Tekjuskattur og eignarskattur

53. fundur
Þriðjudaginn 17. desember 1991, kl. 00:04:00 (2153)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
     Virðulegi forseti. Ég mun ekki tefja umræður lengi til viðbótar en ég sé ástæðu til að fara frekar í nokkur atriði. Það er í fyrsta lagi sameiginlegt áhugamál okkar hæstv. fjmrh., þ.e. starfsumhverfi atvinnulífsins, sem hann hefur árum saman bæði flutt um langar ræður og mál sem hafa náð fram að ganga eins og ég nefndi fyrr í dag. Ég ætla að taka sérstaklega fyrir eitt atriði af því mér fannst að hæstv. fjmrh. hafi ekki verið það alveg ljóst eftir fyrri umferð umræðnanna. Það er 4. gr. frv. til laga um breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, varðandi breytingar á 31. gr. laganna þar sem segir:
    ,,7. tölul. orðist svo: Eftirstöðvar rekstrartapa frá síðustu fimm árum á undan tekjuári, framreiknaðar skv. ákvæðum 26. gr., enda hafi fullnægjandi grein verið gerð fyrir rekstrartapinu og eftirstöðvum þess á því tekjuári þegar tapið myndaðist.`` Þetta er það tap

sem er leyfilegt að draga frá.
    Satt best að segja var ég mjög lengi að átta mig á því að þetta væri í alvöru inni í þessu frv. Því að, virðilegi forseti, ég held ég verði að leyfa mér að segja að þetta er svo víðáttuvitlaust ákvæði að þeir sem hafa sett það þarna inn hafa miklu minni skilning á atvinnulífinu og rekstrarumhverfinu en ég veit að hæstv. fjrmh. hefur. Ég hlýt eiginlega að spyrja: Hvað hefur rekið menn til þess að setja þetta þarna inn? Þetta breytir rekstrarumhverfinu í grundvallaratriðum. Við þurfum ekki að taka nema eitt atriði. Það er alls ekki víst að fyrirtæki geti fyrnt keyptar eignir eins hratt eins og skattalögin gera ráð fyrir á hverjum tíma. Þar hafa nú á stundum verið reglur um mjög hraða fyrningu. Þar með er tekinn af fyrirtækjunum sá möguleiki að geyma sér fyrninguna til seinni ára og þau verða nauðug viljug að gera tilraun til þess að koma þessu út í verðlagið í gegnum reksturinn á þeim tíma sem fyrningarlög segja til um á hverjum tíma. Það er biti sem getur orðið mörgu fyritækinu stærri en þau ráða við.
    Líka er ljóst að þetta getur verið það sem skilur á milli feigs og ófeigs hjá fyrirtækjum sem eru að koma sér á legg, að ég tali nú ekki um þau sem eru að ryðja veginn í nýjum atvinnugreinum, hvort þeim leyfist að nýta sér tap fyrstu rekstrarára til frádráttar aftur þegar lengra er komið og getur skilið á milli hvort þau eru fær um að standa við þær skuldbindingar sem teknar voru í upphafi rekstrarins. Ég hef grun um að það sem gerst hafi sé að hæstv. forsrh. hafi verið skelfdur með einhverjum framreiknuðum tölum af samanlögðu tapi fyrri ára, sem alls ekki er víst að komi til frádráttar nokkurn tíma þó svo að reglum verði ekki breytt. Þetta er atriði sem ég held að við í efh.- og viðskn. hljótum að taka til gagngerrar athugunar. Sömuleiðis þær reglur sem hertar eru um sölu fyrirtækja og heimildir til að flytja þar tap á milli. Þetta eru atriði sem geta skipt afar miklu máli í þeirri baráttu sem er fram undan í atvinnulífinu hjá mörgum fyrirtækjum við að halda sér gangandi.
    Hins vegar getur vel verið að þau ákvæði, eins og þau eru þarna fram sett, þjóni því markmiði, sem manni á stundum finnst vera markmið ríkisstjórnarinnar, að flýta fyrir gjaldþrotum og flýta fyrir endurskipulagningu atvinnulífsins á þann hátt. Vel getur verið að það séu aðilar í okkar þjóðfélagi sem finnist það vera sér þóknanlegt. En ég held, hæstv. fjmrh., að við þurfum ekkert sérstaklega að hlaða undir þá aðila sem hugsanlega mundu fitna á hraðari gjaldþrotum en eru nú um stundir og þykir þó mörgum nóg að gert.
    Þá ætla ég að endurtaka spurningu sem ég lagði fyrir hæstv. fjmrh. í ræðu minni fyrr í kvöld. Hæstv. fjmrh. gat þess í svörum sínum að ég hefði í einhverjum tilfellum farið út fyrir það mál sem var til umræðu, ekki skal ég fortaka að svo kunni að vera. En sú spurning sem ég spurði hann beint að var þó í beinu sambandi við það mál sem hér er til umfjöllunar, þar sem viðkemur starfsgrundvelli atvinnulífsins, uppbyggingu veikburða hlutafjármarkaðar og hvaða áhrif þetta frv. gæti haft þar á. Spurning mín varðaði þá yfirlýsingu hæstv. forsrh. eftir næturfundinn fræga í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu þar sem hann sagði að einn liður í því að efnahagsaðgerðum núv. hæstv. ríkisstjórnar væri sá að strax eftir áramót yrði flutt frv. um það að breyta Búnaðarbankanum í hlutafélag og setja hlutabréf hins nýja hlutabréfabanka á almennan markað. Ég held að ég hafi þetta nokkurn veginn orðrétt eftir hæstv. forsrh. í þessu útvarpsviðtali.
    Ég þurfti að spyrja hæstv. viðskrh. margsinnis um þetta atriði áður en hann fékkst til að svara. Það virðist ætla að fara eins með hæstv. fjmrh. því að ég spyr: Hvaða efnahagslegum markmiðum á þetta að þjóna í stöðunni eins og hún er núna? Og ég spyr hæstv. fjmrh.: Hvaða áhrif mun þessi aðgerð hafa á veikburða hlutabréfamarkað sem á öðrum sviðum þarf á öllu því fjármagni að halda sem er á lausu til kaupa á hlutabréfum í vonandi arðvænlegum fyrirtækjum á næstu missirum? Er ekki um að ræða þær upphæðir að

