Orkusáttmáli Evrópu

53. fundur
Mánudaginn 16. desember 1991, kl. 16:39:00 (2124)


     Össur Skarphéðinsson :
     Virðulegi forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu mikið. Það er auðvitað alveg ljóst að hér er einungis á ferðinni pólitísk viljayfirlýsing, það er ekki verið að gera neina lagalega bindandi grunnsamninga. Það er líka ánægjulegt að í máli manna hér í dag hefur komið í ljós að ekki er um neinn ágreining að ræða. En varðandi þann þátt sem hér hefur verið ræddur um meðferð þingsins á þessu máli þá vil ég að það komi fram að það er með engu móti hægt að kvarta undan því að iðnrh. hafi ekki haft fullt samráð við nefndir.
    Ég vil skýra frá því að við í iðnn. fengum send gögn strax 10. nóv. þar sem greint var frá þeirri vinnu sem þá hafi farið fram og þar var jafnframt plagg sent sem gerði grein fyrir helstu dráttum sem þá voru komnir fram. Og rík áhersla var lögð á að hluti af þeim rauða þræði sem ætti að vefa í gegnum þennan samning væri m.a. það að fullveldi ríkja yfir eigin orkulindum væri á engan hátt skert. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Svavari Gestssyni að í iðnn. var ekki tekin nein afstaða. Formaður kaus, með samþykki allra nefndarmanna, að leggja þetta fram einungis til kynningar. Við fengum til ráðslags fjóra heiðursmenn sem svöruðu öllum þeim spurningum sem fram komu, að ég hugði, fullnægjandi fyrir alla aðila.
    Ég vil að lokum ítreka það og tel það nauðsynlegt vegna ummæla hv. þm. Svavars Gestssonar, að með engu móti var hægt að segja að afstaða og úrskurður eða vinna iðnn. að þessu máli fæli í sér að verið væri að lýsa því yfir að utanrmn. ætti að vinna eitthvað sérstaklega að þessu máli. Það vildi ég sérstaklega að kæmi fram vegna þess að ekki var orði á það eytt í nefndinni.