Tekjuskattur og eignarskattur

53. fundur
Mánudaginn 16. desember 1991, kl. 15:31:00 (2111)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Það var ekki ætlan mín að ræða þetta mál fyrr en í lok umræðunnar en ég neyðist til að eiga orðastað við hv. síðasta ræðumann og mótmæla því kröftuglega að hér sé með sama hætti vegið að sjómönnum og gert var með því að setja lög á kjarasamninga. Sannleikurinn er sá að framkvæmdin á sjómannaafslættinum hefur gerbreyst. Það má vel vera að það sé rétt að nokkru marki að sjómannaafslátturinn hafi komið í stað fæðispeninga á sjó en það sem verið er að leggja til er eingöngu að þrengja rétt sjómanna til að fá afslátt fyrir tíma sem þeir eru ekki úti á sjó heldur í landi. Sýnir það eitt og sér að það getur varla verið um að ræða að taka af þeim rétt sem hafi komið fyrir fæðispeninga á sjó. Ég nefni þetta vegna þess að mér finnst ansi langt til seilst að jafna því, þegar við erum að skerða þessi réttindi sem hafa farið svona úr böndum, við það að setja lög á kjarasamninga og ég mótmæli því harðlega hvernig það hefur verið gert af hálfu síðasta hv. ræðumanns. Að öðru leyti mun ég svara honum í lok umræðunnar.