Tekjuskattur og eignarskattur

53. fundur
Mánudaginn 16. desember 1991, kl. 15:13:00 (2110)

     Kristín Ástgeirsdóttir :

     Virðulegi forseti. Á þessari stundu eru til meðferðar í þinginu allnokkur frv. sem spegla efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar, áherslur hennar og forgangsröð. Nýlokið er 2. umr. um fjárlögin sem fela í sér gríðarlegan niðurskurð og gjaldtöku af almenningi í landinu fyrir þá þjónustu sem ríkið veitir. Lánsfjárlög fyrir árið 1992 eru á leið til 2. umr. svo og viðbót við lánsfjárlög ársins sem nú er að líða. Bæði frv. sýna mikla þörf ríkisins fyrir lánsfé þótt reynt verði að draga úr á næsta ári og frestun álversframkvæmda verði til þess að heildarlántaka þjóðarinnar verði mun minni en reiknað var með. Þá er hinn lillræmdi bandormur að skríða út úr efh.- og viðskn. Hann felur m.a. í sér upptöku ríkisins á lögboðnum tekjustofnum t.d. menningarstofnana, niðurskurð á framlögum og lagabreytingar sem gefa ráðherrum víðtæk völd til að ákveða gjaldskrár fyrir opinbera þjónustu. Auk þess er reynt að smygla í gegn lagabreytingum um skólamál sem koma ráðstöfunum í ríkisfjármálum ekkert við. Við kvennalistakonur munum beita okkur af alefli gegn þeim breytingum.
    Þá er umdeilt frv. um sex mánaða framlengingu á vörugjaldi sem bíður meðferðar en hið vígreifa Verslunarráð, með þingmanninn Vilhjálm Egilsson í broddi fylkingar, telur að það frv. feli í sér lögbrot. Síðast en ekki síst er nú til umræðu frv. ríkisstjórnarinnar um tekjuskatt og eignarskatt sem boðar árás á kjör sjómanna og verulegan niðurskurð barnabóta sem kemur harðast niður á meðaltekjufólki sem að mínum dómi er ekki of sælt af sínum kjörum. Þá eru ótaldar aðrar aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur boðað svo sem niðurskurður á launum opinberra starfsmanna og fækkun starfa hjá ríkinu, tilfærsla á verkefnum frá ríki til sveitarfélaga og auknar álögur á þau sem, eins og fram hefur komið, hafa verið ákveðnar án nokkurs samráðs við sveitarfélögin.
    Ef reynt er að horfa á stefnu ríkisstjórnarinnar í heild þá þýðir hún einfaldlega stórfellda árás á lífskjörin í landinu. Ofan á þá skatta sem þegar eru greiddir leggjast þjónustugjöld, jafnframt því sem hluti barnafjölskyldna verður fyrir tekjumissi vegna lækkunar barnabóta. Sveitarfélögunum í landinu verður gert að taka á sig margvíslegan kostnað og þjónustu án þess að þeim sé tryggður nýr tekjustofn sem getur ekki þýtt annað en niðurskurð á öðrum sviðum. Á hverjum skyldi sá niðurskurður bitna?
    Fram undan eru kjarasamningar allra stærstu stéttarfélaga landsins. Þegar er tekið að bóla á verkföllum og það er mikill urgur í opinberum starfsmönnum vegna hins fráleita tilboðs sem samninganefnd ríkisins lagði fram fyrir nokkru. Þá er þungt hljóð í sjómönnum vegna þeirra breytinga á sjómannaafslætti sem boðaður er í því frv. sem hér er til umræðu. Ríkisstjórnin kvakar um nauðsyn áframhaldandi þjóðarsáttar en er sjálf búin að kippa grundvellinum gjörsamlega undan nýrri þjóðarsátt, hversu réttlát sem hún svo er. Ríkisstjórnin er að kveikja elda úlfúðar og illdeilna með einhliða árásum á kjör launafólks í landinu sem geta ekki þýtt annað en átök á komandi mánuðum. Ekki vegna þess að fólki sé ekki ljóst að við erfiðleika og samdrátt er að glíma heldur vegna þess að á meðan hver árásin á fætur annarri dynur á heimilum láglauna- og meðaltekjufólks, námsmönnum og þeim sem leita þurfa sér lækninga, lifa fjármagnseigendur og hátekjufólk í vellystingum pragtuglega. Ríkisstjórnin sker og sker í nafni hagræðingar og sparnaðar en nýtir sér ekki þá möguleika sem eru til tekjuöflunar meðal þeirra sem halda uppi eyðslu og lántökum til einkaneyslu ef marka má skýrslur Þjóðhagsstofnunar og Seðlabanka um þau efni.
