Tekjuskattur og eignarskattur

53. fundur
Mánudaginn 16. desember 1991, kl. 13:13:00 (2107)

     Halldór Ásgrímsson :
     Virðulegur forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt sem gengur út á það að koma í framkvæmd þeim áformum sem ríkisstjórnin birti í fjárlagafrv. um hækkun á tekjuskatti og eignarskatti. Hér er um allverulega hækkun að ræða sem í fyrsta lagi snertir einstaklinga í landinu og í öðru lagi atvinnureksturinn.
    Að því er varðar einstaklinga gaf ríkisstjórnin það til kynna í fjárlagafrv. að ekki yrði um almenna hækkun á skatthlutfalli að ræða heldur yrði fyrst og fremst hækkaður tekjuskattur á þeim sem nytu tiltekinna bóta eða tiltekins afsláttar í tekjuskatti. Þannig var nefnt til sögunnar sem dæmi sjómannaafsláttur, skattaafsláttur vegna hlutabréfakaupa, barnabætur, vaxtabætur og húsnæðisbætur. Niðurstaða þessarar umfjöllunar sem birtist í frv. er sú að tekjuskattur barnafjölskyldna skuli hækkaður sérstaklega, þ.e. þeirra barnafjölskyldna sem hafa hærri tekjur. Það er ekki gert ráð fyrir að hækka tekjuskatt þeirra sérstaklega sem hafa hærri tekjur heldur eingöngu ef um er að ræða einstaklinga sem eiga börn og hafa hærri tekjur en almennt gerist. Þeir einstaklingar sem ekki eiga börn fá ekki skattahækkun. Það er nokkuð sérkennilegur framgangsmáti en þannig er það.
    Í öðru lagi er gert ráð fyrir að nokkur breyting verði á vaxtabótum og húsnæðisbótum og hækkun verði á skatti þeirra sem þeirra njóta. Í síðasta lagi er gert ráð fyrir að hækka tekjuskatt sjómanna sérstaklega. Það er sem sagt gert ráð fyrir að ein tiltekin stétt í landinu fái sérstakar skattahækkanir á sama tíma og aðrar stéttir munu ekki fá slíkan glaðning frá núv. ríkisstjórn.
    Nú ætla ég ekki að gera þessi mál að frekara umtalsefni hér í upphafi en koma nánar að þeim síðar og vildi þá snúa mér að skattlagningu atvinnurekstrarins. Þar er gert ráð fyrir allnokkrum breytingum sem munu leiða til meiri skattlagningar á atvinnurekstur í landinu. Þetta er vissulega ekki eina málið þar sem slík áform koma fram. Ýmis önnur gjöld á atvinnurekstur hafa séð dagsins ljós og er þar um allverulegar skattahækkanir á atvinnureksturinn í landinu að ræða.
    Nú vil ég ekki að orð mín skiljist svo að ég hafi ekki skilning á því að draga þurfi úr útgjöldum og breyta sköttum í hinu erfiða ástandi ríkisins, en það er að sjálfsögðu ekki sama hvernig að er staðið og má segja að allt gangi út á það hjá hæstv. núv. ríkisstjórn að halda því fram að ekki sé verið að hækka skatta en hún er samt að því. Það má segja að allar skattahækkanir byggist á því að sem auðveldast sé að fela að um skattahækkanir sé að ræða. Ekki er mjög líklegt að mjög vel takist til í skattlagningu þegar þetta er gert að aðalatriði. Þá er nú betra að ganga hreint til verks og viðurkenna það sem liggur augljóslega fyrir að um skattahækkanir sé að ræða og leggja skatta á með eins réttlátum hætti og hugsast getur en ekki gera það að aðalatriði hversu þægilegt er að fela það að um skattahækkanir er að ræða. Skýringin á þessu er einfaldlega sú að núv. stjórnarflokkar lýstu

því mjög ákaft yfir fyrir kosningar að ekki kæmi til greina að hækka skatta í landinu og þeir eru þess vegna múlbundnir við þessar yfirlýsingar sínar og þeir reyna allt hvað þeir geta til að halda því fram að skattar hækki ekki nokkurn skapaðan hlut. Það er ekki staðreyndin, en þeir hafa valið það að hækka skatta á tilteknum hópum en ekki með almennum aðgerðum sem mér hefði fundist eðlilegra við þessar aðstæður.
