Tekjuskattur og eignarskattur

53. fundur
Mánudaginn 16. desember 1991, kl. 21:43:00 (2134)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
     Virðulegi forseti. Það kann að vera að bera í bakkafullan lækinn að gagnrýna skerðingu á sjómannaafslætti. Svo sterkar eru raddir forsvarsmanna þeirra, enda eru sjómenn nú í baráttu sem þeim er heilög, að halda mikilvægum hluta kjara sinna og missa ekki á einu bretti drjúgan hluta þess sem þeir skilgreina réttilega sem lögbundin kjör sín. En baráttan fyrir því að halda lögbundnum kjörum varðar alla. Ég tek heils hugar undir með þeim stöllum mínum úr hópi þingkvenna Kvennalistans sem benda á að skerðing barnabóta hittir hóp sem á sér formælendur fáa og raunar þann hóp sem síst skyldi, meðaltekjufólk sem ber mikinn kostnað vegna barna sinna, nýtur lítilla ívilnana samfélagsins og er með lúsarlaun því að meðaltekjur á Íslandi að frádregnum kostnaði eru smánarkjör. Með því er ég ekki að gera lítið úr því hversu erfið kjör láglaunahópa eru. Ég er bara að benda á að meðaltekjufólk býr einnig við alveg hreint óskaplega vond kjör.
    Ég ætla að líta aðallega á sjómannaafsláttinn og byrja á því að gera grein fyrir furðulegum tvískinnungi sem fram kom í máli hæstv. fjmrh. er hann gerði athugasemd við ræðu hv. 18. þm. Reykv., Kristínar Ástgeirsdóttur. Þar neitaði hann því að hliðstæða væri á milli BHMR-deilnanna í fyrra og þessarar fyrirhuguðu lagasetningar vegna sjómannaafsláttar. Mig langar því að spyrja hæstv. fjmrh.: Hver er munurinn á því að krukka í kjör fólks með lagasetningu og því að krukka í kjör fólks með lagasetningu? Ekki veit ég það.
    Ég hef heyrt það sem eina skýlausustu röksemd fyrir því að þessi lagasetning, sem nú er fyrirhuguð, er siðlaus að sjómenn líti á sjómannaafsláttinn sem hluta af sínum kjörum. Þetta hef ég ekki heyrt hrakið með neinum almennilegum rökum og hyggst raunar færa sönnur á að það sé ekki hægt. Ég get eins og höfundar hinna makalausu athugasemda við þetta frv. litið aftur til ársins 1954 til að skýra hvað felst í raun í sjómannaafslættinum. Í byrjun ársins 1954 birtist athyglisverð grein í blaðinu Sjómanninum sem ber yfirskriftina ,,Á að manna íslensk skip með erlendum sjómönnum?`` Í þessari grein er fyrst og fremst fjallað um þann vanda sem þá er kominn upp vegna lélegra kjara íslenskra sjómanna. En þar með var farið að knýja á um að erlendir sjómenn yrðu ráðnir á togara af því að Íslendingar fengust hreinlega ekki til að vinna fyrir því kaupi sem bauðst. Hér er því tvímælalaust um deilu um kjaramál að ræða. Með leyfi hæstv. forseta vitna ég í þessa grein, en höfundur segir:
    ,,Lítið virðist þó enn hafa orðið úr því að færeyskir sjómenn færu á togarana og mun það aðallega hafa strandað á andstöðu togarasjómannanna sjálfra sem hafa hótað að ganga af skipum ef úr yrði.``
    Virðulegi forseti. Ég vil vísa í athugasemd sem var gerð í þessu sambandi. Kemur fram það sjónarmið að ástæða þess hve illa gengi að manna íslensk skip væru bág kjör. Þetta hef ég úr ritgerð sem var skrifuð í viðskiptadeild fyrir ekki mjög löngu. En áfram held ég tilvitnuninni:
    ,,Eins og áður hefur komið í ljós erum við fullvissir um að aðalástæðan til þess hve illa gengur að fá menn á togarana er sú hve kjörin eru léleg samanborið við það hvað menn bera úr býtum við almenna vinnu í landi þegar atvinna er næg. Ef kjör togarasjómanna yrðu verulega bætt, hætt yrði að umstafla á heimamiðum og betur að sjómönnum hlúð af hálfu þess opinbera, t.d. varðandi einhver skattfríðindi og lækkun álagningar á hlífðarföt, viljum við treysta því að íslenskir sjómenn fáist á togarana og væri innflutningur erlendra sjómanna því algjörlega óþarfur.