    Eins og margoft hefur komið fram er þetta efnahagsstefna í anda þess sem gert var í Bretlandi og Bandaríkjunum á dögum Reagans og Margrétar Thatcher sem blessunarlega eru bæði farin frá völdum. Stefnunni svipar einnig til þess sem gerst hefur á Nýja-Sjálandi að undanförnu og Morgunblaðið hefur dásamað hvað mest í Reykjavíkurbréfum. Samkvæmt blaðafregnum, m.a. Dagens Nyheter, er þegar búið að leggja velferðarkerfið á Nýja-Sjálandi í rúst svo minnir helst á ástand ýmissa þriðjaheimsríkja. Þessar fyrirmyndir eru ekki eftirsóknarverðar. En trúarbrögð markaðslögmála og einkavæðingar láta ekki að sér hæða. Það verður að koma í veg fyrir að efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar nái fram að ganga svo hér verði ekki fjöldaatvinnuleysi, landflótti og enn meira misrétti en við nú horfum upp á.
    Það frv. um tekjuskatt og eignarskatt, sem hér er til umræðu, er hluti af þeirri stefnu sem ég hef lýst að framan. Í frv. er að finna nokkur eðlileg ákvæði þar sem upphæðir, sem miðað hefur verið við í skattlagningu, eru reiknaðar upp samkvæmt vísitölu og geri ég ekki athugasemdir við þau ákvæði. Ég ætla heldur ekki að gera að umtalsefni við þessa umræðu þær greinar frv., sem snerta hlutafjáreigendur og fyrirtæki, þótt margt sé þar að athuga heldur vil ég snúa mér að stórmálum þessa frv., barnabótunum og sjómannaafslættinum.
    Virðulegi forseti. Fyrstu heildstæðu lögin um almannatryggingar voru sett hér á landi árið 1936 og náðu þau til slysa-, sjúkra-, elli- og örorkutrygginga. Árið 1946 voru gerðar verulegar endurbætur á tryggingalöggjöfinni í anda þeirra hugmynda sem kenndar hafa verið við hina svokölluðu Beveridge-áætlun sem sett var fram í Bretlandi á stríðsárunum. Hún var kynnt hér á landi í bókinni Traustir hornsteinar sem út kom 1943 og hafði mikil áhrif á mótun almannatrygginga hér. Í formála þeirrar bókar segir, með leyfi forseta:
    ,,Hornsteina félagslegs öryggis telur Beveridge vera þessa:
    1. Atvinnu.
    2. Heilsu.
    3. Sæmandi híbýli.
    4. Þekkingu.``
    Þetta eru þau fjögur lóð er mynda mótvægið við þarfir mannsins, stilla metaskálarnar í jafnvægi, tryggja félagslegt öryggi. En þessi lóð eiga sér andstæður: Atvinnuleysi, heilsuleysi, mannskemmandi híbýli og lífsumhverfi og loks fáfræði. Allt eru þetta neikvæð lóð. Ef þau, eitt eða fleiri, koma á metaskálarnar í stað hinna sígur allt á ógæfuhlið. Þau eru hvert um sig risavaxið böl til þess fallin að opna undirdjúp fimmta bölsins sem er skorturinn. Baráttan fyrir félagslegu öryggi er því barátta gegn skorti og öllu því sem líklegt er til að hafa skort í för með sér. En skortur er það ef einhver getur ekki veitt sér brýnustu lífsnauðsynjar. Beveridge telur það skyldu þjóðfélagsins að sjá um að enginn líði skort í þessari merkingu, engum eigi að líðast að safna auði fyrr en búið er að uppfylla þessa þjóðfélagsskyldu. Að allir geti veitt sér brýnustu nauðsynjar og lífsgæði frá vöggu til grafar. Hér sé um almenn mannréttindi að ræða er allir skulu réttbornir til er vilja vinna.``
    Í framhaldi af þessu setti Beveridge fram hugmyndir um bótagreiðslur sem náðu frá vöggu til grafar, þar með taldar barnabætur. Þær hugmyndir sem gengið hefur verið út frá í íslenskri tryggingalöggjöf frá 1946 hafa haft það megininntak að tryggingar væru fyrir alla óháð tekjum, stétt og stöðu en ekki að um fátækrastyrk væri að ræða. Ýmsir tryggingaflokkar bættust við með árunum en stuðningur við barnafjölskyldur hefur verið með ýmsu móti.
