Tekjuskattur og eignarskattur

53. fundur
Mánudaginn 16. desember 1991, kl. 21:58:00 (2135)

     Kristín Ástgeirsdóttir (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Þessa dagana eru haldnir tíðir fundir í ýmsum þingnefndum Alþingis og í dag hefur það gerst að haldnir hafa verið tveir fundir í efh.- og viðskn. Þangað berast tillögur á tillögur ofan til breytinga á svokölluðum bandormi. Mér skilst að í fjárln. sé tekist á um heilbrigðismál en eins og við munum var stórum hlutum fjárlagafrv. vísað til 3. umr. það voru þeir þættir sem snúa að heilbrigðis-, trygginga- og skólamálum sem eru engir smá málaflokkar, upp á tugi milljarða. Ég veit ekki hvað þetta á að ganga svona lengi og ég legg einfaldlega til, herra forseti, að hlé verði gert á þingstörfum þangað til ríkisstjórnarflokkarnir eru búnir að koma sér saman um hvað þeir vilja og hvað þeir ætla að gera. Það mun ekki standa á okkur stjórnarandstæðingum, reikna ég með, að veita ríkisstjórninni nauðsynlegar heimildir þannig að greiðslur úr ríkissjóði geti gengið með eðlilegum hætti eftir áramót, en þegar stjórnin verður búin koma sér saman erum við líka reiðubúin að mæta til þings til þess að halda áfram eðlilegri vinnu.