Tekjuskattur og eignarskattur

53. fundur
Mánudaginn 16. desember 1991, kl. 22:03:00 (2138)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég sagði í ræðu minni fyrr í kvöld, að ég sé ekki ástæðu til þess að halda áfram málefnalegri umfjöllun um frv. sem hér liggur fyrir einfaldlega vegna þess hvernig ástatt er í nefndum þingsins, þeim veigamestu, fjárln. og efh.- og viðskn. Þess vegna, virðulegi forseti, hlýt ég að lýsa sérstakri ánægju minni yfir því að ég gat ekki skilið orð virðulegs forseta áðan öðruvísi en svo að hann væri að taka undir þau sjónarmið að ástæða væri til að hæstv. ríkisstjórn fengi ráðrúm til þess að setjast niður og koma fram með einhverjar þær tillögur sem séu það mótaðar að hv. fjárln. og efh.- og viðskn. hafi eitthvað til þess að taka afstöðu til, við séum ekki að fá brtt. að kvöldi við brtt. sem við fengum að morgni við sama málið og að við vitum eitthvað hvað það er sem hæstv. ríkisstjórn ætlar sér að leggja fram og fá í gegnum þingið fyrir jólin.