Tekjuskattur og eignarskattur

53. fundur
Mánudaginn 16. desember 1991, kl. 22:37:00 (2145)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
     Herra forseti. Hér hafa þær kenningar verið settar fram að nú sé nauðsyn að smúla dekkið. Það bendir til þess að hæstv. félmrh. lét á sínum tíma samþykkja með aðstoð þingmanna þáltill. þar sem lagt var til að metið væri hversu mikil væru skattsvik á Íslandi. Hæstv. fjmrh. mun kannast við þessa tillögu. Þetta voru allmargir milljarðar sem hinir vísustu menn, sem yfir málið fóru, töldu að skattsvikin hljóðuðu upp á. Það virðist nú að risinn sé upp á meðal vor sá aðili sem vill ríða fram á hvítum hesti og heimtar réttlæti í þessum efnum. Mér sýnist þess vegna að eigi að smúla dekkið þurfi að taka á fleirum en sjómönnum.
    Það er ærið umhugsunarefni að þessi þjóð býr við einhvern hæsta virðisaukaskatt sem þekkist. Samt dugar það ekki til þess að ná inn þeim tekjum sem við þurfum. Væri fróðlegt að bera saman skattkerfi ýmissa landa og fá úr því skorið hvort það vantar vopnin handa hæstv. fjmrh. til að ná sköttunum inn eða hvort undanskotin eru slík að það sé ástæðan. Það liggur nefnilega ljóst fyrir, og var ekki sagt hér af þeim sem þennan texta hafa ritað, að þegar menn skoðuðu þetta á sínum tíma og báru t.d. saman við iðnaðarmenn sem gjarnan liggja undir þeim sökum að ,,svört atvinnustarfsemi`` eigi sér stað hjá, þá komust þeir að því að það væru ekki svo miklir möguleikar hjá sjómönnunum að fara fram hjá skattkerfinu. Ég held nefnilega að sá texti sem hér er ritaður sé dálítið einfaldaður. Ef menn telja sig hafa fundið hin breiðu bök sem beri að leggja á skatta, það séu þeir hlutaráðnu sjómenn sem eru kallaðir landmenn og að það þurfi sérstaklega í þeim aflasamdrætti sem nú gengur yfir að veita þessum hópi manna aðför, þá er kannski rétt að spyrja: Stenst þetta kenninguna um framboð og eftirspurn sem nú er hvað hæst haldið á lofti? Er offramboð á þessum mönnum í landinu? Ég held nú ekki. Kannski er líka rétt að spyrja: Er þá staðan sú, samkvæmt vistfræðinni sem hæstv. umhvrh. á að fylgjast með, að þetta veiðarfæri valdi því að menn eru hættir að þora að leggja til að hér verði sá þorskur dreginn á land sem dreginn hefur verið um áratugi og ekki komið að sök? En eftir að sérfræðingar eru settir í að leiðbeina er allt hrunið og þá má ekki veiða. Hvað er að? Það skyldi þó ekki vera að eitthvað af öðrum veiðarfærum séu ekki jafnvistvæn og línan? Það skyldi þó ekki vera að þau veiðarfæri dræpu kannski meira en kemur að landi? Ég held þess vegna að þessi sérstaka aðför í nafni réttlætisins á þeirri forsendu að nú eigi að smúla dekkið og sópa fyrir borð í þessu sjómannaafslættismáli þeim sem eru landmenn sé dálítið völt. En það virðist eins og þeir séu ansi margir sem eru til í það að hefjast handa undir þessum kringumstæðum og veita þessum hópi sérstaka aðför.
    Það er nefnilega dálítið merkilegt að við erum með sérstætt launakerfi í landinu. Það er svo misjafnt að það er með ólíkindum. Ein stétt eins og sjómenn verður að taka á sig fullar skerðingar þegar á móti blæs og lítið veiðist. Vissulega njóta þeir þess þegar betur árar í veiðiskap. Samt er það svo að flestir verja aðeins broti af sinni starfsævi til þess að stunda sjó við strendur landsins, vegna þess að það reynir svo á þrek manna að þeir leita sér að öðrum léttari störfum. Mér finnst þess vegna nokkuð til í því sem hér kom fram. Er þá niðurstaðan orðin sú að skilningurinn á því á hverju Íslendingar lifi sé gersamlega farinn fyrir borð?