    Að því er varðar skattlagningu fyrirtækja, sem ég vildi koma næst að, er í fyrsta lagi gert ráð fyrir að 57. gr. skattalaga, sem fjallar um rekstrartap, verði breytt í verulegum mæli. Það eru almenn viðhorf í skattamálum atvinnufyrirtækja að þau fái að draga frá allan rekstrarkostnað sem af því hlýst að afla tekna. Margir halda því fram að atvinnurekstur í landinu hafi marga óeðlilega frádráttarliði sem beri að afnema og eru oft tilteknir í því sambandi liðir eins og tap fyrri ára, afskriftir og jafnvel annar kostnaður. Sá kostnaður, sem er t.d. afskriftir, er ekkert annað en dreifing á kostnaði yfir tiltekinn árafjölda og það tap sem hlýst af atvinnurekstri er rekstrarkostnaður sem aldrei hefur verið dreginn frá og því verið talið eðlilegt að heimilt sé að draga þennan kostnað frá ef tekjur myndast síðar.
    Það sem hefur orðið tilefni til mikillar umræðu um þessi mál er sameining fyrirtækja og sú staðreynd að þegar fyrirtæki eru sameinuð þá er hægt að sameina skyldur félaganna og réttindi, þar á meðal skattalegar skyldur og skattaleg réttindi. Það er alveg ljóst að ýmis óeðlileg tilvik geta komið upp í þessu sambandi. Hins vegar má breyting á löggjöf ekki verða til þess að koma í veg fyrir hagræðingu eða draga úr þeirri tilhneigingu sem gætir í landinu að atvinnureksturinn skili sem mestum tekjum. Menn mega ekki horfa um of á einstök dæmi þótt þau kunni að reynast óeðlileg við fyrstu sýn því oft og tíðum eru önnur sem er líka mikilvægt að tryggja og því með öllu ósæmandi fyrir núv. hæstv. ríkisstjórn að fara að ræða skattamál út frá tilteknum fyrirtækjum eða jafnvel tilteknum einstaklingum í landinu. Það hefur núv. ríkisstjórn gert og valið ákveðið fyrirtæki á sunnanverðu landinu sem tekið hefur verið sem sérstakt dæmi um það að skattalögum skyldi breytt.
    Nú ætla ég ekki að dæma um það en mjög fágætt að er ráðherrar ræði skattamál út frá einstökum fyrirtækjum og maður spyr hvort það sé næst á dagskrá að ræða skattamál út frá tilteknum nafngreindum einstaklingum. Þetta eiga menn aldrei að gera, en það er eins og svo margt annað sem núv. ríkisstjórn stendur fyrir að hún mætti hugsa um að segja heldur minna og reyna að koma meiru í framkvæmd. En yfirlýsingagleðin hefur gagntekið hæstv. ráðherra í allmiklum mæli.
    Nú er komið fram frv. til breytinga um hvernig skuli farið með skattalegt tap fyrirtækja frá fyrri tíð. Þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta: ,,Tap flyst ekki milli félaga þegar það félag sem slitið var átti fyrir slitin óverulegar eignir eða hafði engan rekstur með höndum.`` Þetta ákvæði er í núgildandi lögum og hefur bærilega tekist til eftir því sem ég best veit að framkvæma það. Síðan er bætt við samkvæmt tillögu hæstv. fjmrh.: ,,Sameining félaganna verður og að vera gerð í rekstrarlegu hagræðingarskyni eða öðrum venjulegum og eðlilegum rekstrartilgangi.`` Ég spyr hæstv. fjmrh.: Hver ætlar sér að túlka þessa grein? Hver er tilbúinn til að kveða upp úr um það þegar fyrirtæki eru sameinuð hvort þar sé verið að sameina í hagræðingarskyni eða ekki? Hver er tilbúinn að túlka það hvort um venjulegan og eðlilegan rekstrartilgang er að ræða? Ég tek eftir því að hjá Verslunarráði Íslands er einn hv. þm. á Alþingi starfsmaður, og hefur hann komið auga á þetta og kemur það í ljós í bréfi sem hann hefur ritað efh.- og viðskn. Þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta: ,,Í 7. gr. frv. er þrengt mjög svigrúm til yfirfærslu rekstrartaps við sameiningu fyrirtækja. Ákvæði greinarinnar eru með mörgum skilyrðum og ýmsum svo óljósum en öðrum svo hörðum að ekki verður betur séð en að yfirfærsla rekstrartaps við sameiningu fyrirtækja sé ómöguleg. Með samþykkt slíkrar breytingar er verið að torvelda mjög eðlilega þróun atvinnulífs og fjölga gjaldþrotum í atvinnurekstri. Ljóst er að finna verður betri leiðir til að koma í veg fyrir misnotkun þessarar heimildar til yfirfræslu rekstrartaps en fram kemur í frumvarpinu.`` Undir þetta ritar hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Verslunarráðsins.
