Tekjuskattur og eignarskattur

53. fundur
Mánudaginn 16. desember 1991, kl. 23:39:00 (2151)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Það var af því að mér hafði fyrr, virðulegi forseti, láðst í svörum mínum að greina frá þessu. Ég satt að segja hef ekki reiknað þetta út með þrjú prósentin, þannig að ég veit það ekki. Ég vil að það komi fram, það var ekki vegna þess að ég vildi ekki svara hv. þm.
    Varðandi persónuafsláttinn er það ljóst og kemur reyndar fram í fjárlagafrv. að persónuafslátturinn breytist ekkert frá því sem nú er og fram á mitt ár. Það er vegna þeirrar lagabreytingar sem átti sér stað í árslok 1988, að halda skattbyrðinni óbreyttri hvort sem laun, raunlaun, hækki eða lækki. Upphaflega, og það er rétt að það komi fram, var gert ráð fyrir því í skattalögum að þegar raunlaunin lækkuðu að þá lækkaði skattbyrðin jafnframt. En á árinu 1988, um haustið, var þessu kippt úr sambandi og lánskjaravísitöluviðmiðunin er einungis miðuð við þá ákvörðun sem tekin er á miðju ári. Í raun hefði þurft að lækka persónuafsláttinn til þess að ná fram þeim markmiðum að skattbyrðin yrði jafnhá á næsta ári vegna þessa kerfis. Við létum við það sitja að hafa skattafsláttinn óbreyttan en í þjóðhagsspá er gert ráð fyrir, ef ég man rétt, að vegna lánskjaravísitölubreytingarinnar hækki afslátturinn á miðju næsta ári um 1,2%. Samkvæmt því er talið að skattleysismörkin hækki um tæplega 3% milli áranna 1991 og 1992 eða heldur meira en laun samkvæmt forsendum fjárlaga. Ég tel ástæðu til að þetta komi fram af því að ég hef orðið var við að það er misskilningur í gangi, ekki síst vegna fréttatilkynningar frá Alþýðusambandi Íslands.