Tekjuskattur og eignarskattur

53. fundur
Mánudaginn 16. desember 1991, kl. 18:03:00 (2126)

     Jóhann Ársælsson :
     Virðulegur forseti. Ég verð nú að biðjast afsökunar á því að ég tók ekki strax til máls eftir að mér var gefið orðið en ég hef það mér til afbötunar að við nýliðar á þinginu erum ekki vanir slíkum vinnubrögðum sem við höfum orðið að búa við þessa dagana. Við höfum verið á harðahlaupum í dag á nefndarfundi til þess að reyna að þoka málum áfram vegna þess að hér virðist allt vera á síðustu stundu sem gera þarf í þinginu vegna afgreiðslu fjárlaga. En hér er nú til umræðu frv. til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt og hafði ég hugsað mér að fara um það fáeinum orðum.
    Ég var því miður ekki viðstaddur alla umræðuna sem fram fór í dag vegna þeirra mála sem ég var að nefna hér á undan og þess vegna kann vel að vera að ég endurtaki eitthvað af því sem þegar hefur komið fram, en það verður þá að hafa það.
    Fyrst ætla ég að bera niður í 4. gr. frv. þar sem segir: ,,Eftirstöðvar rekstrartapa frá síðustu fimm árum á undan tekjuári, framreiknaðar samkvæmt ákvæðum 26. gr., enda hafi fullnægjandi grein verið gerð fyrir rekstrartapinu og eftirstöðvum þess á því tekjuári sem tapið myndaðist.`` Þessar breytingar, sem verið er að vísa til þarna, eru á margan hátt umræðuverðar. Ég er á sama máli með sum þau atriði sem þarna koma fram um breytingar á þessum hlutum.
    Ég vil grípa hér niður annars staðar í þessum frv.: ,,Félag það sem við tekur skal hafa með höndum sams konar rekstur eða starfsemi``, þar er verið að útlista sérstaklega hvernig eigi að fara með þetta rekstrartap --- ,,og það félag sem slitið var. Tap flyst ekki á milli félaga þegar það félag sem slitið var átti fyrir slitin óverulegar eignir.``
    Ég tel að rétt sé að þrengja verulega þau ákvæði sem hafa verið og fylgja þeim mun fastar eftir en gert hefur verið. Og að ekki sé bókstaflega verið að notfæra sér einhvers konar félög og fyrirtæki, sem löngu eru komin á höfuðið, til þess að koma eignum undan skatti. Þess vegna tel ég að margt af því sem þarna er verið að gera sé til bóta. Hins vegar höfum við séð og ég er hér með bréf frá Verslunarráði Íslands þar sem það tekur á þessu máli og setur fram sínar skoðanir. Ég ætla ekki að lesa það allt saman upp en þar er komið inn á sum atriði sem ég vil ræða hér aðeins nánar. Í fyrstu athugasemdinni er sagt, að í 4. gr. frv. séu gerðar tvær breytingar. Önnur breytingin felst í því að takmarka yfirfærslu rekstrartapa við fimm ár. Mun það koma afar illa við ýmis fyrirtæki, sérstaklega í sjávarútvegi og stóriðjurekstri. En í þessum greinum hefur jafnan verið þrálátur taprekstur. Má því búast við enn fleiri gjaldþrotum í sjávarútvegi sem og öðrum atvinnugreinum, verði þessi breyting gerð, segja þeir hérna.
    Það er stutt á milli lífs og dauða, ég verð nú bara að segja það. Ef mönnum er ekki gert kleift að nýta sér tap til afskrifta, fari þeir á höfuðið. Þeir, sem eru að græða, eru nú ekki líklegastir að fara á höfuðið. Það eru einhverjir aðrir sem fara væntanlega á höfuðið en þeir sem eru að græða. Þarna segir Verslunarráðið að búast megi við enn fleiri gjaldþrotum í sjávarútvegi og öðrum atvinnugreinum ef menn fá ekki að afskrifa tapið. Eins og ég segi, held ég að þarna sé gert ráð fyrir því að styttra sé á milli lífs og dauða en er í raunveruleikanum.