    Ég ætla að geta þess, þó að maður geri ekki mikið af því að vitna í viðtöl við einstaka menn, að á þessum vetri sagði mér maður, sem var landmaður á bát frá Akranesi á sínum yngri árum, að þeir hefðu farið yfir 50 róðra í röð án þess að nokkurn tíma hefði komið til landlegu. Tveir eldri menn unnu þá þessi störf ásamt þessum yngri. Það stórsá á þeim eftir vertíðina, sagði hann. Við þoldum það, strákarnir, en það stórsá á hinum. Ég veit fullkomlega hvaða vökur hafa fylgt þessum störfum. Hér finnst mönnum mikið ef vakað er á Alþingi Íslendinga af og til. Það liggur við að sumir telji að ef stjórnarandstaðan er það hörð að hún sé á móti einhverju máli og menn leggja það á sig að vaka nokkrar nætur sé það ekki eðlilegt, það sé svo afbrigðilegt ástand. Það hljóti að vera alveg snarvitlaust lið sem stendur þannig að. En þegar sjósókn er annars vegar hefur aldrei verið spurt að því. Sett voru vökulög hreinlega til að koma í veg fyrir það að menn væru drepnir, því skulu menn gera sér grein fyrir. Hreinlega til að koma í veg fyrir það, drepnir með þrældómi.
    Ég verð að segja eins og er að í þeirri stöðu, þegar fyrirsjáanlegur er verulegur tekjusamdráttur hjá þessum mönnum, sé ég ekki rökin til að gera þetta miðað við þá stöðu sem skattamál Íslands eru í. Ég sé þau ekki. Mér finnst það nokkuð mikil kokhreysti að halda því fram að nú eigi að smúla dekkið. Það er nefnilega staðreynd hvort sem okkur líkar betur eða verr að fjmrn. íslenska vantar ekki lög til að ná inn tekjum. Það vantar ekki ný lög í þessu landi til þess að ná inn tekjum. Það vantar fyrst og fremst að framkvæmdarvaldið sinni því verki með eðlilegum hætti að ná inn þeim sköttum sem Alþingi Íslendinga hefur samþykkt. Það er engin lausn í þessari stöðu að hækka stöðugt kröfuna um aukna skatta á öllum sviðum. Dálítið merkilegt er þegar fjmrn. er að bera saman annars vegar hlunnindi úti á landi og hins vegar hlunnindi hér. Þá er eins og niðurstaðan sé ekki sú sama. Ætli fólk í frystihúsunum vildi ekki gjarnan sitja uppi með það að greiða þá fæðispeninga sem greiddir eru í ríkismötuneytunum á Íslandi? Ætli fólk mundi ekki vilja það? Hvernig er það reiknað út gagnvart sköttum? Hafa einhverjar forsendur verið settar þar upp? Hvernig var það með læknana sem máttu fara alla leið til Egyptalands í námsferðir? Hvernig var það reiknað gagnvart sköttum? Hvað er með þann sem ætlar að smúla? Er hann hættur að hugsa um skattamál og farinn að snúa sér að öðrum hlutum?
    Þessi mál eru ekki á þann veg að menn geti staðið hér uppi og riðið hvítum fákum og sagt: Í nafni réttlætisins verður að breyta þessu. Það er ekki forsendan fyrir því að verið er að gera þetta. Forsendan er sú að þeir sem að þessu standa, það kerfislið sem leggur þetta til, vill ekki vega að öðrum hlunnindum sem ekki eru skattlögð í þessu landi. Það er málið. Þarna er fjarlægðin hæfileg frá vinnustaðnum sem þeir starfa á og þess vegna er sótt fram með þessum hætti.
    Ég held að einnig sé nokkurt umhugsunarefni að hér eru settar inn nýjar leikreglur varðandi rekstrartap. Hvernig má það vera að sá flokkur einstaklingsfrelsis sem hér er, Sjálfstfl., flokkur sjálfstæðra atvinnurekenda, flokkur þeirra sem hafa sagt: Það má ekki leggja á afturvirk lög, ætlar að leggja á lög sem eru afturvirk meira en fimm ár aftur í tímann? Meira en fimm ár aftur í tímann ætlar hann að leggja á afturvirk lög? Ef menn hefðu selt þennan skattafrádrátt á sínum tíma væri hann þeim peningar í dag. Þeir seldu hann ekki. Þeir ætluðu að halda áfram að vinna sig út úr vandanum og þess vegna er hann tekinn burtu. Hvað eru afturvirk lög ef þetta eru ekki afturvirk lög? Hvar eru talsmenn þessa réttlætis í þingsal sem hafa sagt að ekki ætti að leggja á afturvirk lög? Þeir eru sumir að troða pappír í plastpoka. Það er verkefnið sem þeir hafa vegna þess að heilasellurnar þora ekki að koma nálægt þessu verkefni. Þannig er staðan. Það eru engin rök. Það verður ekki hlustað á það úr þessum ræðustól ef þessir sömu aðilar koma hér í nafni réttlætisins seinna meir og segja: Það á ekki að leggja á afturvirk lög, vegna þess að þessi lög eru afturvirk. Það veit hv. þm., sá sem hefur hvað heiðarlegust viðhorf til þessara mála, hv. 4. þm.