    Það er alveg ljóst að sá ágæti þingmaður og Verslunarráðið í heild hefur komið auga á að það sé verið að gera sameiningu fyrirtækja nánast ómögulega. Þeir koma auga á að verið sé að torvelda þróun atvinnulífsins og fjölga gjaldþrotum í atvinnurekstri.
    Nú er mér kunnugt um að núv. ríkisstjórn hefur mjög aðhyllst þá stefnu sem við köllum gjaldþrotastefnu í atvinnulífinu. En mér var ekki ljóst að það yrði svo langt gengið að það yrði sérstaklega farið að breyta skattalögum til að greiða fyrir gjaldþrotum eins og hv. þm. Vilhjálmur Egilsson er að benda á. Ég hafði heldur ekki látið mér detta í hug að það stæði til að torvelda þróun atvinnulífsins eins og hér kemur fram. En jafnvel þótt að komi inn einhver ákveðin vandamál þá mega menn ekki ganga svo langt í að reyna að leysa vandamálin að þeir torveldi eðlilega þróun á öðrum sviðum. Ég er satt best að segja undrandi á því hvað hæstv. fjmrh. gengur langt í þessu efni. Þá er jafnframt tekið fram að ekki sé heimilt að flytja tap milli ára lengur en fimm ár. Nú getur það verið fullkomlega eðlilegt að tap sé frádráttarbært í lengri tíma. Ég bendi á að ýmsa útgjaldaliði skattalaga er skylt að færa til frádráttar samkvæmt lögum, t.d. má ekki fyrna tilteknar eignir á styttri tíma jafnvel þótt ljóst sé að endingartími þeirra er miklu lengri. Þannig getur verið að eign eins og fiskiskip endist í 30 ár, jafnvel þótt skylt sé að fyrna hana á 10 árum. Því er ekkert óeðlilegt í reynd þótt verulegt tap komi fram fyrstu 10 árin en hins vegar komi hagnaðurinn síðar þegar afskriftartímanum er lokið. Ef slík fimm ára regla er samþykkt þá væri verið að koma í veg fyrir að slíkt tiltekið fyrirtæki gæti dregið rekstrarkostnað frá tekjum sínum sem er fullkomlega óeðlilegt. Þannig að ég vil hvetja til þess að þessi grein sé tekin til endurskoðunar. Þar að auki segir í þessari grein, með leyfi forseta: ,,Eigendur meiri hluta eignarhluta þess félags sem niður er lagt skulu hafa átt eignarhluti sína í því félagi í a.m.k. þrjú ár á sameiningardegi og þeir skulu eftir sameiningu eiga hlutabréf eða eignarhlut í því félagi sem við tekur í samræmi við eignarhlutdeild sína í því félagi sem niður er lagt.`` Það er sem sagt nákvæmlega fyrir sagt um það hverjir megi eiga hið tiltekna félag. Ef hin minnsta breyting verður á því þá fellur réttur til yfirfærslutaps niður. Þetta hefði einhvern tímann verið kölluð miðstýringarstefna eða forsjárhyggja. Það vill nú svo til að menn hafa verið að reyna að þróa frelsi á verðbréfamarkaðnum. Ég hef skilið núv. hæstv. ríkisstjórn þannig að hún vildi auka það frelsi sem mest og menn gætu verslað með hlutabréf og verðbréf nokkurn veginn óheft. En þarna kemur fram allt önnur hugsun en áður hefur sést. Ég er ekki með þessum orðum að segja að ekki sé full ástæða til að líta á ákvæði 57. gr. og þrengja hana eitthvað en mér finnst eins og greinin sé samin út frá tilteknum afmörkuðum dæmum, jafnvel nafngreindra félaga, sem ráðherrar hafa staðið fyrir að varpa inn í umræðuna. Það er það sem er alvarlegt við það frv. sem hér er til umræðu.
    Enginn hefur varpað því sérstaklega inn í umræðuna að t.d. tiltekinn banki sem ríkið seldi skuli hafa fengið miklar heimildir til yfirfæranlegs taps. Því hefur ekki verið varpað sérstaklega inn í umræðuna. En af því að tiltekið útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki á suðurhluta landsins átti í miklum erfiðleikum og var að reyna að sjá fram úr þeim og koma á endurskipulagningu rekstrarins þótti ástæða til að taka málið sérstaklega upp. Það þótti ekki sérstök ástæða til þess út af nefndum banka. Nei, ekki aldeilis.