    Verslunarráðið varar sérstaklega við samþykkt breytinga af því tagi hvernig skattlagningu eigna og eignatekna í heild verði háttað. Og hefur áhyggjur af þeim breytingum sem verið er að gera með því að þrengja möguleika fyrirtækja til þess að afla sér eigin fjár og gera hlutafjáreign að enn þá lakari kosti, eins og sagt er. Þeir vilja fá að sjá útfærsluna. Ég tel að menn verði auðvitað að leggja það hreint á borðið hvernig útfærslan eigi að vera á þessum hlutum. Það þurfi kannski ekki að liggja fyrir núna og þess vegna sé rétt og eðlilegt að þrengja þá möguleika sem menn hafa séð í því að notfæra sér þetta rekstrartap.
    Mjög er þrengt að svigrúmi til yfirfærslu rekstrartaps við sameiningu fyrirtækja. Það er að mínu viti vel. Ákvæði greinarinnar eru með mörgum skilyrðum og ýmsum svo óljósum, er sagt hér í bréfi Verslunarráðsins, en öðrum svo hörðum að ekki verður betur séð

en yfirfærsla rekstrartaps við sameiningu fyrirtækja sé ómöguleg. Ekki veit ég það nú, en ég vildi að satt væri. Ég tel enga ástæðu til þess að menn geti yfirfært rekstrartap með þeim hætti sem gert hefur verið á undanförnum árum. Engin ástæða til. Fram hefur komið, að menn telja að um 60 milljarðar séu af ónýttu rekstrartapi frá undanförnum árum hjá hinum ýmsu fyrirtækjum í landinu. Ég held að ef reikningar þessara fyrirtækja væru skoðaðir aftur í tímann yrði torfundinn þessi gróði, sem þessi sömu fyrirtæki ættu að hafa sýnt einhvern tímann ef þau ættu slíkt rekstrartap í fórum sínum.
    Ef ég man rétt var talið að eitt sjávarútvegsfyrirtæki, Meitillinn hf. held ég að það heiti, ætti upp undir milljarð í rekstrartapi. Hvenær skyldi það fyrirtæki hafa sýnt þann gróða og þá góðu afkomu sem gefi mönnum raunverulega ástæðu til þess að halda að slíkt tap hefði átt sér stað síðar? Ég held það sé alveg hárrétt, að það sé full ástæða til þess að taka á málunum með því að þrengja þessi ákvæði. Og tel ég þessa fimm ára reglu mjög ásættanlega. Þess vegna mæli ég með því að tekið verði á þessum hlutum.
    Ég ætla að geyma mér svolítið að fara yfir þann hluta frv. sem snýr að barnabótunum. Ég vil þó segja það strax að ég er ekki sammála hvernig á því máli er tekið. Ég tel að tekjutenging barnabóta komi mjög vel til greina en mér finnst, eins og málið er sett fram núna, að raunverulega sé verið að ofþyngja fólki sem á mörg börn. Eins og þetta kemur út núna er verið að lækka barnabætur með fyrsta barni um 19.574 kr. en um 15.435 með börnum umfram eitt. Þetta þýðir náttúrlega lækkun um 30 þús. kr. rúmar fyrir fólk með tvö börn og 45 þús. fyrir fólk með þrjú börn. Mér finnst ekki rétt að málum staðið. Ég tel að frekar hefði átt að láta bæturnar falla út fyrr, þ.e. við tekjur á bilinu 2,5 millj. eða 2,5--3 millj. kr. með fyrsta barni og þær féllu þá alfarið út með öðru barni eftir að tekjur færu yfir 3 millj. Einhverja slíka möguleika hefði átt að skoða frekar og halda þessum barnabótum hjá fólki sem er með fleiri börn. Mér finnst að það hefði verið eðlilegra en að gera þetta svona því eins og þetta kemur út núna er verulega meiri skerðing á barnabótum til fólks sem á fleiri börn heldur en færri. Þegar heildartekjur fólks eru orðnar í kringum 2 1 / 2 --3 millj. kr. hverfur þetta út og eftir það eru allar barnabætur eins til fólks sama hvaða tekjur það hefur og ég hefði talið að þannig ætti það ekki að vera. Það ætti frekar að láta koma sólarlag í barnabæturnar við einhvert visst tekjumark og halda eins og ég segi frekar uppi barnabótum hjá fólki sem á fleiri börn. Út af fyrir sig er þetta ekki svo mikið hugsað af minni hálfu en mér finnst samt að þetta sé atriði sem hefði átt að gefa meiri gaum að.
