Orkusáttmáli Evrópu

53. fundur
Mánudaginn 16. desember 1991, kl. 16:26:00 (2122)

     Guðrún Helgadóttir :
     Hæstv. forseti. Ég átta mig ekki alveg á --- hér mun hafa verið samið um að flokkarnir fengju ákveðinn tíma, hvað hef ég langan tíma? ( Forseti: Tvær mínútur, hv. þm.) Já, það hefur verið samið um það að ég skuli tala í tvær mínútur. Ég skal reyna það.
    Ég er þá að hugsa um að sleppa umræðu um þennan ákveðna samning en benda hv. þm. á að það er vart að treysta því sem utanrrn. upplýsir hv. þm. um. Og ég ætla að sanna það mál mitt hér að þessu gefna tilefni.
    Mér barst í hendur fréttatilkynning frá utanrrn. um ráðherrafund EFTA þar sem Jón Baldvin Hannibalsson, hæstv. utanrrh., sat fund og fundinum stýrði Pertti Salolainen utanríkisviðskiptaráðherra Finnlands. Ég sat ekki þann fund en hann fór fram 10. des. sl. og hann er áhugaverður vegna þess að þar er í yfirlýsingu ráðherra Fríverslunarsamtaka EFTA í Genf 10.--11. des. 1991 sagt í þriðja atriði, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,EES gerir öllum EFTA-ríkjunum kleift að taka þátt í innri markaðinum frá upphafi. Óhindruð vöruviðskipti, þjónustuviðskipti, fjármagnsflutningar og atvinnu- og búseturéttindi auk styrkara og víðtækara samstarfs að jaðarmálefnum munu ekki einungis stuðla að jákvæðu framlagi til efnahagslegrar og félagslegrar þróunar, verndunar umhverfisins og hagsældar heldur einnig hlynna að samskiptum Evrópubúa og þannig efla evrópska samkennd.``
    Hæstv. forseti. Í 4. gr. segir, með leyfi hæstv. forseta: ,,Ráðherrarnir gerðu ráð fyrir að upplýsingaskiptum innan EB varðandi ákveðna lagaþætti innan EES-samningsins yrði lokið eins fljótt og mögulegt væri þannig að hægt yrði að undirrita samninginn fljótlega

eins og frá honum var gengið með samkomulagi ráðherra í Lúxemborg og að hann geti tekið gildi 1. jan. 1993.``
    Daginn áður höfðum við, m.a. ég og þrír aðrir hv. þm., setið fund í Strassborg, daginn fyrir þessa bjartsýnisyfirlýsingu hæstv. ráðherra. Í 18. gr. er sagt svo frá þeim fundi, en það vill svo til að þann fund sat ég, með leyfi forseta:
    ,,Ráðherrarnir áttu fund með þingmannanefnd EFTA,`` þ.e. meðal annars okkur, ,,og veittu athygli skýrslum um undirbúningsstarf hennar og hliðstæðrar nefndar Evrópuþingsins um framtíðarsamvinnu þeirra í sameiginlegri þingmannanefnd EES. Þeir fögnuðu hinni auknu samvinnu milli þingmannanefndar EFTA og þingmanna frá Ungverjalandi, Póllandi og Tékkóslóvakíu.``
    Það sem gerðist á þessum fundi var þetta: Sjálfur de Clercq opnaði fundinn með því að lýsa því yfir að hann hefði ýmislegt við 106. gr. samningsins að athuga og lagðist nú þögn yfir salinn. Sjálfur Pertti Salolainen, sem sat fundinn með hæstv. utanrrh. daginn eftir, lýsti því yfir að hann hefði þungar áhyggjur af að ekkert yrði af samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Það sagði hann daginn áður en fundur hæstv. utanrrh. var haldinn. Það er í stuttu máli, hæstv. forseti, ekki sannleikskorn í þessu bréfi frá hæstv. utanrrh. og ég segi að þessu gefna tilefni og í tilefni af ræðu hv. 15. þm. Reykv. --- ég er sjálfsagt jafnilla læs og hún --- ef jafnmikið er að marka þær upplýsingar sem við höfum fengið hér í dag og er að finna í þessari fréttatilkynningu upp á fimm síður, þá bið ég hv. þm. að vara sig.