu eru engin tök á að ræða það efnislega fyrr en menn hafa haft fyllri fregnir af því sem er á ferðinni.
    Að öðru leyti lýtur andsvar mitt að því að ég bið hæstv. utanrrh. nú sem endranær að hafa rétt eftir. Ég fullyrti ekkert um rangar upplýsingar sem sem veittar höfðu verið þinginu. Ég sagði að ekki hefði reynst það hald í hlutunum sem gefið hefði verið í skyn í hverju málinu á fætur öðru í sambandi við samningana. Ég var þar að vitna t.d. til niðurstöðu Lúxemborgarfundarins fyrri snemmsumars þegar komið var heim með lúðrablæstri og söng og mikill ávinningur og sigur básúnaður í hið fyrra sinnið, en síðan reyndust ekki

innstæður fyrir því öllu sem þar hafði verið sagt.
    Í annan stað komu menn aftur heim sigurreifir og gáfu fyllilega til kynna, sbr. ummæli og afstöðu hagsmunasamtaka í sjávarútvegi, að tiltekinn árangur hefði náðst í samningum. Það reyndist því miður ekki það hald í því efni eins og menn höfðu gefið í skyn og nú er í þriðja sinnið komin fram a.m.k. uppákoma af því tagi í samningaferlinu sem setur óumdeilanlega mikið strik í reikninginn. Ég forðaðist að láta efnislega afstöðu mína koma fram enda engin efni til að móta hana nú, hafandi eingöngu skyndifregnir af þessum atburðum. En ég mótmæli því að hæstv. utanrrh. rangfæri orð mín og snúi út úr þeim. Ég er ekki þar með að segja að ég hafi ekki innstæður til þess að taka dýpra í árinni en ég gerði.