Orkusáttmáli Evrópu

53. fundur
Mánudaginn 16. desember 1991, kl. 16:22:00 (2121)

     Hjörleifur Guttormsson :
     Virðulegur forseti. Þessi umræða er afar þýðingarmikil. Hún er mikilvæg vegna þess að hér fær Alþingi fréttir af því sem stendur til í dag og er e.t.v. þegar afstaðið, að undirrita sérstakan sáttmála Evrópuríkja varðandi orkumál. Hún er einnig mikilvæg vegna þess

að hér er Alþingi að skýra fyrir sjálfu sér afstöðu til þessa máls. Að vísu er þessi umræða nokkuð seint á ferðinni en hún er engu að síður þýðingarmikil.
    Ég vil taka undir með þeim sem hér hafa talað og lýst yfir ánægju með viðhorf hæstv. forsrh. og skilningi á eðli þessa máls. Ég segi þetta vegna þess að það var og er full ástæða til þess að hafa áhyggjur af framvindu málsins. Þessi sáttmáli sem hæstv. ráðherra er að undirrita fyrir hönd íslensku ríkisstjórnarinnar, því hann gerir það ekki fyrir hönd Alþingis eða með staðfestingu þess, hefur að geyma ákvæði sem vel gætu leitt inn á farveg sem opni fyrir aðgang útlendinga að náttúruauðlindum Íslands, orkuauðlindum Íslands, ef reglurnar um að mismuna ekki einstaklingum og fyrirtækjum eftir þjóðerni færu í sama farveg og reynt er að gera varðandi fjölmargt innan Evrópsks efnahagssvæðis. Og það er í samhengi við það mál sem við þurfum að hafa í huga þegar við erum að skipta við Evrópuaðila, Evrópubandalagið ekki síst, í þessum efnum.
    Það hefur komið fram í þessari umræðu að ég hef nefnt þetta mál í umræðum á Alþingi áður og ég hef rætt þessi mál á norrænum vettvangi sem einnig hefur komið hér fram. Það vildi svo til að ég átti eintak af drögum af þessum sáttmála frá 18. júlí sl. sem ekki var í höndum annarra þar, rakti það mál og lýsti áhyggjum mínum yfir því efni. Þessi gögn, þessi sáttmáli er runninn undan rifjum Evrópubandalagsins og framkvæmdastjórn þess hefur haft alveg sérstaka hönd í bagga þannig að við þurfum ekkert að vera undrandi þó að hér minni margt á ákvæði sem við þekkjum vel úr drögum að samningi um Evrópskt efnahagssvæði. Það er það sem við þurfum að hafa auga á við frekari framvindu málsins. Hv. utanrmn. hefur fengið gögn sem varðar þetta og það hefur verið vitnað í þau í þessari umræðu og ég tek undir þær áhyggjur sem fram hafa komið í máli manna, frummælanda sem annarra, út af þessu máli. Alþingi og nefndir þingsins þurfa að fylgjast með framvindunni mjög náið því að þetta er aðeins upphafsskref að mörgum sem ætlunin er að stíga í framhaldi af undirritun þessa sáttmála sem á að geta af sér bindandi yfirlýsingar og ákvæði sem liggja þegar fyrir í drögum að nokkru leyti.