það mundi gleypa stóran hluta af því fjármagni sem til ráðstöfunar er og hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar gagnvart uppbyggingu hlutabréfamarkaðar jafnvel þótt þessu væri dreift á ein tvö ár? Ég vona að ég hafi borið þessa spurningu það skýrt fram að hæstv. fjmrh. sjái sér fært að svara henni.
    Örfá orð varðandi sjómannaafsláttinn. Ég hélt satt best að segja að hæstv. fjmrh. hefði lært um útgerð og fiskvinnslu vestur á fjörðum á sínum tíma þegar hann var þar í afleysingum á sumrin, ég held bæði í landi og úti á sjó. Það var e.t.v. fyrir daga frystitogaranna en ég hélt að hæstv. fjmrh. hefði lært þar meira en svo að hann segi að sjómenn um borð í frystitogurum séu að vinna sömu störf, eins og hann sagði orðrétt áðan, og landverkafólk sem er við fiskvinnslu í landi. Ég er ekki sjómaður en ég þykist þó vita það að sjómenn um borð í frystitogurunum gangi í öll almenn störf, þeir séu jafnt á dekki og aftur í skutrennu eins og niður í lest við fiskvinnslu. ( Gripið fram í: Og vinnutíminn er hver?) Það hefur verið rakið af hv. 16. þm. Reykv., ef ég man rétt, hver vinnutíminn þarna er og hvert tímakaupið kann að vera ef þessu er deilt niður á dagvinnu, næturvinnu og helgidagavinnu. Þannig að ég vil nú biðja hæstv. fjmrh. að endurskoða aðeins þessi rök sín.
    Að lokum kom hæstv. fjmrh. nokkuð að því sem ég ræddi um framgang þingstarfa og þingmála og taldi að þetta væri ekkert öðruvísi, ef þeir bæru saman við dagsetningar fyrri ára. Ég tók það skýrt fram, hæstv. fjmrh., að slíkur samanburður á ekki rétt á sér, vegna þess að við ætluðum okkur að vinna á allt annan hátt eftir að búið var að breyta þingsköpum Alþingis og Alþingi komið í eina deild. Við ætluðum okkur að standa þannig að málum að nefndirnar hefðu miklu rýmri tíma og gætu unnið sjálfstæðar vegna þess að deildin er bara orðin ein. Ég vil líka benda á það að menn settu inn nýjar dagsetningar, settu það inn að 3. umr. fjárlaga skyldi fara fram ekki seinna en 15. des. Með tilliti til þessa væntanlega var ákveðið að þing hefði störf 1. okt. í staðinn fyrir 10. okt. áður. Ég vil einnig minna hæstv. fjmrh. á það að samkvæmt þingsköpum þá á efh.- og viðskn. að vera búin að fara yfir tekjuhlið fjárlaganna áður en 3. umr. fer fram. Hæstv. fjmrh. hlýtur að skilja að miðað við þann tíma sem þessi frv. voru lögð fram þá var það öldungis óframkvæmanlegt í vetur.
    Ég hygg einnig, hæstv. fjmrh., að það muni þurfa að leita nokkuð langt til baka til þess að finna hliðstæðu þess sem nú er, að 3. umr. fjárlaga er boðuð nk. fimmtudag. Við fréttum úr hv. fjárln. að allir endar eru lausir enn, það er ekkert komið frá ríkisstjórninni um forgang hennar fyrir 3. umr. Stórir þættir sem búið er að fresta, eins og sjúkrahúsmálin, eru í upplausn. Þrátt fyrir þessa stöðu er ekki einu sinni boðaður fundur í fjárln. í fyrramálið en samkvæmt þingsköpum þurfa brtt. að vera komnar fram í síðasta lagi á miðvikudaginn, hinn daginn, ef ekki á að þurfa að taka þær allar fyrir með afbrigðum þegar 3. umr. hefst loksins í raun.
    Ég held hæstv. fjmrh., að ég hafi rökstutt mál mitt nægjanlega og þurfi ekki að halda lengri ræðu þar um, að miðað við þær væntingar sem menn gerðu til nýrra þingskapa, miðað við þær nýju dagsetningar sem menn settu þar inn og miðað við stöðu mála eins og er núna í dag, 16. des., þá sé ekkert mikið þótt mönnum finnist að hér gangi hlutir ekki fram alveg eins og æskilegt hefði verið.