    Ég vildi varpa því fram til hæstv. fjmrh. að hér er að sjálfsögðu um afturvirkt ákvæði að ræða. Hér er verið að ákveða það að tilteknir hlutir sem hafa verið frádráttarbærir samkvæmt lögum um langan tíma skuli ekki lengur vera frádráttarbærir. Og taka í burtu löglega myndaðan frádrátt hjá atvinnurekstrinum í landinu. Ég vil biðja hæstv. fjmrh., af því hann hefur mikið þurft að rifja upp sínar fyrri ræður í þinginu, sem margar hverjar hafa verið nokkuð langar, að athuga hvort hann finni ekki einhvers staðar einhvern kafla um afturvirk skattaákvæði. Ég er nokkurn veginn viss um að hann þyrfti ekki annað að gera en að biðja tölvudeildina að fletta upp orðunum afturvirkt skattaákvæði, þá mundi hann finna margar ræður, bæði eigin ræður og samflokksmanna um þessi mál. Ég ætla ekki að hafa frekari orð um það en ég vísa til allra þeirra umræðna og bið hæstv. fjmrh. að rifja það upp. Ég vil líka biðja hann að rifja upp ræður um sveiflujöfnun í atvinnurekstri en bæði hann og aðrir sjálfstæðismenn hafa flutt margar og merkar ræður um það. Auðvitað er tapfrádráttur ekkert annað en sveiflujöfnun í atvinnurekstri, þ.e. að heimila atvinnurekstrinum að vinna til baka án skattlagningar þau skakkaföll sem hann hefur orðið fyrir.
    Mikið hefur verið rætt um það í skattamálaumræðunni að rétt væri að snúa þessu við. Þ.e. að heimila fyrirtækjum að leggja til hliðar í góðæri til að mæta hugsanlegu tapi síðar meir. Tapfrádrátturinn yrði fluttur til þannig að heimilt væri að færa tapið til frádráttar áður en menn lentu í taprekstri. Og um þetta hefur hæstv. fjmrh. áreiðanlega haldið einhverjar ræður.
    Ég hef ávallt litið svo á ef taka ætti tapfrádrátt fyrri tíma til endurskoðunar þá yrði það að gerast í tengslum við það að menn tækju upp heimild til að færa tap til frádráttar fyrir fram og það kæmi þó til skattlagningar síðar ef ekkert tap yrði í viðkomandi atvinnurekstri. Þetta er sú hugsun sem er á bak við sveiflujöfnun í atvinnurekstri. En með því að heimila ekki lengur þetta rekstrartap í lengri tíma en fimm ár er algerlega verið að snúa þessari hugsun við.
    Í frv. eru ákvæði sem varða meðferð á arði, sem snertir vissulega atvinnureksturinn. Þar er gert ráð fyrir að arðsgreiðslur verði ekki lengur frádráttarbær hjá fyrirtækunum, en greiðslurnar verði algjörlega skattfrjálsar hjá móttakanda. Málið verður að skoða í ljósi þess að svo virðist vera að núv. ríkisstjórn hafi áform um að samræma skattlagningu eigna og eignatekna. En í fjárlagafrv. segir m.a., með leyfi hæstv. forseta: ,,Skattlagningu eigna og eignatekna þarf að samræma. Núverandi tilhögun einkennist af fjölda undanþágna og flóknum álagningarreglum. Aukið frjálsræði í viðskiptum með fjármagn kallar á samræmingu í átt til þess sem gildir í öðrum löndum. Þessi breyting er ekki sérstaklega ætluð til að skila ríkissjóði auknum tekjum heldur tryggja sanngjarna og samræmda skattheimtu.``
    Skattlagning fjármagnstekna og reglur um þá skattlagningu er orðin allgömul. Ákvæði laganna eru frá þeim tíma að vextir voru annaðhvort neikvæðir eða mjög lágir. Það hefur hins vegar orðið mikil breyting á síðustu árum og margir aðilar í þjóðfélaginu hafa mjög miklar fjármagnstekjur. Þær tekjur eru skattfrjálsar og ekki er nema eðlilegt að ýmsum launamanninum þyki óeðlilegt að tekjur af fjármagni skuli vera algerlega skattfrjálsar á sama tíma og hinar lægstu launatekjur bera verulegan skatt. Það er því mikilvægt verkefni að gæta samræmis í þessu efni þannig að tekjur af fjármagni komi að nokkru leyti til skattlagningar.