`` Síðar í greininni kemur þetta fram: ,,Af hálfu Sjómannasamtakanna hefur þráfaldlega verið bent á það að tregða íslenskra sjómanna til starfa á fiskiskipin væri aðallega og jafnvel eingöngu vegna þess hve kjörin væru bág samanborið við það hvað menn bera úr býtum fyrir vinnu sína í landi þegar vinna er stöðug og næg og þá sérstaklega þegar borinn er saman vinnutími á sjó og í landi og launin reiknuð út frá því.`` Og niðurstaðan í þessari grein verður: ,,Stjórn félagsins þykist þess fullviss að ef kjör togarasjómanna yrðu verulega bætt og betur að sjómönnum hlúð af hálfu þess opinbera varðandi einhver skattfríðindi og lækkun álagningar á hlífðarföt mundu nægjanlega margir íslenskir menn fást á togarana og væri þá innflutningur erlendra sjómanna algjörlega óþarfur til starfa á þá og hefur því stjórnin synjað um leyfi til þess að ráða erlenda menn á togarana.``
    Það kemur raunar fram til skýringar að þetta upphaf sjómannaafsláttarins var ekki með fullkominni einingu en það breytir ekki niðurstöðunni. Í framhaldi af þessu var síðan ákveðið að ríkisvaldið tæki að sér að bæta kjör sjómannna, án þess að útgerðinni væri íþyngt, með því að veita skattafslátt vegna fæðispeninga, hlífðarfata og fleira. Mig langar til að vitna til ræðu Eysteins Jónssonar, sem þá var fjmrh., í þessu sambandi, en hann segir m.a. á þingi veturinn 1953--1954, með leyfi forseta:
    ,,Nú hefur verið talað um það í þessu sambandi við ýmis vandkvæði sem útgerðin á við að búa og mannkost á skipum að það mundi geta leyst þann vanda að einhverju verulegu leyti að breyta skattalögum.``
    Þetta er því beint í kjölfar þessarar umræðu. Hér er greinilega verið að tala um það að bæta kjör sjómannastéttarinnar. Þetta staðfestist í raun í athugasemd við frv. sem hér er til umræðu. Mig langar til að vitna til þess sem stendur á bls. 10, með leyfi forseta, en þar er þessi yfirlætislausa málsgrein: ,,Í fjórða lagi sérstök launahækkun til sjómanna eða hluta þeirra í tengslum við kjarasamninga`` og er þá vísað til þess hvernig frádráttarliðir eru rökstuddir sérstaklega. Þarna er verið að tala um lög nr. 49/1987 þannig að ekki er þessi kjarakafli neitt sem einungis tilheyrir forneskjunni. Á bls. 11 er þetta áréttað enn frekar og raunar með alveg dæmalausum hætti. Og enn langar mig að vísa í þessar athugasemdir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Um ívilnanir þessar sem launauppbætur í tengslum við kjarasamninga er tvennt að segja. Annars vegar er að á sínum tíma voru ívilnanirnar rökstuddar með tilvísun til sérstaks tímabundins ástands, skorts á sjómönnum o.s.frv. Þær forsendur, sem þá voru í því efni, eru ekki lengur fyrir hendi og ætti því ekki að vera ástæða til að halda bótunum áfram. Hins vegar og e.t.v. enn mikilvægara er að hér er um að ræða óeðlileg afskipti ríkisins af gerð kjarasamninga sem leiðir til óhagræðis í atvinnulífinu og mismunar launþegum jafnt sem fyrirtækjum.``
    Mér finnst raunar alveg dæmalaust hvað sagt er í þessum athugasemdum og lýsi furðu minni yfir því að hæstv. ríkisstjórn skuli láta sér detta í hug að hægt sé að viska því sem viðurkennt er að sé hluti af kjarabótum sjómanna út af borðinu eins og ekkert sé sjálfsagðara bara vegna þess að nú heldur hæstv. ríkisstjórn að hægt sé að manna flotann léttilega og því sé ekki ástæða til að halda bótunum áfram. Þvílíkt og annað eins. Og þvílík þversögn að segja í öðru orðinu að ríkið eigi ekki að hafa óeðlileg afskipti af gerð kjarasamninga, og vísa þá í samninga sem hafa verið gerðir, og ætla svo í hinu orðinu að hafa þau óeðlilegu afskipti af gerðum kjarasamningum að skerða viðurkennd kjör sjómanna um allt að 30% eins og ég hef heyrt. Ég skil ekki svona lagað.