    Þegar staðgreiðsla skatta var tekin upp var sá skattafsláttur, sem foreldrar nutu vegna þess kostnaðar sem fylgir barnauppeldi, afnuminn en barnabætur komu í staðinn. Síðan kom til sögunnar svokallaður barnabótaauki, ætlaður hinum lægst launuðu. Nú er boðuð hert stefna í því frv. sem hér er til umræðu. Nú á að tekjutengja barnabætur enn frekar en áður og eins og venjulega er viðmiðunin svo lág að meðaltekjufólk lendir úti í kuldanum. Hér vaknar sú spurning hver tilgangurinn er með barnabótum. Eiga þær að vera jöfnunartæki eða eiga þær að hvetja fólk til barneigna og gera foreldrum ungra barna auðveldara að ala önn fyrir þeim, kaupa barnagæslu og annað sem til þarf? Eiga barnabætur að gegna þeim

tilgangi að gera konum auðveldara að sækja vinnu utan heimilis? Eins og við vitum sitja konur oftast uppi með ábyrgð á umönnun ungra barna sinna. Eiga barnabætur eingöngu að vera stuðningur samfélagsins við hina verst settu? Þessum spurningum verða menn að svara áður en slík árás er gerð á barnabæturnar. Reyndar eru barnbætur hér svo lágar að þær hvetja varla til barneigna en þær hjálpa þó til.
    Á fyrstu áratugum þessarar aldar voru uppi hugmyndir um sérstakan refsiskatt á piparsveina og átti hann að hvetja þá til hjónabands svo að þeir sinntu þeirri þjóðfélagslegu skyldu sinni að fjölga Íslendingum. Þessi hugmynd komst ekki í framkvæmd en svo mikið er víst að hugmyndir ríkisstjórnarinnar um aukna tekjutengingu barnabóta virka í aðrar áttir og verða síst til að hvetja ungt fólk til barneigna, sérstaklega þá hópa sem hafa meðaltekjur og þurfa að kosta nokkru til við að afla sér þeirra tekna. Ég vil af þessu tilefni spyrja hæstv. félmrh. sem reyndar er ekki hér inni þessa stundina hvort henni finnist ekki ástæða til að styðja við bak barnafólks þó að það hafi meðaltekjur og hvort ekki sé fremur ástæða til að hvetja til barneigna hér á landi en að draga úr þeim. Ég vil taka það fram að mér finnst athugandi að tekjutengja barnabætur í ríkari mæli en nú er gert en sú viðmiðun sem hér blasir við er allt of lág og mun koma illa niður á mjög stórum hópi launafólks.
    Þetta frv. sem hér er til umræðu felur í sér niðurskurð upp á 518 millj. Það felur í sér að barnabætur hjóna með einu barni lækka úr 28.917 kr. á ári í 8.886 kr. Bætur með börnum hjóna umfram eitt lækka úr 43.378 kr. í 27.591 kr. en hins vegar verður óbreytt upphæð bóta, sem leggst á þessar upphæðir, ef börnin eru yngri en sjö ára og verður áfram 28.917. Barnabótaauki hækkar þegar á heildina er litið en skerðing verður hjá fólki með ákveðnar tekjur. Barnabætur einstæðra foreldra skerðast um sömu krónutölu og bætur hjóna. Einstæðir foreldrar fá nú 86.755 kr. með fyrsta barni, hvort sem það er yngra en 7 ára eða ekki, og sú upphæð lækkar um 20.031 kr., í 66.725 kr. Barnabótaauki hækkar, eins og áður sagði, um 30% í 89.284 kr. Barnabótaaukinn er tekjutengdur og skerðist í hlutfalli við tekjur og barnafjölda. Samkvæmt upplýsingum fjmrn. byrjar barnabótaaukinn að skerðast við tekjur upp á 1 millj. 98 þús. kr. hjá hjónum á þessu ári og 732 þús. kr. hjá einstæðum foreldrum. Skerðingarhlutfall barnabótaaukans er 7% fyrir fyrsta barn, 6% fyrir annað barn, 5% fyrir þriðja barn og 4% fyrir fjórða barn og fleiri. Samkvæmt því missa hjón með eitt barn barnabótaaukann á næsta ári við tekjur upp á 2,3 millj. kr. á ári. Hjón með tvö börn missa barnabótaaukann alveg við 2,5 millj. kr. og hjón með þrjú börn missa barnabótaaukann við 2,8 millj. kr. á þessu ári. Slíkar tölur mætti einnig tíunda hvað varðar einstæða foreldra.