    Mér þykir það vera allmerkilegt fyrsta skref í þessu sambandi að ákveða það að arður sem rennur til einstaklinga skuli í öllum tilvikum vera skattfrjáls. Þessar fjármagnstekjur eru sérstaklega gerðar skattfrjálsar hjá einstaklingunum og er ekki hægt að merkja af þessu fyrsta skrefi ríkisstjórnarinnar að það standi almennt til að fjármagnstekjur verði skattlagðar hjá einstaklingum. Á móti kemur að vísu að þessi arður yrði þá ekki lengur frádráttarbær hjá fyrirtækjunum sem er líka gallað. Ég vil í því sambandi benda á það sem

m.a. Verslunarráð Íslands hefur fjallað um í því máli. Þetta hlýtur að hafa áhrif á hlutabréfamarkaðinn. Þetta hefur áhrif á verðgildi hlutabréfa. Þetta hefur áhrif á það hvort fólk vill kaupa hlutabréf eða ekki. Þetta hefur áhrif á það hvort fyrirtækin vilja greiða arð af hlutabréfunum. Þess vegna er enginn vafi á því að svona tillögur hafa strax áhrif á fjármagnsmarkaðinn. Um þessar mundir er atvinnulífið í lægð. Um þessar mundir er fallandi verð á hlutabréfum og það hefur sjaldan verið eins mikil þörf á því að auka áhuga almennings á nýjungum í atvinnulífinu og að fjárfesta í atvinnulífinu ef menn ætla sér að reyna að komast upp úr þeirri lægð sem við nú erum í. Því er afar óheppilegt að kasta inn lítt hugsuðum ákvæðum um breytingar á þessari skattmeðferð, en ég verð að reikna með því að hér sé um að ræða lítt hugsaða og lítt rædda tillögu, a.m.k. með tilliti til þess að ég skil það á því bréfi sem Verslunarráð Íslands skrifar að hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni hafi ekki verið þessar breytingar nægilega ljósar. Ég geng þá út frá því að ekki hafi unnist tími til að ræða þetta mál í þingflokki sjálfstæðismanna eða a.m.k. mjög lauslega. Og ég veit að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson er mér sammála um að það er óheppilegt að vera að kasta inn í umræðuna tillögum, inn á jafnviðkvæman markað og hlutabréfamarkaðurinn er í dag, eins og hér er gert. Þetta ber ekki að skilja svo að ekki megi taka þessi mál til endurskoðunar, en eðlilegra væri að það væri gert í samhengi við aðra endurskoðun á eignum og eignatekjum til þess að þar væri gætt samræmis.
    Ég tek einnig eftir því að svo virðist vera að á einhverju stigi máls hafi líka verið hugmyndin að fella niður heimild til að draga hlutabréfakaup frá tekjuskattsstofni einstaklinga. Í athugasemd á bls. 17 er tekið dæmi og sagt, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Sum þeirra ákvæða, sem í frv. þessu eru, einkum þau sem lúta að skattlagningu fyrirtækja, hafa þann tilgang að einfalda skattkerfið og gera það skilvirkara.``
    Ég get ekki séð að neitt sem varðar skattlagningu fyrirtækja einfaldi málið og geri það skilvirkara. Þetta eru orðaleppar sem menn grípa gjarnan til ef þeir eru í vandræðum með útskýra það sem þeir eru að gera. Þá eru þetta fræg orð, einföldun og skilvirkni. Það er mjög algengt um þessar mundir að við sjáum þessi orð frá núv. ríkisstjórn því að þar er allt á síðasta snúningi og enginn tími til að undirbúa tillögu því að tíminn hingað til hefur verið notaður til að kafa ofan í fortíðina og þegar á að fara að gera eitthvað sem varðar framtíðina er undirbúningur lítill sem enginn.
    Enn fremur segir að nefna megi sem dæmi um þessa einföldun og nýju skilvirkni ,,breytingar á meðferð tapfrádráttar, afnám arðsfrádráttar og afnám frádráttar vegna fjárfestingar í atvinnurekstri``. Það hefur greinilega verið ætlunin að taka einn af þessum frádráttarliðum sem nefndur er í fjárlagafrv. Þar var nefnt á sínum tíma að eitt af því sem sé til umræðu sé skattafsláttur vegna hlutabréfakaupa og hefur greinilega verið ætlunin að afnema hann algjörlega en einhverra hluta vegna hafi verið hætt við það á síðustu stundu en ekki unnist tími til að leiðrétta athugasemdirnar. Mig langar til að spyrja hæstv. fjmrh. hvað þarna hafi verið á ferðinni eða hvort það sé rétt að í fyrstu hafi verið hugmyndin að afnema þennan frádrátt með öllu. Mér er alveg ljóst að hann hefur kostað ríkissjóð mjög verulegar tekjur, allt að 600 millj. kr., og ekki óeðlilegt að það sé rætt hvort ekki sé rétt að gera einhverjar breytingar þar á, en þar verður líka að hafa í huga viðkvæmni hlutabréfamarkaðarins um þessar mundir.
