Samningur um hefðbundinn herafla í Evrópu

52. fundur
Laugardaginn 14. desember 1991, kl. 17:17:00 (2096)

     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
     Virðulegur forseti. Ég skal láta það vera að tala um fortíðina í þessu mikilvæga máli þó það væri vissulega ástæða til þess. Það sem getur orðið mikilvægast við þessi tíðindi sem nú eru komin og ef þau eru skoðuð í ljósi þeirrar staðreyndar að Evrópubandalagið hefur ákveðið að flýta því að hefja viðræður við ákveðnar EFTA-þjóðir um aðild að Evrópubandalaginu er að ekki er ólíklegt að fleiri EFTA-þjóðir muni ákveða að flýta sér sem mest til þeirra viðræðna, sérstaklega ef það liggur fyrir að dómstólaákvæðið verði með þeim hætti að það líkist því sem gildir innan Evrópubandalagsins sjálfs. Ég tel að það sé það versta við þessi tíðindi að sú staða getur áreiðanlega komið upp því að það hefur heyrst að jafnvel þjóðir eins og Sviss hyggist nú sækja um aðild að Evrópubandalaginu. Því er ekki ólíklegt að samningarnir um hið Evrópska efnahagssvæði muni renna út í sandinn í framhaldi af þessari uppákomu og því er mjög mikilvægt að vel sé haldið á málum frá EFTA-hliðinni. En það er óþolandi hvernig mál ber að í þessu alvarlega og mikilvæga máli. Það er nánast undantekningarlaust að þau komi inn á borð þingmanna í gegnum fjölmiðla. Ekki virðist vera hægt að byrja á því að ræða alvarleg mál í þessu sambandi í utanrmn. landsins, hvorki í þessu tilviki né í neinu öðru tilviki hvort sem það er Evrópubandalaginu að kenna eða ríkisstjórn Íslands. Annaðhvort kemur það beint í gegnum fréttir frá Evrópubandalaginu eða frá ríkisstjórn Íslands, beint í gegnum fréttir, en almennt ekki inn í utanrmn.