Tekjuskattur og eignarskattur

53. fundur
Þriðjudaginn 17. desember 1991, kl. 01:12:00 (2157)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
     Herra forseti. Aðeins vegna ummæla og athugasemdar hv. 8. þm. Reykn. varðandi málatilbúnað af hálfu ríkisstjórnarinnar þá var því nú svarað hygg ég í fyrirspurn frá hv. 1. þm. Austurl., sem nú gekk í salinn, hér fyrir nokkru hvenær ríkisstjórnin fyrir sitt leyti mundi verða tilbúin með undirbúning fyrir 3. umr. fjárlaga. Það mun standa sem þá var sagt og hefur engin breyting orðið á því. En í sjálfu sér gefur það ekkert tilefni til sérstakra spurninga hér og nú.
    Varðandi önnur þau atriði sem þingmaðurinn nefndi til að mynda þau að ríkisstjórnin hefði varið allt að tveimur dögum, eins og ég hygg að hann orðaði það, til að ræða atriði eins og verkaskipti ríkis og sveitarfélaga, tillögur um að hlutur sveitarfélaga í þessum aðgerðum kæmi annars vegar með vaxandi hlutdeild þeirra í þjónustu verkefna vegna fatlaðra og hins vegar með því að fellt yrði niður landsútsvar af Áfengisverslun ríkisins. Til að ræða þetta hefðu menn varið allt að tveimur dögum, eins og þingmaðurinn orðaði það, en auðvitað fór því fjarri að þessi einstöku atriði hefðu tekið svo langan tíma. En ég minni á að það sem var sérstaklega rætt í því sambandi var ekki síst að nauðsynlegt væri að hafa samráð og viðræður við forráðamenn Sambands sveitarfélaga um þessi atriði því það hefði komið mjög hávær gagnrýni frá þeim aðilum á þessar hugmyndir.
    Ríkisstjórnin var í fyrsta lagi ákveðin í því að halda þessum hlut hjá sveitarfélögunum sem ákveðinn hafði verið og hún var í öðru lagi tilbúin til að ræða það við sveitarfélögin og forráðamenn þeirra hvort þessu mætti ná fram með hagfelldari og einfaldari hætti fyrir þau. Og ég vil fullyrða að þrátt fyrir að sveitarfélögin hafi vissulega haldið áfram að finna harkalega að því að svo stór upphæð væri tekin af þeirra fjárráðum til að vera hlutdeild í aðgerðum gagnvart þeim vanda sem við er að glíma þá fellur þeim þessi aðferðin mun betur heldur en sú hin fyrri sem ákveðin hafði verið. Í fyrri aðferðinni, eins og menn muna, var jafnframt gert ráð fyrir að 0,1% álag á útsvarsgrundvöll sveitarfélaga yrði lagt á og það fært sérstaklega inn í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga þannig að þessi breyting varðandi afléttingu landsútvars af Áfengisverslun ríkisins mundi ekki bitna á Jöfnunarsjóðnum. Sveitarfélögin töldu það mjög alvarlegt og alvarlegasta þáttinn í þessu inngripi ef ríkisstjórnin og þá löggjafinn færi fram með þeim hætti að skipta sér af tekjustofnum sveitarfélaganna. Þeim fannst það illskárri kostur að annarri aðferð yrði beitt og menn fundu þá niðurstöðu. Það kemur að vísu á óvart að jafn vel vakandi maður og hv. 8. þm. Reykn. skyldi ekki hafa heyrt af þessari breytingu fyrr en nú í dag því að það kom fram þegar eftir viðræður okkar við forráðamenn sveitarfélaga strax að loknum fundi með þeim snemma morguns fyrir helgi að þessi hugmynd væri í gangi og því kemur á óvart að jafn vel upplýstur og vakandi þingmaður eins og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, 8. þm. Reykn. skyldi ekki hafa heyrt þetta fyrr en í dag. Ég á hreinlega bágt með að trúa því þó ég efist ekki um að þingmaðurinn segi satt eins og hann jafnan gerir eins og kunnugt er.