    Þetta eru fyrst og fremst þau ákvæði sem varða atvinnureksturinn í landinu, en fyrir utan þessa skatta og skattbreytingar sem hér eru tilkynntar minni ég á að ýmis önnur skattheimta birtist á atvinnureksturinn. Ég minni á það sem sjávarútvegurinn á að greiða til hafrannsókna, aukna þátttöku hans í veiðieftirliti, skattlagningu atvinnuveganna til hafnanna í landinu, skattlagningu atvinnuveganna til að standa undir launakostnaði sem hlýst af gjaldþrotum og svo mætti lengi telja. Allar þessar skattahugmyndir munu því að sjálfsögðu hafa áhrif í okkar samfélagi, hafa t.d. áhrif á raungengi krónunnar og verða til þess að atvinnulífið muni eiga verr með að standa undir hlutverki sínu.
    Ég minni í þessu sambandi á hversu mikilvægt það er að samræma skattlagningu íslenskra fyrirtækja við það sem gengur og gerist í öðrum löndum og spyr eftir áformum ríkisstjórnarinnar í þeim efnum, hvenær þess sé að vænta að einhver fyrstu skref verði stigin í því efni.
    Núv. hæstv. sjútvrh. hefur lagt fram tillögu um það að fyrsta lækkun aðstöðugjalds komi fram um næstu áramót en það væri mikilvægasta skrefið til samræmingar á skattlagningu atvinnurekstrarins hér á landi við það sem gerist í löndunum í kringum okkur. Mig langar til að spyrja hæstv. fjmrh. um það hvað hefur orðið um þá tillögu eða hvort enn þá sé vísað bara til sveitarfélaganna og hvort standi til að sveitarfélögin ráði þessu. Það vill nú svo til að aðstöðugjald er ákveðið með lögum og því verður ekki breytt nema með lögum og þetta er sá skattur sem mikilvægast er fyrir atvinnulífið að falli brott, enda á hann sér engan líka í neinu öðru landi. Í stað þess að birta einhver slík skref í skattamálum eru hins vegar settar fram fálmkenndar tillögur á grundvelli einhverra einstakra atvika sem gerst hafa í þjóðfélaginu og rugla alla umræðu um skattlagningu atvinnurekstrarins. Það er óþolandi fyrir atvinnureksturinn í landinu að búa við þessa óvissu í skattamálum og sú óvissa er mjög vel undirstrikuð í frv. sem hér liggur fyrir.
    Að því er varðar framkvæmd skattamála er hér ein tillaga og hún gengur út á það að breyta skipan ríkisskattanefndar. Það kemur fram að það hafi orðið tafir á uppkvaðningu úrskurða, bæði af hálfu skattstjóra og ríkisskattanefndar og síðan segir: ,,Til að ráða bót á þessu ástandi þykir nauðsynlegt að gera skipulagsbreytingar á starfsháttum ríkisskattanefndar, svo og skipan hennar.`` Það er ekki nein tillaga um lagabreytingar að því er varðar ríkisskattstjóraembættið eða skattstjóraembættin í landinu, jafnvel þótt vísað sé til þess að vandinn liggi þar að einhverju leyti, heldur er hér gerð breytingartillaga um að starfsháttum ríkisskattanefndar og skipan hennar sé breytt.
    Því er þannig varið með ríkisskattanefnd að tveir aðilar hennar eru fastir starfsmenn og í fullu starfi en aðrir aðilar að ríkisskattanefnd koma úr öðrum störfum í atvinnulífinu. Þar eru sérfróðir menn um skattamál, lögfræðingar og endurskoðendur, sem eru almennt viðurkenndir á sínu sviði. Í sjálfu sér má fullyrða að það er nokkuð óvenjuleg skipan á úrskurðarnefnd og dómstóli að hluti dómstólsins, eða úrskurðarnefndarinnar, skuli hafa fast starf að þeim málum en aðrir koma frá öðrum sviðum atvinnulífsins.