    Um þetta frv. að það að segja, eins og svo mörg önnur frv. sem við sjáum þessa dagana, að það er ekki mjög vel unnið og alveg er full ástæða til að gagnrýna hvernig undirbúningur fjárlaga hefur verið. Við höfum séð það í hverju málinu á fætur öðru að allt of lítil vinna hefur verið lögð í málin. Ekki hefur verið haft samráð við þá aðila sem þessi mál skipta og komið hefur í ljós að menn hafa hreinlega ekki vitað um hvað þeir eru að fjalla. Ég ætla að taka dæmi úr þessu frv. í sambandi við sjómannafrádráttinn. Þeim frádrætti á að breyta og skerða verulega. Sjómannaafslátturinn er í raun hluti af kjörum allra sjómanna hvort sem þeir eru fiskimenn eða farmenn og það er verið að efna til mikils ófriðar með því að ráðast að kjörum þeirra með þessum hætti. Ég held þó að fátt muni gera sjómenn reiðari en það að lesa grg. sem fylgir þessu frv. Ég verð að segja eins og er að mig rak í rogastans þegar ég las grg. þar sem leitast er við að rökstyðja það að leggja þennan sjómannafrádrátt alfarið. Það er að vísu sagt að það sé ekki lagt til núna og látið er í það skína að það sé ekki hægt með litlum fyrirvara. Grg. ber það líka með sér að þeir aðilar sem hafa samið hana hafa ekki gert sér grein fyrir því hver aðalástæðan er fyrir því að sjómannaafsláttur er við lýði á Íslandi. Á einum stað í grg. segir: Að því leyti sem séð verður af tiltækum gögnum að þessir frádráttarliðir hafi verið rökstuddir sérstaklega, virðist fernt koma fram. Í fyrsta lagi kostnaður sjómanna vegna hlífðarfata umfram aðra launþega. Í öðru lagi ívilnun til þeirra, sem sáu sér sjálfir fyrir fæði. Í þriðja lagi kostnaður vegna langra fjarvista frá heimili. Í fjórða lagi sérstök launahækkun til sjómanna eða hluta þeirra í tengslum við kjarasamninga.``
    Hér eru talin upp fern aðalrök í málinu en það er hvergi talið upp í þessum fjórum aðalrökum, að mati þess sem hefur samið þetta, aðalatriði málsins sem er að í mörg ár hefur verið litið á sjómannaafsláttinn sem einhvers konar viðurkenningu þjóðarinnar á sjómannsstarfinu. Einhvers konar bónus eða áhættuþóknun til sjómanna fyrir það starf sem þeir gegna. Það er hvergi nefnt í þessum texta. Í framhaldi af þessari upptalningu er sagt að þessi upphaflegu rök hafi rýrnað í tímans rás. Auðvitað segir þetta það að sá sem samdi þetta kemst að þeirri niðurstöðu að þessi fern aðalrök sem ég las upp áðan hafi verið fyrir sjómannafrádrættinum og þess vegna sé ekki lengur ástæða til að hafa hann.
