Tekjuskattur og eignarskattur

53. fundur
Mánudaginn 16. desember 1991, kl. 21:04:00 (2132)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (um þingsköp) :
     Eins og þeir sem sátu hér í salnum urðu kannski varir við hóf ég ræðu mína á að lýsa yfir óánægju minni með það að hér væri ég látin tala á meðan efh.- og viðskn. væri á fundi og það sem ég væri að tala um væri fyrirliggjandi frv. um tekju- og eignarskatt sem nefndin ætti að fá til umfjöllunar. Og að sjálfsögðu væri ég að tala til að hafa áhrif á nefndina, til að reyna að ná fram einhverjum breytingum í þessari nefnd.
    Ég verð að játa að ég er auðvitað óreyndur þingmaður og þekki ekki alveg minn rétt, en ég ætla að lýsa yfir óánægju minni með að forseti skyldi þá ekki gera hlé, fyrst ég bar þetta upp við hana bæði áður en ég fór í ræðustól og eins eftir að ég var komin í hann, og athuga það hvenær nefndin lyki störfum þannig að mér gæfist þá kostur á að sleppa því að tala eða við tækjum þá afstöðu til þess hvort við ættum að fresta fundi á meðan svona stæði. Ég er afskaplega ósátt við þetta. Ég verð að lýsa því yfir.