Orkusáttmáli Evrópu

53. fundur
Mánudaginn 16. desember 1991, kl. 16:31:00 (2123)

     Steingrímur Hermannsson :
     Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir þá yfirlýsingu sem hann gaf hér áðan. Hann sagði mjög skýrt að hann fyrir sitt leyti gæti fallist á þann fyrirvara sem ég óskaði að yrði settur í ræðu hæstv. iðnrh. og ég lýsti í ræðu minni fyrr. Ég er þakklátur þessu og tel að enn þá sé hægt að bæta úr með því að gera þann fyrirvara skriflega við undirskriftina í fyrramálið og vil beina því til hæstv. forsrh. hvort hann vilji ekki koma þessu á framfæri til hæstv. iðnrh., þá væri málið leyst.
    Ég get hins vegar ekki verið sammála túlkun hans á bestu meðferð, hygg ég að það sé kallað á íslensku, ,,most favoured treatment``. Ég vek athygli á því að við Íslendingar höfum gert samninga um bestu meðferð í viðskiptum við fjölmargar þjóðir og það hefur ætíð verið túlkað svo að þá megum við ekki veita innlendum fyrirtækjum betri meðferð en erlendum. Ég vek athygli á því t.d. að það hafa verið deilur við Evrópubandalagið út af slíku og við höfum orðið að gæta okkur á því að setja ekki meiri gjöld á innflutning en á okkar eigin framleiðslu. Og ég lít svo á að með bestu meðferð séu þessar 36 þjóðir að undirgangast það að fyrirtæki fái í heimalandi hverrar þjóðar, þó að þessi fyrirtæki séu erlendis, eins góða meðferð eins og fyrirtæki í því sama landi.
    Ég vil einnig þakka hæstv. utanrrh. fyrir að hafa komið ósk minni á framfæri við hæstv. iðnrh. og eins og hann lýsti henni áðan þá er ég fullkomlega sáttur við hvernig hann hefur orðað þetta og ég reyndar hef litið svo á að hann væri sáttur við að hafa slíkan fyrirvara. Ég get hins vegar alls ekki lýst ánægju minni með það sem hæstv. iðnrh. hefur sett í sína ræðu og kom að nokkru fram í orðum hæstv. utanrrh. hér áðan. Iðnrh. lýsir að vísu hve mikilvægar þessar orkulindir séu Íslandi og hvað Ísland sé lítið, efnahagslíf landsins lítið o.s.frv. og með tilliti til þessa lýsir hann yfir ánægju sinni með fullveldisviðurkenninguna og þessum bestukjarasamningum. Það má að vísu segja að það er alltaf gott að fá viðurkenningu á fullveldinu. Við getum þá væntanlega treyst því að þessar 35 þjóðir hirði ekki af okkur orkulindirnar með valdi. Þær eru búnar að undirstrika það að þær viðurkenni fullveldi Íslands og viðurkenni meira að segja forráð Íslands yfir orkulindunum. Ekki