    Það er svo margt skrýtið í þessari grg. og í sjálfu sér mjög merkilegt, eftir að við höfum séð grg. með alls konar frv. upp á nokkrar línur, að við skulum fá hér þriggja blaðsíðna ritgerð um sjómannafrádráttinn þar sem tíndar eru til furðulegustu fullyrðingar sem fyrir sumum hverjum eru ekki mikil rök.
    Ég ætla að tína til nokkrar sem segja svolítið um þann hugsunarhátt sem er á bak við það sem hér er sett á blað. ,,Hann veldur í senn óeðlilegri mismunun milli atvinnugreina og milli einstaklinga. Eðlilegt er að útgerðin beri þann launakostnað, sem leiðir af því að kjör sjómanna eftir greiðslu á tekjuskatti séu þannig að manna megi flotann í samkeppni á vinnumarkaði.`` Hvað þýðir þetta? Svo kemur framhaldið. ,,Því má reikna með að niðurfelling sjómannaafsláttar muni auka launakostnað útgerðar nokkuð. Ástand á vinnumarkaði sjómennsku og almennt bendir þó til að sú hækkun kunni að verða minni en fjárhæð afsláttarins gæti bent til. Í því sambandi er þróun launakjara sjómanna á síðustu árum athyglisverð.``
    Það sem þarna er verið að segja er nákvæmlega það að von sé til þess að sjómenn fái ekki í samningum við útgerðarmenn bætt það sem af þeim verður tekið. Það er nákvæmlega það sem þarna er verið að segja. Og vegna þess að þeir hafi notið eitthvað batnandi kjara á allra síðustu árum þá muni það tapast ef sjómannaafslátturinn verður tekinn af þeim. Svo er sagt hér áfram:
    ,,Til viðbótar því að niðurgreiðsla útgerðarkostnaðar er varhugaverð frá almennu sjónarmiði er þversögn fólgin í því að ríkið greiði niður útgerðarkostnað á sama tíma og það gerir ráðstafanir til að draga úr sjósókn vegna verndunarsjónarmiða. Slíkum aðstæðum verður að bregðast við með hagræðingu, m.a. fækkun skipa og áhafna. Niðurgreiðsla á útgerðarkostnaði er engin lausn í því efni. Þvert á móti gera niðurgreiðslur það mögulegt að halda áfram útgerð sem ekki er arðbær þegar á allt er litið. Auka þær þannig sóknina, valda meiri dreifingu aflans og gera útgerð í heild óarðbærari en ella væri.``
    Í þessum texta er raunverulega verið að rökstyðja að sjómenn séu á of háum launum og að menn skuli snúa sér að því að lækka þau. Ég tel að ef eigi að gera breytingar á einhverjum líkum kjaraatriðum og hér er verið að fjalla um sem ríkið hefur tekið þátt í eða verið aðili að þá séu svona aðferðir ekki bjóðandi. Ég tel að ef á að hrófla við viðlíka kjaraatriði og þessu verði það að gerast með yfirlýsingu frá hendi ríkisstjórnar um að hún óski eftir því að þetta mál verði tekið upp í kjarasamningum. Hér er ekki aldeilis verið að því heldur er hreinlega verið að breyta þessum hlutum. Í framhaldi af því hljóta sjómannasamtökin að taka þetta upp í kjarasamningum en útgerðaraðilar verða þá þolendurnir í málinu að mínu viti. Ég tel ekki að sjómenn muni nokkurs staðar gefa eftir þann afslátt sem þeir hafa haft. Þeir munu líta á þetta sem kjaraskerðingu sem verði að ná til baka í samningum.