Reykv. Honum er fullkomlega ljóst að hér er verið að brjóta þau prinsipp. Hér er verið að leggja á afturvirk lög. Ég verð að segja eins og er að ég átti ekki von á því að undir þessum kringumstæðum dytti mönnum í hug að það bæri að gera, að leggja á afturvirk lög. Ef menn vilja breyta þessu, þá þarf að breyta leikreglunum frá deginum í dag. Annað er ekki sæmandi. Hitt eru leikreglur sem ekki standast heiðarlega umfjöllun. Hvað með þá sem keyptu þessi töp kannski fyrir einu ári? Fimm ára töpin? Hvað með þá? Hvernig á að skattleggja það? Hvernig á að reikna það út? Það getur vel verið að sumir verði þorstlátir undir svona kringumstæðum en það er engin lausn á þessum vanda. Réttast væri að safna saman bunkanum sem til er þegar menn hafa kvartað yfir því að hér væri verið að leggja á afturvirk lög og lesa hann upp. Þannig yrði mönnum ljóst að tekist hefur verið á um það í þessum sölum hvort afturvirk lög ættu rétt á sér og þar hafa menn verið virkilega hörundsárir. Ég hef ekki verið hreykinn af því þegar Framsfl. hefur staðið að afturvirkri lagasetningu. En afturvirk lagasetning eins og hér er verið að tala um, þar er seilst lengra aftur en mönnum hefur nokkurn tíma dottið í hug áður, hæstv. umhvrh.
    Ég sé það og heyri að lítið fer fyrir prinsippum. Það fer lítið fyrir því að sumir hv. þm. telji að það séu einhverjar leikreglur sem hinn vestræni heimur hefur mótað í þessum efnum. Lítið fer fyrir þeim skilningi að menn hafi viljað gera greinarmun á eignaupptöku annars vegar og skattlagningu hins vegar. Annars vegar að mönnum séu leikreglurnar ljósar sem þeir eiga að starfa eftir eða hins vegar að leikreglurnar séu settar eftir á og mætti þá gera ráð fyrir að hæstv. landbrh. hefði stundum verið rekinn út af í þingsölum áður fyrr ef sú regla hefði verið að menn settu leikreglurnar eftir á og tækju það fyrir sem hefði valdið hvað mestum usla. Menn hafa sett leikreglurnar fyrir fram og svo hafa menn spilað eftir þeim. Með því að taka ákvörðun eins og þessa er verið að setja leikreglurnar eftir á og þá eru menn gersamlega varnarlausir í atvinnulífinu. Ég fæ ekki séð ef fyrirtæki hefur keypt tap, sem hefur myndast fyrir fimm eða tíu árum, varið til þess 50 eða 100 millj. að það tap yngist neitt upp þó að kominn sé nýr eigandi að tapinu. Það hlýtur að valda sínum aldri. En þá er búið að setja í lög á Íslandi að sá sem setti tapið eftir þeim leikreglum sem þá voru í gildi stendur frammi fyrir því að hann fleygði þeim peningum til einskis. ( Landbrh.: Það er nú einkenni á tapinu að maður tapar.) Það er einkenni á tapinu að maður tapar. Kannski væri eðlilegt að hæstv. landbrh. kæmi þessum texta á framfæri hjá ríkisstjórninni og þar yrði látið reyna á skilninginn. Það er nefnilega ekki verið að skattleggja gróða. Það er kjarni málsins. Samstaða hefur verið um að skattleggja gróða en nú er komið svo að menn eru ákveðnir í því að snúa sér að því að skattleggja tapið. Það er niðurstaðan. Þetta er þess vegna skarplega athugað hjá hæstv. landbrh. Það er kjarni málsins.
    Ég held að ekkert saki meðan þetta mál verður til skoðunar í nefnd að hæstv. ríkisstjórn komi sér saman um það hvort sú meginregla eigi að gilda á Íslandi að það sé gróðinn sem sé skattlagður eða menn ætli að græða á því að skattleggja töpin.