ætla ég að gera lítið úr þessu. Ég vil þakka það.
    En ég hef allt annan skilning á því atriði þar sem lofað er að veita öðrum jafnan aðgang að þessum orkulindum alveg eins og með bestukjarasamningana sem við höfum svo mörg fordæmi fyrir. Og ég vek athygli á því að t.d. í samningunum um Evrópskt efnahagssvæði, sem að vísu eru nú uppi í vindinum eða hvað við eigum að kallað það, þar var að sjálfsögðu ekki bara tekið fram að við Íslendingar áskildum okkur ætíð full yfirráð yfir sjávarútvegsauðlindum okkar, fiskimiðunum, heldur var líka tekið skýrt fram að við gætum ekki fallist á fjárfestingu erlendra aðila í þessum auðlindum og ég hef lýst ánægju minni með að hæstv. utanrrh. hefur náð þessu fram í þessum samningum. Það er ekki bara að þar séu yfirráðin viðurkennd heldur var talið nauðsynlegt af hæstv. utanrrh. að fá það staðfest að erlend fjárfesting væri ekki leyfð í þessum auðlindum. Hér er um mjög keimlík atriði að ræða og í raun og veru alveg samhljóða. Við höfum viðurkenningu á fullveldinu og forræði okkar yfir auðlindunum. Okkur vantar viðurkenningu á því að það sé á okkar valdi hverjir fjárfesti í þessum auðlindum. Ég hef þó teygt mig svo langt, sem ég er ekki alveg rólegur yfir, ég skal viðurkenna það, að þetta ákvörðunarvald okkar nái til þess að við getum haldið því sem nú er og áskilið okkur rétt til þess að ríki og sveitarfélög ein fái rétt til þess að fjárfesta í þessum orkulindum.
    Sem sagt, ég hef sætt mig við að erlent fyrirtæki geti fengið að fjárfesta þar í ef hlutafélögum er á annað borð leyft það í trausti þess að við höldum þessu sem við höfum hingað til haft þrátt fyrir hvítu bók ríkisstjórnarinnar að í raun verði þetta einkaréttur ríkis og sveitarfélaga. Skárra væri að sjálfsögðu að hafa þann fyrirvara að við áskiljum okkur rétt til að ákveða að engir erlendir aðilar geti fjárfest í okkar orkulindum. Hins vegar má kannski ímynda sér að hér finnist einhvern tíma olía og þá kunni að koma til greina að veita erlendum olíufyrirtækjum heimild til þess að virkja þá orkulind.
    Mér fannst satt að segja hæstv. utanrrh. gera óþarflega lítið úr undirskrift hæstv. iðnrh. í þessu sambandi. Ég tel hana afar mikilvæga þegar að baki liggur samþykkt ríkisstjórnar. Og hvort sem menn vilja kalla þetta pólitíska yfirlýsingu eða annað, þá er hún mikilvæg því að ráðherra fyrir hönd ríkisstjórnar er að undirskrifa pólitíska yfirlýsingu, stefnuyfirlýsingu í orkumálum sem felur það m.a. í sér, og er margtekið fram í því sem hér hefur verið farið yfir, að veita frjálsan aðgang að nýtingu þessara orkulinda. Ég trúi ekki öðru en hæstv. ráðherrar meti orð sín það mikils að mark beri að taka á þeim. Mark beri að taka á því sem hæstv. iðnrh. er að undirrita.
    Ég skal ekki lengja þessa umræðu mjög og reyndar er tími minn að verða útrunninn. En hæstv. utanrrh. nefndi hygg ég áðan að í fyrstu gögnum sem við fengum frá 11. nóv. er tekið fram að Ísland og Noregur geti ekki fallist á frjálsa nýtingu orkulindanna. Þetta er mjög athyglisvert og reyndar tók ég eftir þessu strax og ég fékk þessi gögn og leit svo á að þar væri reyndar fyrirvari sem ég gæti sætt mig við. Hins vegar hef ég nú farið í gegnum öll gögnin, allt sem á eftir hefur komið og allt fram í það sem við fengum núna í hendurnar fyrir örfáum dögum og ég sé ekki að þessu hafi á nokkurn máta verið náð fram og alls ekki með því að viðurkenna fullveldi þjóðarinnar. Ég hef hugleitt það síðan og vísa til þess sem kom fram á fundi utanrmn. sl. laugardag, þar kom fram hjá þeim sérfræðingum eða embættismönnum, sem í þetta mál hafa verið valdir, að Norðmenn hafi ekki áhyggjur af sínu vatnsafli. Og það er skiljanlegt því að þeir hafa þegar nýtt hagkvæmasta vatnsaflið og gera ekki ráð fyrir að aðrir leiti í það. Hins vegar hafa þeir þegar veitt erlendum aðilum aðgang að olíulindunum. Það eru mörg stór olíufyrirtæki sem núna virkja olíulindir Norðmanna.
    Ég tel hafa verið afar nauðsynlegt að fá fram þessar yfirlýsingar sem hér hafa komið, sérstaklega frá hæstv. forsrh. Ég vil hins vegar lýsa því að ef ekki fæst svona fyrirvari settur við undirritunina þá hlýt ég að leggja fram till. til þál. þar sem Alþingi er beðið að taka af skarið og lýsa vilja sínum í þessum málum.