    Síðan er því lýst að framkvæmdir á þessum sjómannaafslætti hafi farið út um víðan völl. Sem dæmi um það er tekin mismununin í því að beitningamenn sem ekki fara til sjós fái afslátt þegar annað landverkafólk nýtur hans ekki og framhaldið er mjög merkilegt. Þar er talað um að sjómenn sem geta verið í landi eða að jafnaði heima hjá sér að næturlagi njóti líka afsláttar. Allt lýsir þetta mjög vel hugsunarhættinum sem þarna er á bak við, sjómannsstarfið er einskis metið, en sú er einmitt ástæðan fyrir því að þessi sjómannaafsláttur er til. Bara það atriði, að sjómenn sumir hverjir geti sofið heima hjá sér á næturnar eigi að vera einhver rökstuðningur gegn því að sjómannaafslátturinn sé fyrir hendi, segir sína sögu. Þarna er líka samanburður við aðrar atvinnustéttir eins og langferðabílstjóra og aðra og segir það nákvæmlega það sama og ég var að segja áðan að, sá sem þetta samdi metur sjálft sjómannsstarfið einskis og telur að ekki beri að gera neinn mun á sjómennsku og öðrum atvinnugreinum. En þjóðin hefur fram að þessu verið á því að þarna ætti að gera mun á og það hefur verið að mínu viti mikil samstaða um að eðlilegt sé að sjómannastéttin í landinu fái nokkra umbun fram yfir aðrar stéttir vegna síns starfs en ekki vegna einhvers annars.
    Margar skemmtilegar setningar eru í þessum texta, enda er hann langur. Ein setningin er á þessa leið: ,,Auk þess er að geta að vaxandi vandkvæði eru á skynsamlegri framkvæmd sjómannaafsláttar. Stafar það m.a. af því að hlutlæg tengsl milli réttar til afsláttarins og þeirra markmiða, sem hann á að þjóna, eru torfundin.`` Þarna vantar aldeilis útskýringu á því hvað menn eru að fara. --- Stafar af því að hlutlæg tengsl milli réttarins til afsláttarins og þeirra markmiða sem hann á að þjóna eru torfundin. --- Ég skil að vísu vel að maður sem skilur ekki hvers vegna sjómannaafslátturinn er til sjái ekki þessi tengsl. En það segir bara sína sögu um það hverjir eru valdir til þess að semja texta og rökstuðning fyrir tillögum þessarar ríkisstjórnar. Hér er svo sagt:
    ,,Þrátt fyrir þau rök sem færa má fram gegn sjómannaafslætti er ekki í frv. gert ráð fyrir að fella hann niður.`` En það má auðvitað skilja af þessu orðalagi að menn telji fulla ástæðu til að leggja hann niður því að framhaldið er svona: ,,Tilvist hans er veigamikið atriði sem snertir kjör sjómanna og hag útgerðar sem ekki er unnt að taka burt án fyrirvara.`` Það er akkúrat það. Þetta er sem sagt ekki lagt til vegna þess að það er ekki nægur fyrirvari en ekki vegna þess að ekki séu nægileg rök til að leggja hann niður.
    Til marks um það og kannski til umhugsunar fyrir okkur þingmenn, vegna þess hvernig mál eru lögð hér fyrir okkur og hvert málið á fætur öðru er það illa undirbúið og það illa skoðað að menn vita raunverulega ekki hvað verið er að leggja til, þá er hér sagt um þetta atriði, þ.e. sjómannaafsláttinn í lok þessarar greinargerðar: ,,Áætla má að með þeim breytingum sem lagðar eru til í frv. muni þeim dögum, sem veita rétt til sjómannaafsláttar, fækka um nálega 300 þús. Veittur sjómannaafsláttur mundi samkvæmt því eiga að lækka um 180--200 millj. kr. frá því sem hann var við álagningu á þessu ári.`` Þetta segir nú í plaggi ríkisstjórnarinnar.
