Tekjuskattur og eignarskattur

53. fundur
Þriðjudaginn 17. desember 1991, kl. 00:59:00 (2156)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Nú er klukkan eitt eftir miðnætti og það er rétt að spyrja hæstv. forseta: Er forsrh. í húsinu? ( Forseti: Já.) Þá óska ég eftir að forsrh. komi hér í salinn.
    Virðulegi forseti. Þessi umræða hefur staðið lengi dags og nú er klukkan eitt eftir miðnætti. Hér hefur nokkuð oft í umræðunni verið óskað eftir því að hæstv. forsrh. gerði þinginu nokkra grein fyrir hvernig ríkisstjórnin hyggst taka á þeim málum sem hún er að reyna að fá afgreidd í þinginu. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon lýsti því að vísu yfir áðan að hann væri búinn að reyna svo ítrekað að knýja á um að hæstv. forsrh. veitti slík svör að hann væri í reynd búinn að gefast upp við þá tilraun og það er ósköp skiljanlegt vegna þess að það er mjög erfitt fyrir menn sem vinna hér daglangt og stundum næturlangt í umræðum og í efnahagsnefnd þingsins að taka það starf alvarlega og sinna því vel þegar svona ruglandi, eins og raun ber vitni, er á ríkisstjórninni í málatilbúnaði.
    Það er rétt að hæstv. forsrh. hugleiði það að ríkisstjórnin eyddi hér í síðustu viku hátt í tveimur dögum af tíma þingsins í að láta ræða hugmyndir um breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga hvað snertir málefni fatlaðra, breytingar á Jöfnunarsjóði, og breytingar á landsútsvari. Við mörg hér á þingi tókum virkan þátt í þeirri umræðu, lögðum töluverða vinnu í það að reyna að kynna okkur þessar hugmyndir. Nokkrum dögum eftir að við höfum lagt þessa vinnu fram og tekið daga og jafnvel nætur í að ræða þessi mál þá kemur allt í einu tilkynning um að ríkisstjórnin sé hætt við þetta allt saman. Mikið hefði nú mátt spara af orku hér í þinginu og tíma og greiða jafnframt fyrir málum ef þetta hefði legið fyrir.
    Þegar við komum til þings síðdegis í dag fréttum við það, eins og hér hefur komið fram í umræðunni, að nú sé ríkisstjórnin komin með alveg nýja hugmynd. Hún sé sú að láta sveitarfélögin taka þátt í kostnaðinum við löggæslu og leggja á sérstakan nefskatt. Mér skildist þegar ég var fjmrh. að það væri algjört tabú hjá Alþfl. og Sjálfstfl. að leggja á nefskatt. Það voru a.m.k. fluttar yfir mér miklar messur hér í salnum af hálfu forustumanna Sjálfstfl. um það hvers konar ósvinna það væri að leggja á nefskatt af þessu tagi. En þá berast okkur þær fréttir úr efnahagsnefnd þingsins síðdegis að nú sé komin tillaga frá ríkisstjórninni um að leggja á breytilegan nefskatt eftir stærð sveitarfélaga. Menn reyna að taka þetta alvarlega og í kvöldmatartímanum er haldinn fundur í efnahagsnefnd og eins og hér hefur komið fram kom framkvæmdastjóri Sambands ísl. sveitarfélaga á þann fund og lýsti því yfir að þessi skattlagning sé lögbrot gagnvart sveitarfélögunum. Það var hin formlega yfirlýsing framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga og að þessari hugmynd verði mætt af fullri hörku af sveitarfélögunum. Er ætlunin að halda fast við þessa hugmynd eða eigum við líka að verja tíma okkar hér næstu sólarhringa við að ræða hugmynd sem fallið hefur verið frá?
    Í dag hefur miklum tíma verið varið í að ræða sjómannafrádráttinn. Er það virkilega ætlun ríkisstjórnarinnar að halda fast við þessa tillögu? Það væri mjög nauðsynlegt að fá það fram hið fyrsta svo menn viti hvað er hér í vændum.