    Á sínum tíma, þegar þessi skipan var tekin upp, var talið að þetta mundi verða ódýrara í framkvæmd og tryggja miklu meiri sérþekkingu á sviði skattamála. Það hefur því miður verið vandamál í okkar samfélagi að fá nægilega marga vel þjálfaða og reynda menn til þess að sinna þeim málum á vettvangi ríkisins. Þess vegna var farið út á þá braut að skipa ríkisskattanefnd með þessum hætti. Ég hef miklar efasemdir um að sú breyting sem hér er boðuð muni verða til bóta. Eitt er þó víst að hún mun verða dýrari og kosta ríkissjóð verulegar fjárhæðir og vildi ég spyrja hvort gert sé ráð fyrir því í fjárlögum ríkisins fyrir 1992. Hér er verið að tala um nýjar stöður og nýja skipan mála og ég get ekki séð nein rök fyrir því, sem koma fram í frv., hvað það sé sem geri endurskoðun á skipan nefndarinnar svo brýna eins og þar kemur fram. Ég ætla ekkert að fullyrða um það hvað hér býr að baki en ég hef fullan fyrirvara um stuðning við þetta frumvarpsákvæði eins og frv. í heild.
    Ég ætla þá að lokum að snúa mér að skattlagningu einstaklinga. Hér er í fyrsta lagi lagt til að tekjutenging barnabótanna verði aukin. Þessi tekjutenging var komin á áður og má að sjálfsögðu um það deila en ég er þeirrar skoðunar að það sé mjög óheppilegt að auka þessa tekjutengingu nú. Ég fæ ekki séð að nein rök mæli með því við þessar aðstæður að hækka sérstaklega skatt á fjölskyldum sem eru barnmargar því að það er það sem er raunverulega verið að gera hvað svo sem menn reyna nú að skýra þetta. Ég tel að í sjálfu sér þurfi ekkert að rökstyðja það. Ég tel að tekjutenging hinna ýmsu liða í skattalögum hafi gengið nægilega langt og það væri þá fremur ástæða til að taka upp aðra hluti til athugunar. Ég spyr t.d. í því sambandi hvort ekki hafi verið fyrirhugað að lækka eða breyta ellilífeyri hjá þeim sem hafa mjög miklar tekjur. Ég hef ekki séð neinar tillögur um það en eins og allir vita hafa þeir sem hafa t.d. miklar greiðslur úr lífeyrissjóðum einhverra hluta vegna fullan ellilífeyri.
    Þessar breytingar hafa oft verið ræddar, og voru m.a. ræddar í síðustu ríkisstjórn, en þá var Alþfl. mótfallinn slíkum breytingum. Ég sé ekki betur en að gert hafi verið ráð fyrir því í fjárlagafrv. að þarna yrði eitthvað breytt til. Ég hef hins vegar ekki séð neitt frv. sem tekur á því máli og verður þá að álíta að þar sé um gat að ræða sem enn þá hafi ekki verið fyllt upp í með frv. hér á Alþingi. Langar mig því að spyrja hæstv. fjmrh.: Hvenær fyrir jól mun það frv. verða flutt hér á Alþingi eða er það kannski eftir einhver jól, hvort sem það er eftir næstu jól eða hin jólin?
    Síðan er gert ráð fyrir að draga mjög úr sjómannaafslætti og um sjómannaafslátt er löng greinargerð þar sem rakið er hvernig þessi sjómannaafsláttur verður til og honum fundið allt til foráttu og sagt að hér sé um ,,óeðlileg afskipti ríkisins af gerð kjarasamninga`` að ræða og þessi óeðlilegu afskipti leiði til ,,óhagræðis í atvinnulífinu`` og mismuni ,,launþegum jafnt sem fyrirtækjum``. Ég vildi spyrja hæstv. fjmrh. hvaða sérstakt óhagræði í atvinnulífinu hafi komið til út af þessum sjómannafrádrætti. Er það e.t.v. það að óþarflega margir séu við þessi störf, það hafi verið sótt svo í störfin að það hafi horft til vandræða? Síðan segir: ,,Sjómannaafsláttinn ætti fremur að skoða sem niðurgreiðslu á útgerðarkostnaði en sem ívilnun til sjómanna þó hann geti óneitanlega haft áhrif á starfskör þeirra. Hann veldur í senn óeðlilegri mismunun milli atvinnugreina og milli einstaklinga.`` Og síðan segir: ,,Þvert á móti gera niðurgreiðslur það mögulegt að halda áfram útgerð sem ekki er arðbær þegar á allt er litið. Auka þær þannig sóknina, valda meiri dreifingu aflans og gera útgerð í heild óarðbærari en ella væri.