    Ég hef hér undir höndum mat manna hjá sjómannasamtökunum. Ég hef fengið minnisatriði í bréfi hjá þeim þar sem þeir hafa reynt að meta þennan sjómannaafslátt og ég ætla að lesa upp þessi minnisatriði. ,,Samkvæmt skattframtölum fengu sjómenn sjómannaafslátt í rúmlega 2,3 millj. daga á árinu 1990 og er sú tala ekki umdeild, m.a. hafa ekki verið gerðar leiðréttingar vegna kæra sem væntanlega fram hafa komið eftir álagningu. Engar tölur eru hins vegar til um það hvernig þessi tala skiptist á einstaka hópa sjómanna. Sjómenn á fiskiskipum, 12 brúttólestir og stærri, og kaupskipaflotanum eru lögskráðir. Sjómenn á bátum undir 12 brúttólestum og beitningamenn eru almennt ekki lögskráðir en þó eru dæmi þess að framangreindir menn séu lögskráðir.
    Samkvæmt lögum og reglugerðum um sjómannaafslátt gildir sú höfuðregla að afslátturinn miðast við þá daga sem maður telst stunda sjómannsstörf og aldrei fleiri daga en hann er í þjónustu útgerðar. Dagar vegna sjómannsstarfa eru lögskráningardagar og aðrir dagar sem eru vegna orlofs, veikinda, viðgerða skips á útgerðartíma, skipta á veiðarfærum, hátíðardaga og frítúra samkvæmt kjarasamningum og fleiru. Með hliðsjón af þessu má ætla að maður sem er í fullu starfi til sjós sé að jafnaði lögskráður í um það bil 240 daga eða 2 / 3 úr ári. Hann nýtur sjómannaafsláttar í 365 daga samkvæmt þeim reglum sem um sjómannaafslátt gilda í dag. Einnig má geta þess að ýmsir úrskurðir ríkisskattanefndar styðja þá túlkun að ráðningartími sjómanns ákvarði fjölda daga sem sjómannaafslátturinn miðast við. Áætluð skipting daga sem veita sjómannaafslátt á einstaka hópa sjómanna er eftirfarandi: Kaupskip, varðskip og ferjur, 300 þús. dagar. Beitningamenn 90 þús. dagar, sjómenn á bátum undir 12 brúttólestum 300 þús. dagar, aðrir sjómenn á fiskiskipum 1.660 þús dagar. Samtals 2 millj. 350 þús. dagar.
    Áætla má að sú breyting sem frv. gerir ráð fyrir varðandi sjómannaafsláttinn, ef hún nær fram að ganga, verði dagar til sjómannaafsláttar aðeins 70% af ofangreindum dögum hjá þeim sem áfram munu njóta sjómannaafsláttar. Dögunum mun því fækka niður í um það bil 1.580 þús. Reyndar er farið varlega í þessu mati því að skilja má á frv. að sjómenn missi rétt til sjómannaafsláttar vegna bræludaga og samningsbundinna hafnafría. Því gæti skerðing á dögum samkvæmt frv. verið meiri en hér er gert ráð fyrir. Miðað við dæmið hér að ofan mundi dögum fækka úr 2.350 þús. í 1.580 þús. eða um 770 þús. daga. Skerðing sjómannaafsláttar yrði því um 500 millj. kr.
    Af framansögðu má vera ljóst að tæmandi upplýsingar liggja ekki fyrir um sum þeirra atriða sem hér er getið. Eigi að síður telja undirritaðir að áætlun um skerðingu sjómannaafsláttar upp á 500 millj. kr. sé byggð á raunhæfu mati.`` Undir þetta rita Hólmgeir Jónsson, hagfræðingur Sjómannasambands Íslands, og Benedikt Valsson, hagfræðingur Farmanna- og fiskimannasambands Íslands.