    Ég hef ákveðna meiningu um að ekki sé endilega ástæða til þess skilyrðislaust að ríkið greiði niður kjör einstakra stétta. En samningar eru samningar og þeim verður ekki rift nema með öðrum samningum, í þessu tilviki milli ríkisins, útgerðarinnar og sjómanna.

Ég veit raunar ekki betur en að sjómenn séu fyllilega reiðubúnir til slíkra viðræðna. Við vitum hins vegar öll hvernig útgerðin stendur nú, þ.e. sem atvinnugrein í heild, ekki einstök fyrirtæki, og því er ég raunar efins um að nú næðust samningar um slíkt. Án slíkra samninga er hins vegar siðlaust að krukka í kjör nokkurrar stéttar. Ég vísa því á bug að hér sé nokkuð annað á ferðinni en lög á kjarasamninga. Ég minni á orð hæstv. núv. sjútvrh. og dóms- og kirkjumrh. er hliðstæðar aðgerðir voru til umræðu, kjaraskerðing með lagasetningu, hér á Alþingi fyrir ekkert óskaplega löngu. Í það sinnið bitnaði hún á félagsmönnum BHMR, en ráðherra, sem þá var raunar óbreyttur þingmaður, sagði 11. des. 1990, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Í þessu falli er tekin til baka launahækkun sem hafði komið til framkvæmda. Í þessu falli eru sett lög sem afnema víxlverkunarákvæði í einum kjarasamningi en ekki öðrum. Þessi lagasetning er því um margt mjög sérstæð og einstök að því er varðar lagaíhlutun í gerð kjarasamninga.``
    Hvað annað er á ferðinni nú? En kannski er óeiningin innan hæstv. ríkisstjórnar slík að þessi sé skoðun hæstv. sjútvrh. og hæstv. dóms- og kirkjumrh. en ekki hæstv. fjmrh.?
    Ég þykist hafa rökstutt hvers vegna mér finnst það varða alla launþega á Íslandi þegar lög eru sett á lögbundin kjör einnar stéttar, hvernig svo sem þau eru til komin. Við hverju megum við búast næst? Ég vil undir lokin taka undir það með stjórn og trúnaðarmannaráði Sjómannafélags Reykjavíkur sem sagt er í ályktun frá 12. des. sl., með leyfi forseta:
    ,,Stjórn og trúnaðarmannaráð Sjómannafélags Reykjavíkur skorar á Alþingi að fella 9. gr. frv. vegna þeirrar tekjuskerðingar sem hún hefur í för með sér fyrir íslenska sjómannastétt um leið og minnt er á margra ára lausnir sjómannasamninga tengdra máli þessu.``
    Það er siðlaust að ráðast að kjörum einnar stéttar með lagasetningu. Nauðsynleg launajöfnun í landinu verður að fara fram með öðrum hætti. Við vitum ekki hver verður næst fyrir barðinu á slíkum aðgerðum. En vera má að áhyggjur mínar nú séu ástæðulausar og orð sjálfstæðismannsins Guðjóns A. Kristjánssonar, hv. 1. þm. Vestf., verði áhrínsorð en hann sagði í kvöldfréttum útvarpsins 10. des. sl., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ég er nú ekki viss um að það sé þingmeirihluti fyrir þessu í þinginu. Ég held nú að það sé mikið af skynsömum mönnum sem sjá kannski ekki ástæðu til þess að vera að efna til stórátaka við eina stétt um þessi mál.``
    Ég vona sannarlega að þetta verði áhrínsorð. Ég vona einnig að upp rísi jafnöflug andstaða gegn öðrum órétti þessa frv., svo sem skerðingu barnabóta. Ekki veitir af.