Orkusáttmáli Evrópu

53. fundur
Mánudaginn 16. desember 1991, kl. 15:46:00 (2116)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
     Virðulegi forseti. Ég vil strax taka fram í upphafi míns máls að ég er fyllilega sáttur við þá túlkun sem hv. málshefjandi vildi hafa á varðandi okkar stöðu og hefði út af fyrir sig mjög vel getað fallist á að slík setning hefði verið inni í ræðu hæstv. iðnrrh. og ég tel í rauninni að það sé sá skilningur sem við eigum að hafa sameiginlega á þessum málum.
    Ég tek einnig fram að þetta mál hefur verið unnið eðlilega innan þingsins. Málið var lagt fyrir ríkisstjórn í ágústmánuði og nokkrum sinnum síðar. Það var kynnt hv. iðnn. og utanrmn. fyrir um mánuði og var í minnisblaði hæstv. iðnrh. sérstaklega vakin athygli á þeim þætti sem við vildum tryggja varðandi forræði yfir okkar orkulindum við gerð þessarar stefnuyfirlýsingar sem hér er verið að vinna að. Í minnisblaðinu frá 11. nóv. sem iðnn. og utanrmn. er sent er sérstaklega tekið fram varðandi þetta atriði að hugmyndir um frjálsan aðgang að orkulindum, eins og hér segir, eru að sjálfsögðu ekki aðgengilegar af Íslands hálfu fremur en Norðmanna. Þetta var því strax tekið út úr af hálfu hæstv. iðnrh. þegar hann kynnti málið fyrir iðnn. og utanrmn.
    Í annan stað tel ég mjög mikilvægt að menn geri sér grein fyrir að menn eru á þessu stigi ekki að ræða samning. Grundvallarsamningurinn kemur í framhaldinu, að honum verður unnið á næstu mánuðum. Hér er um að ræða stefnuyfirlýsingu, pólitíska stefnuyfirlýsingu sem er auðvitað ekki bindandi með lögformlegum hætti fyrir Íslendinga en hún segir með hvaða hætti við viljum vinna að gerð grundvallarplaggsins, sjálfs samningsins. Þá er áríðandi að menn viti og það komi glöggt fram af hálfu talsmanna ríkisstjórnarinnar með hvaða skilningi við viljum vinna að gerð grundvallarsamningsins. Ég tók undir það í upphafi minnar tölu að ég gæti mjög vel fellt mig við þann skilning sem hv. málshefjandi las upp í lokin og hefði gjarnan viljað að væri inni í ræðunni hjá hæstv. iðnrh. Ég tel engu að síður að ekkert af því sem hæstv. iðnrh. hefur lesið eða flutt í ræðu sinni hafi veikt okkar stöðu nema síður væri. Hitt hefði hins vegar mátt vera með og hefði hnykkt á í þessum efnum.
    Við höfum af okkar hálfu, og þá auðvitað hæstv. iðnrh., sérstaklega unnið að því að eiga gott samstarf við Norðurlandaþjóðirnar um vinnu og undirbúning við gerð þessa sáttmála og stefnuyfirlýsingar. Ekki síst hefur iðnrh. þar lagt höfuðáherslu á að hér á landi getum við ekki sætt okkur við að dregið verði úr þeirri meginreglu sem við teljum gilda, að hvert land hafi forræði og stjórn á nýtingu sinna orkulinda. Þetta þýðir með öðrum orðum það að slíkt forræði verði ekki tryggt í samningnum sjálfum, sem er hið lögformlega grundvallarplagg, mundum við ekki vera aðilar að honum. Þetta hefur komið skýrt fram hjá hæstv. iðnrh.
    Menn hafa í meginatriðum velt fyrir sér tveimur hugtökum sem eftir er að útfæra í samningnum, með hvaða hætti fullveldisréttur ríkjanna sem verða aðilar að samningnum verði tryggður. Við höfum lagt þann skilning í það mál, og önnur Norðurlönd einnig, að það hljóti að verða svo, að þau lönd sem aðilar verða að samningnum geti sjálf ákveðið

með hvaða hætti orkulindir þeirra verði nýttar. Ég tel varðandi þau orð sem menn hafa fjallað um, sérstaklega varðandi ,,non-discrimination``, að þar séu menn að tala um þann þátt að samningslöndunum, þegar til kemur, verður ekki heimilt á vettvangi þessa samnings að gera upp á milli einstakra landa sem aðild eiga að samningnum. Það þýðir hins vegar ekki og getur ekki þýtt að löndin megi ekki gera upp á milli sjálfra sín annars vegar og einhvers af þeim löndum sem undirrita samninginn hins vegar. Þetta er meginatriði sem ég tel að liggi ljóst fyrir og muni liggja ljóst fyrir af hálfu okkar Íslendinga.
    Ég vara við að menn tali svo að það sem nú er verið að undirrita sé hin eiginlega samningsgerð. Það mundi veikja okkar stöðu. Það er ekki okkar skoðun, hvorki iðnrn. né ríkisstjórnarinnar, og engin þjóð, sem undirritar þessa stefnuyfirlýsingu, hefur þá skoðun. Menn gera sér grein fyrir að hér er um að ræða stefnuyfirlýsingu um það með hvaða hætti menn ætla að vinna að þessari samningsgerð í framtíðinni. Ég vek einnig athygli á að við höfum reyndar áður af Íslands hálfu, þegar við undirrituðum grundvallarsamninginn um RÖSE í París --- það gerði einmitt málshefjandinn af okkar hálfu --- lagt áherslu á að samningur af þessu tagi yrði gerður. Ég held því að ekki hafi þurft að koma nokkrum manni á óvart að að slíkum sáttmála sé unnið og að unnið sé að honum í því fari og með þeim hætti sem við gerum.
    Ég ítreka að það er markmið ríkisstjórnarinnar að við endanlega gerð samningsins verði ákvörðunarréttur okkar sjálfra á samningssviðinu tryggður.