    Ég er auðvitað sammála þeirri áherslu, sem hér er lögð, að bæta aðstæður einstæðra foreldra og þeirra sem lægri hafa tekjurnar en niðurstaða mín er sú, virðulegi forseti, að þegar á heildina er litið sé hér um ranga stefnu að ræða og mun meiri ástæða sé til þess að styðja við bak barnafólks en skattleggja það sérstaklega með þessum hætti. Einnig er sú viðmiðun sem hér er gengið út frá allt of lág.
    Ég ætla þá að víkja að sjómannaafslættinum. Með þessu frv. er einfaldlega verið að leggja til að sett verði lög á sjómenn, lög sem skerða kjör þeirra. Það fer ekki hjá því að mönnum verði hugsað til þeirra atburða sem gerðust þegar bráðabirgðalögin voru sett á BHMR og þeirrar umræðu sem varð á þingi þegar þau lög komu til umræðu en Sjálfstfl. beitti sér af miklu afli gegn þeim. Ég get ekki betur séð en hér sé á ferðinni sami hluturinn. Það er verið að setja lög sem skerða kjör sjómanna. ( Fjmrh.: Það er munur á sköttum og . . . ) Þetta er einhliða ákvörðun ríkisins sem skerðir kjör sjómanna. Þetta er árás á eina stétt. Við getum auðvitað sett spurningar við réttmæti þessa afsláttar og sjómenn hafa sjálfir lýst því yfir að þeir séu tilbúnir til þess að endurskoða hann. Þeir hafa bent á að

þeim hefur fjölgað mjög sem njóta þessa skattafsláttar og þeir eru tilbúnir til viðræðna. Það er auðvitað leiðin sem á að fara, hæstv. fjmrh. Það á að ræða við sjómenn um þetta mál og ná við þá samkomulagi. Þessi skattaívilnun sem þeir njóta er gamalt mál og þeir misstu m.a. eða fórnuðu sínum fæðispeningum í samningum þegar þessi afsláttur var ákveðinn. Þetta hefur verið samningamál og er enn samningamál. Hér er á ferðinni enn eitt dæmið um einhliða árás ríkisvaldsins á einstaka þjóðfélagshópa en við höfum séð mörg slík dæmi á undanförnum dögum.
    Því má bæta við að sjómenn eru flestir það tekjuháir að þeir missa líka barnabætur og ofan á þessa tvöföldu kjaraskerðingu sjómanna bætist þriðja kjaraskerðingin sem felst í þeim aflasamdrætti sem fram undan er.
    Ég vil taka undir það sem fram kom í máli síðasta ræðumanns að mjög mikið ber á milli þeirra talna sem nefndar eru hér í frv. og þeirra útreikninga sem sjómenn sjálfir hafa gert. Í frv. segir að ríkið fái 180--200 millj. í sinn hlut af sjómannaafslættinum en samkvæmt því sem fram hefur komið hjá sjómönnum þá telja þeir að þarna sé um 500--800 millj. að ræða. Ég legg því til að þessi grein frv. verði einfaldlega dregin til baka og að ríkisstjórnin hefji viðræður við sjómenn.
    Margt í greinargerðinni vekur athygli og sérkennileg rök sem þar koma fram. Við sem alin erum upp við sjávarsíðuna erum vön því að bera mikla virðingu fyrir sjómannastéttinni. Mér finnst þessi greinargerð spegla eitthvað allt annað. Hér er m.a. nefnt að þessi skattur spegli óeðlileg afskipti af gerð kjarasamninga en í okkar sögu höfum við mýmörg dæmi um ýmiss konar afskipti af kjarasamningum og dæmi um það að ríkisvaldið hafi beitt sér í þágu félagslegra réttinda og jafnvel forréttinda af ýmsu tagi því auðvitað eru þetta ákveðin forréttindi sem sjómenn njóta. En enn og aftur, virðulegi forseti. Ég lýsi hér með yfir andstöðu við þessi tvö mál sem ég hef aðallega gert að umræðuefni, breytingar á barnabótum og sjómannaafslættinum og legg til að ríkisstjórnin reyni að stuðla að friði í landinu með því að ræða við sjómenn og semja við þá.