    Hér á dagskrá þessa fundar, og sjálfsagt ætlun virðulegs forseta að taka til umræðu, eru síðan tvö önnur mál sem verulegur ágreiningur er um innan ríkisstjórnarliðsins. Annars vegar er frv. um skattlagningu innlánsstofnana sem okkur er ætlað að fara að ræða þegar klukkan fer að ganga tvö að nóttu. Ég hef heyrt það á skotspónum líka að innan ríkisstjórnarinnar sé orðin það mikil andstaða við þetta frv. að menn ætli að fara að breyta því. Það eigi t.d. að taka Lánasjóð sveitarfélaga út úr því. Það eigi að taka sjóði sem snerta landbúnaðinn út úr því. Er þetta rétt eða er ætlunin að við, sem erum á mælendaskrá um þetta frv., höldum áfram ræðum okkar á allt öðrum forsendum en ríkisstjórnin er núna að tala um málið? Eða á kannski yfir höfuð að láta þetta frv. bara liggja, eins og Sjálfstfl. vildi hér á þinginu 1988 og fékk því framgengt?
    Mér skilst svo að það sé ósk hæstv. fjmrh. að fá að mæla fyrir frv. um jöfnunargjaldið einhvern tíma á milli klukkan 3 og 4 í nótt, a.m.k. vilji hann ekki að þessum fundi sé slitið nema hann fái að flytja framsöguræðu sína fyrir jöfnunargjaldinu. Ég skil kannski vel að hann vilji flytja þá framsöguræðu um hánótt, því að núv. aðalfulltrúi Sjálfstfl. í efnahagsnefnd hefur lýst því yfir að þetta frv. sé lögbrot. Er það virkilega þannig að hæstv. ríkisstjórn ætli að láta strekkja í það hér í þinginu að láta lögfesta þetta jöfnunargjald þó að einn af aðalfulltrúum Sjálfstfl. í efnahagsnefndinni sé búinn að skrifa þinginu og lýsa því yfir að þetta frv. sé lögbrot? Er það, virðulegi forsrh., verklagið sem á að hafa hér, að ræða að nóttu til frv. sem við höfum fengið skriflegar yfirlýsingar frá trúnaðarmönnum Sjálfstfl. í efnahagsnefnd að sé lögbrot?
    Ég set fram þessar spurningar vegna þess að í sjálfu sér er það ekkert áhugamál okkar í stjórnarandstöðunni að ræða lon og don málefni sem ríkisstjórnin ætlar svo að hætta við. Við gerðum það í síðustu viku. Þá ræddum við lon og don málefni sem ríkisstjórnin er nú hætt við. Það er þess vegna mjög nauðsynlegt að hæstv. forsrh. fari mjög fljótlega að gera okkur grein fyrir hvað það er sem ríkisstjórnin ætlar að gera. Okkur hafa líka borist fréttir af því að í fjárln. hafi það komið í ljós í dag og í kvöld að hugmyndir um sameiningu sjúkrahúsa og aðrar aðgerðir, sem okkur var tilkynnt um í síðustu viku að væri stefna ríkisstjórnarinnar, séu í fullkomnu uppnámi. Þannig eru þau meginmál, sem vísað var til 3. umr. í heilbrigðismálunum, í uppnámi. Nú, okkur berast síðan í kvöldfréttum tilkynningar frá Háskólanum um það að þeir muni ekki taka við nemendum á næsta skólaári vegna þess að fjárveitingar séu ekki nægar.
    Hér var varpað fram í kvöld, hæstv. forsrh., af hálfu Kristínar Ástgeirsdóttur, og síðan tóku nokkrir þingmenn undir það sjónarmið m.a. hv. þm. Jóhannes Geir og Guðrún Helgadóttir en ég held að hæstv. forsrh. hafi ekki þá verið í salnum, að það væri mjög gagnlegt að fá á þessum sólarhring eða á morgun einhverja niðurstöðu í því hvað ríkisstjórnin ætlar sér og við séum ekki að þreyta þingið, starfsfólkið og þingmennina, á því að ræða hér fram eftir nóttu frv. sem ríkisstjórnin ætlar svo kannski ekki að knýja á um. Ég tel nauðsynlegt að fá svör við þessu hjá hæstv. forsrh. áður en þessari umræðu lýkur þannig að við vitum að einhverju leyti hug hans í þessum efnum m.a. vegna þess að forseti mun síðan ætla sér að taka á dagskrá tvö frv. um skattlagningu innlánsstofnana og jöfnunargjald sem bullandi ágreiningur er um innan stjórnarflokkanna sjálfra. Það væri mjög virðingarvert og mundi greiða hér fyrir framgangi mála og allri vinnu ef hæstv. forsrh. gæti að einhverju leyti upplýst hver viðhorf ríkisstjórnarinnar eru gagnvart þeim atriðum sem hér hefur verið velt upp.