``     Ég verð nú að segja eins og er að mér finnst skattamenn vera komnir út í óþarflega mikinn rökstuðning í þessu máli og ég skil ekki alveg hvað verið er að fara, enda er í grg. fyrst og fremst verið að tala um sjávarútveginn. Ég býst við að hæstv. fjmrh. geri sér ljósa grein fyrir því að sjómannafrádrátturinn er ekki eingöngu hjá fiskimönnum, hann er hjá farmönnum. Ekki er sérstaklega verið að tala þarna um fraktfélögin þegar verið er að vitna í niðurgreiðslu á kostnaði þeirra. Nei, hér er eins og fyrri daginn, að menn sjá ofsjónum yfir því að einhver afgangur kunni að vera í þessum grundvallaratvinnuvegi landsmanna sem kemur fram skipti eftir skipti að núverandi ráðamenn þjóðarinnar sjá ofsjónum yfir. Það er eins og þeir hafi alveg gleymt því að meginhluti útflutnings landsmanna kemur frá þessum atvinnuvegi. Þegar er nú farið að halda því fram að leggja þurfi niður sjómannaafslátt af því að hann hafi valdið mikilli dreifingu aflans um landið, og að landað hafi verið á allt of mörgum höfnum í landinu. Ef enginn sjómannaafsláttur hefði verið, hefði þetta verið miklu betra. Þá hefðu menn ekki verið að byggja alla þessa staði í landinu, og þá hefði gengið betur að grisja byggðina og flytja menn frá Vestfjörðum hingað suður eins og núverandi forsrh. hefur látið á sér skilja. Einnig er því haldið fram að þetta hafi orðið til þess að útgerðin hafi í heild orðið óarðbærari en ella.
    Auðvitað fjallar þetta mál ekkert um það sem þarna er verið að tala um. Það fjallar um samning um tiltekinn frádrátt handa sjómönnum sem vissulega má deila um. En störf þessi hafa verið metin með þeim hætti og það réttlætt að þessi eina stétt í landinu nyti þessara sérstöku kjara og engin önnur.

    Hins vegar er rétt að stundum hefur verið tilhneiging til þess að oftúlka þennan frádrátt og gengið hefur verið of langt, t.d. er varðar ferjur hér innan lands sem ég tel vera mjög umdeilanlegt hvort rétt var að gera. En þessi frádráttur, sérstaklega fiskimannanna, á sér svo langa hefð og svo lengi verið samþykktur af öllum öðrum stéttum landsins að það má ekki rjúfa þá hefð. Ég minni á að Alþýðusamband Íslands, sem gætir hagsmuna margra stétta í landinu, hefur eindregið stutt þennan frádrátt sjómanna. Af hverju hefur verið þetta mikil sátt um þennan frádráttarlið? Einfaldlega vegna þess að þetta starf er hættulegra en önnur störf og fjarvera meiri frá heimili. Þeir menn sem þessi störf stunda geta ekki sinnt heimilum sínum með sama hætti og margir aðrir sem eru fyrirvinna heimila. Maki þessara aðila á þannig óhægara um vik að vinna úti á vinnumarkaðinum. Makar eru í langflestum tilvikum konur, því mjög lítið er um að konur stundi sjómannsstörf. Þessar konur búa við aðrar aðstæður en almennt gerist í landinu. Þær eru bundnari heimilum og þurfa að hafa meira fyrir því en almennt gerist. Þetta eru ástæður sem hafa verið viðurkenndar fram að þessu og menn eiga ekki að hrófla við þeirri sátt sem ríkt hefur um sjómannafrádráttinn í langan tíma.
    Virðulegur forseti. Ég hef nú farið í gegnum þetta frv. að mestu leyti. Ákvæði eru í því sem varða skattlagningu einstaklinga sem ég hef gert að umtalsefni. Það eru ákvæði í því er varða skattumhverfi atvinnurekstrarins og nokkur ákvæði er varða framkvæmd skattamála. Síðast en ekki síst eru í þessu frv. ýmsar breytingar á fjárupphæðum skattalaga sem eru í samræmi við verðlag og þessar fjárhæðir breytast með sambærilegum hætti og gengur og gerist í gegnum tíðina. Ég hef engar sérstakar athugasemdir við það. Ég á sæti í þeirri nefnd sem mun fá frv. þetta til umfjöllunar og ég vænti þess að við getum gert okkur betri grein fyrir málinu þegar það kemur í nefnd. Ég vænti þess einnig að hæstv. fjmrh. sé opinn fyrir því að einhverjar breytingar verði gerðar á þessu frv. og minni sérstaklega á það að þegar eru farnar að berast margvíslegar athugasemdir við það sem hér er lagt fram. Og ég vænti þess að samkomulag geti náðst um það, a.m.k. að leiðrétta það versta í frv. þó ég eigi ekki von á því að hægt sé að lagfæra allt saman.