Orkusáttmáli Evrópu

53. fundur
Mánudaginn 16. desember 1991, kl. 16:18:00 (2120)

     Svavar Gestsson :
     Virðulegi forseti. Ég kvaddi mér hljóðs sérstaklega vegna þeirra ummæla sem hæstv. iðnrrh. hefur látið frá sér fara varðandi iðnn. og umfjöllun hennar í þessu máli. Niðurstaða iðnn. var ósköp einfaldlega þessi, með leyfi forseta: Rætt var um hvort iðnn. mundi skila áliti til iðnrn. var niðurstaðan sú að svo yrði ekki. Iðnn. leit með öðum orðum þannig á að hér væri um að ræða verkefni utanrmn. en ekki iðnn. af því að hér er um að ræða alþjóðleg samskipti sem utanrmn. á að fjalla um.
    Aðeins varðandi efni málsins að öðru leyti. Ég verð að segja að það er mjög sérkennilegt að heyra yfirlýsingar hæstv. forsrh. núna, sem ég þakka út af fyrir sig fyrir, miðað við það sem sagt var í iðnn. Þar var fullyrt af embættismönnum iðnrn. að ekki mætti mismuna á grundvelli þjóðernis í neinu tilviki, en forsrh. sagði að ekki mætti mismuna á milli manna af öðrum þjóðernum, en það mætti mismuna annars vegar á milli Íslands og hins vegar manna af öðrum þjóðernum.
    Ég lít þannig á eftir yfirlýsingu hæstv. forsrh. að það sé hún sem standi, að Íslendingar geti út af fyrir sig ekki mismunað mönnum eða fyrirtækjum af öðrum þjóðernum, en þeir geti þrátt fyrir yfirlýsingarnar hér mismunað á milli Íslands og annarra þjóðerna. Ef þessum skilningi mínum verður ekki mótmælt lít ég svo á að yfirlýsing hæstv. forsrh. standi í þessu efni. Mjög mikilvægt er að það sé á hreinu vegna þess að þegar þessi sáttmáli var til meðferðar á sínum tíma lögðu fulltrúar Íslands og Noregs til breytingu á inngangskafla sáttmálans þar sem gert var ráð fyrir að inn kæmi orðið ,,varanlegur`` þannig að þessum málum væri svo og svo fyrirkomið á grundvelli ,,varanlegs`` fullveldis ríkja. En þetta orð, varanlegur, --- ,,permanent`` --- var strikað út í meðferð málsins og Íslendingar féllust á það (Gripið fram í.) og Noregur einnig. Því er í raun og veru óhjákvæmilegt að ræða málið hér vegna þess að þarna hafa Ísland og Noregur bersýnilega gefið eftir en ég skil það svo að forsrh. og utanrrh. séu á þessum fundi að ítreka að þrátt fyrir þessa eftirgjöf sé það skoðun íslenskra stjórnvalda að þessi viðhorf eigi að standa. Og af þessum ástæðum vil ég leyfa mér að leggja það til, virðulegi forseti, að utanrrh. sjái til þess að sú umræða sem hér fer fram í dag, ekki síst yfirlýsingar fulltrúa stjórnarandstöðuflokkanna og hæstv. forsrh., verði sendar utan og afhentar þeim þjóðum sem eru að skrifa undir þessi sáttmáladrög ásamt okkur. Og ef hæstv. utanrrh. á erfitt með að gera það þá er auðvitað velkomið að taka það að sér að koma þessu á framfæri með öðrum hætti við hæstv. iðnrh.
    Ég tel ánægjulegt og nauðsynlegt að þessi umræða hefur farið fram. Það er satt að segja mjög nauðsynlegt. Það er mjög nauðsynlegt að koma þessu á framfæri. Það er auðvitað ekki nýtt að iðnrh. hafi gaman af því að skrifa undir. Undirskriftir hans hafa þann góða eiginleika, sem var kallaður löggublek í minni bernsku, að vilja gufa upp þegar líður á og verða þá kannski gagnsminni en margt annað. Sumir kalla þessar yfirlýsingar í seinni tíð undanrennuduft. Ég læt mér það í léttu rúmi liggja. Aðalatriðið er að hér virðist vera breið pólitísk samstaða um það meginmál að Íslendingar eigi einir að ráða sínum orkulindum.