Tekjuskattur og eignarskattur

53. fundur
Mánudaginn 16. desember 1991, kl. 22:00:00 (2136)

     Guðrún Helgadóttir (um þingsköp) :
     Hæstv. forseti. Ég get ekki látið hjá líða að taka undir orð hv. 18. þm. Reykv. Ástandið hér á hinu háa Alþingi er auðvitað orðið með hreinum ólíkindum. Við höfum setið á löngum fundi í hv. fjárln. þingins þar sem stóru máli var frestað til 3. umr. sem nú sýnist í algjöru uppnámi sem er samlagning tveggja sjúkrahúsa hér í borginni og er ljóst að úr því getur tæplega orðið þar sem báðir aðilar mótmæla harðlega að þetta verði látið fram ganga. Við þetta megum við búa, að ákvarðanir séu teknar á nokkurra klukkustunda fresti um fjármuni sem skipta hundruðum milljóna. Síðan berast okkur í fjárln. hinar furðulegustu fréttir af því sem er að gerast í hv. efh.- og viðskn. þingsins. Ég hlýt að taka undir, hef enda varað við því fyrir þó nokkrum tíma síðan að það hljóti að vera harla vonlaust að ná fram afgreiðslu fjárlaga fyrir jól, þessa ábendingu hv. 18. þm. Reykv. Ég hygg að betur væri með tímann farið, hafi menn einhverjar vonir um að ljúka þessari vinnu fyrir jólahlé, ef gefið yrði hlé frá þingstörfum svo að hæstv. ríkisstjórn gæti sest niður og reynt að ræða sig gegnum þau mál sem okkur er ætlað að afgreiða fyrir jólahlé. Ég tek fram, herra forseti, að þetta er mælt í mestu vinsemd. Ég hygg að hæstv. forseti hafi nú þegar sjálfur séð hvert stefnir þar sem hann situr í hv. fjárln. þingsins og hefur fylgst þar með störfum eins og við öll. Ég bið því hæstv. forseta og forsætisnefnd þingsins í mestu vinsemd að nota heldur tímann, a.m.k. á kvöldin og um nætur, til að koma sér niður á til hvers er ætlast af okkur hv. þm. þessa dagana.