Orkusáttmáli Evrópu

53. fundur
Mánudaginn 16. desember 1991, kl. 16:42:00 (2125)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
     Virðulegi forseti. Eftir þessa umræðu held ég að við þurfum helst að skerpa skilning okkar á tveimur atriðum. Hið fyrra er: Er forræði okkar yfir orkulindunum tryggt eða ekki? Það heyrist stundum í máli þingmanna að þeim þykir valt að treysta orðum íslenskra ráðherra en þeir styrkjast stundum í trúnni ef þeir heyra það frá erlendum ráðherrum. Í minnisgrein frá iðnrn., þar sem lýst er samstarfinu innan Norðurlanda á þessum vettvangi, segir svo, með leyfi forseta: ,,Norræna embættismannanefndin um orkumál fjallaði um þetta 29. nóv. sl. og staðfestu fulltrúar allra landanna að sú lausn sem náðist í því máli væri vel viðunandi, þ.e. þar sem skýrt væri tekið fram að yfirráð ríkja yfir orkulindum sínum séu tryggð.``
    Þetta er sameiginlegur skilningur fulltrúa Norðurlanda á þessum sáttmála og geta menn þá náttúrlega valið hvort þeir telja að þessir aðilar fari allir með einhverjar vísvitandi blekkingar eða ekki.
    Spurning númer tvö er þessi: Felst það í orkusáttmálanum að þar sé opnað fyrir frjálsan aðgang að orkulindum? Svarið við því er að það felst að sjálfsögðu ekki í þessari pólitísku yfirlýsingu sem hæstv. iðnrh. er að undirrita. Í henni felst engin pólitísk skuldbinding. En þá er spurningin sú --- og þetta varðar seinna atriðið sem hv. 7. þm. Reykn. fjallaði um áðan: --- Hvað merkir jafnræðisreglan eða ekki --- mismununarreglan í þessum samningi?
    Það vill svo til, og það er tiltölulega nýlegt, að búið er að upplýsa hvað hún merkir. Í skjali sem kynnt var í utanrmn. í morgun og er frá stofnun orkusáttmálans, þ.e. skrifstofu sem vinnur að þeim undirbúningi, segir, með leyfi forseta:
    ,,Fulltrúar aðildarlandanna lýsa þeim skilningi sínum í samhengi Evrópska orkusáttmálans að reglan um ekki --- mismunun, eða jafnræðisreglan, þýði bestu kjarakjör sem lágmark.`` --- Bestu kjarakjör sem lágmark. --- Hún þýðir með öðrum orðum ekki ótakmarkaðan aðgang erlendra aðila að auðlindum. Hún þýðir að milli hinna samningsaðilanna verðum við á gagnkvæmnisgrundvelli að bjóða bestu kjör. Við megum hins vegar mismuna aðilum sem ekki eru aðilar að þessum samningi.
    Hins vegar segir hér í beinu framhaldi: ,,National treatment`` --- það vefst nú fyrir mér að þýða það nákvæmlega --- ,,hana má semja um í fylgiskjölum við grunnsamninginn.`` En hvað þýðir hún? Hún þýðir að við getum tekið ákvörðun um það sjálf ef við á annað borð afnemum ríkisrekstur, einokun og heimilum stofnun einkafyrirtækis til að nýta okkur auðlindir. Þá getum við samið um það að heimila erlendum fyrirtækjum að keppa þar á jafnréttisgrundvelli. En kjarni málsins er þessi: Forræðið er alveg tryggt og það er á okkar valdi sjálfra hversu langt við göngum í þessum samningi, þ.e. hvort við opnum fyrir svokallað ,,national treatment``.
    Ekki er mikið meira um þetta að segja annað en það að við höfum ærinn tíma til þess að fara ofan í saumana á þessu máli. Það tekur a.m.k. hálft ár að undirbúa texta bindandi samninga svo ekki mun á það skorta, hér eftir fremur en hingað til, að nægur tími sé til að hafa nefndir með í ráðum enda hefur þess rækilega verið gætt.
    Virðulegi forseti. Um annað mál óskylt, af því að hér kom upp í ræðustól hv. 14. þm. Reykv., Guðrún Helgadóttir, og reiddi nú mjög hátt til höggs. Hún hafði í höndum fréttatilkynningu frá utanrrn. um nýafstaðinn ráðherrafund EFTA-ríkjanna og þegar hún hafði velkst svolítið um með þann pappír sagði hún: Ekki eitt einasta satt orð. Engu að trúa. Ástæðan var sú að hún hafði setið fund með fulltrúum Evrópuþingsins þar sem þeir höfðu EES-samninginn á hornum sér, eins og venjulega, Willy De Clercq, sem hún kallar sjálfan Willy De Clercq, og nokkrir aðrir heiðursmenn.
    Um þetta er það að segja að stundum þegar hátt er reitt til höggs þá geigar höggið hjá þeim sem fyrir á að verða. Þessi fréttatilkynning er fréttatilkynning frá EFTA (Gripið fram í.) að sjálfsögðu, að sjálfsögðu, en þegar um er að ræða ráðherrafund EFTA þá er fréttatilkynning gefin út á ábyrgð formennsku landsins. Og þetta er fréttatilkynning frá EFTA. Af sjálfu leiðir að við, þingmenn Evrópuþingsins, mundum ekki hafa fjallað neitt um þennan fund af þeirri einföldu ástæðu að utanrrh. var þar hvergi nærri. Og við gefum enga fréttatilkynningu út um það. Það kann þingmannanefndin að gera. En það sem hv. þm. var að segja var að engu orði væri að treysta af því sem formaður, sem ber ábyrgð á þessari fréttatilkynningu, og formennskulandið í EFTA segir. Það þykir mér heldur leiðinleg umsögn og ómakleg. --- [Fundarhlé.]