    Þessir menn fullyrða það að þarna sé um að ræða 500 millj. kr. en í því frv. sem við erum að ræða hér um er gert ráð fyrir því að um 180 millj. kr. sé að ræða. Eins og ég sagði áðan er þetta ekki fyrsta frv. sem við sjáum hér eða fyrsta plaggið þar sem menn hafa orðið að fara til baka og reikna upp á nýtt. Ég hef þá tilhneigingu, a.m.k. í dag, að taka frekar gilt það sem þessir aðilar, sem ég var að lesa upp minnisatriðin frá áðan, eru búnir að reikna í þessu en það sem stendur í því plaggi sem hér liggur fyrir. Ég tel fulla ástæðu til þess að menn skoði reikninginn upp á nýtt. Ég tel full rök og fulla ástæðu til að þessar fyrirætlanir verði dregnar til baka. Ég ráðlegg mönnum það vegna þess að ég tel að sjómenn og útgerðarmenn muni lenda í miklum erfiðleikum við að koma þessum málum í höfn í samningum í framhaldi af því að Alþingi ákveði þessar breytingar. Það kann vel að vera að menn sjái ýmis rök í því að menn sem ekki stunda sjó eigi ekki að fá sjómannaafslátt, t.d. beitningamenn. En allir sem til þekkja vita að beitningamenn fá hann af því að margir þeirra eru ýmist á sjó eða á landi við beitningar. Þetta eru menn sem hafa verið að hoppa út í skipin þegar farið hefur verið á þorskanet eða aðrar veiðar, troll, og farið í land að beita þegar stundaðar hafa verið línuveiðar. Sjómenn líta á þessa menn eins og aðra félaga sína, sem sjómenn þó að þeir séu ekki allt árið á sjó.
    Við vitum það líka að sjómannaafslátturinn hefur ekki komið til nærri allra sem beita línu á Íslandi. Það er ekki nema mjög lítill hluti af mönnum sem eru við beitingar fyrir minni bátana sem fá sjómannaafslátt. Beitningar fyrir minni bátana hafa verið stundaðar miklu meira í akkorði. Þá eru menn ekki ráðnir og fá engan sjómannaafslátt. Ég vil benda mönnum á að kynna sér það að full ástæða er til að halda að verulega stór hluti af tekjum manna sem beita fyrir litlu bátana í landinu komi ekki til skatts, því miður. Þessar beitningar fyrir bátana undir 10 tonnum eru meira og minna í akkorði og ég hef séð og

veit um dæmi þess að þær koma hvergi til skatts. Þetta eru menn í fastri vinnu annars staðar sem taka það að sér í frístundum og þeir vilja ekki sjá það ef þeir þurfa að borga af því skatt.
    Það verður aldrei of oft sagt að undirbúningur fyrir málefni sem á að leggja fyrir Alþingi á að vera góður. Ég verð að segja vegna þeirra orða hæstv. forsrh. á sínum tíma að honum fyndist ekki vel staðið að málum hér á Alþingi og ekki nærri eins vel og gert var í borgarstjórn Reykjavíkur, að ég dreg í efa að borgarstjórinn í Reykjavík leggi fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir með þeim hætti sem fjárlagafrv. er lagt fyrir Alþingi. Ég efast um að svo sé og trúi því alls ekki. Ég held að það geti ekki verið að þannig sé staðið að málum hjá Reykjavíkurborg. Ég hef hvergi séð það í þeim fjárhagsáætlunum sem ég hef séð lagðar fram hjá bæjarstjórnum. Ég hef reyndar séð fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar líka þegar hún hefur verið lögð fram og ég tel að búið hafi verið að vinna málin miklum mun betur þar heldur en við höfum séð hér. Þess vegna held ég að sú ríkisstjórn, sem nú situr, ætti að hugsa sig vel um. Ef hún skyldi sitja áfram, fram yfir afgreiðslu fjárlagafrv., sem mér finnst að hafi verið með endemum, þá gefi hún sér tíma til þess að undirbúa málin betur svo að hún þurfi ekki að hrökkva til baka með þau til þess að vinna þau þegar búið er að leggja málin fram í Alþingi til umræðu.
    Ég ætla að ljúka máli mínu með því að beina því til fjmrh. að hann láti skoða sjómannaafsláttinn alveg upp á nýtt til þess að reikna aftur hvað kemur út úr dæminu og ekki síður með það fyrir augum að draga þetta alfarið til baka og ræða þá frekar málin við sjómenn og útgerðarmenn þegar samningar fara fram næst.