    Í þessum efnum voru menn því að taka mið af sjálfsögðum óskum og áskorunum um að við þessa aðila yrði rætt og ég tel að þrátt fyrir að hv. 8. þm. Reykn. hafi sagt að talsmaður Sambands sveitarfélaga hafi komið fram formlegum mótmælum, eins og það var held ég orðað af honum, formlegri yfirlýsingu um að þessi aðferð væri lögbrot, þá hygg ég að hann sé naumast með því orðalagi, sé það rétt eftir haft, að tala fyrir hönd Sambands ísl. sveitarfélaga. Sveitarfélögin draga ekki í efa að Alþingi geti með lögum sett niður ákvörðun um þessa hlutdeild. Það verður ekki lögbrot í neinum skilningi nema sú ákvörðun brjóti í bága við stjórnarskrá. Sú ákvörðun þarf að brjóta í bága við stjórnarskrá til þess að lagasetning af Alþingis hálfu geti talist lögbrot og ég tel fráleitt að talsmenn sveitarfélaga, þó þeir séu vissulega ósáttir við þessa skerðingu á þeim fjármunum sem þeir hafa til ráðstöfunar, fullyrði að slíkt sé lögbrot.
    Varðandi aðra þætti, sem ræddir hafa verið og þingmaðurinn gerði sérstaklega að álitaefni og athugasemdarefni, þá spurðist hann fyrir um hvort það væri enn markmið ríkisstjórarinnar að halda sig við að 180--200 millj. kr. fengjust með því að draga úr sjómannaafslætti. Það kom það glöggt fram áðan í svari hæstv. fjmrh. að engin breyting verður á því en hins vegar hefur það komið fram að menn eru að ræða með hvaða hætti það megi gerast vegna þess að fram hefur komið það viðhorf frá talsmönnum sjómannasamtakanna að sú formúla sem átti að verða til grundvallar þessari skerðingu á sjómannaafslætti mundi leiða til miklu hærri tekna fyrir ríkið eða minnkandi útgjalda í stærri stíl fyrir ríkið en kynnt hafði verið og að þetta kæmi því óréttlátt niður. Ég held að það sé vaxandi skilningur á því, bæði meðal sjómanna og meðal þjóðarinnar, að það er ekki í þágu sjómanna að þessi afsláttur sé útfærður þannig í framkvæmdinni að hann kalli á og veki tortryggni. Ég held að sjómenn vilji heiðarlega meðferð í þessum málum eins og öðrum og geri ekki kröfu til þess að hafi framkvæmdin farið úr böndum að þessu leyti til þá megi það ekki lagfærast. Menn eru að leita leiða til að gera það með þeim hætti að sem ásættanlegast geti verið fyrir þessi samtök og fyrir okkur öll. En sú hugmynd er óbreytt, fyrst þingmaðurinn spurði, að þessi fjárhæð, þessi tala, standi eins og frv. gerir ráð fyrir.
    Þá fann þingmaðurinn að því að menn hugsuðu sér að mæla fyrir frv. um það að jöfnunargjald stæði áfram í hálft ár þar sem hagsmunaaðilar hefðu skrifað bréf út af því máli og reyndar vakti hann sérstaka athygli á því að bréfritarinn og viðtakandinn væri einn og sami maðurinn sem er ákveðið hagræði í, ekki er hægt að neita því. Fráleitt er að álykta sem svo að það leiði til þess að fyrir málinu verði ekki mælt og það er ekkert sem bendir til annars en að það sé góður meiri hluti fyrir því máli án atbeina og stuðnings hv. 8. þm. Reykn., sem ég býst við að muni vera fylgjandi málinu. Hann hafði a.m.k. sótt það fast áður að beita mætti aðferð af þessu tagi.
    Ég hygg þannig að þessi mál séu öll í mjög föstu formi og ég býst líka við að þessi málatilbúnaður af hálfu stjórnarandstöðunnar sé líka í allföstum skorðum, það er svo

sem ekki mikill munur á því hver stjórnarandstaðan er eftir því sem ég best fæ skilið. Ég hjó reyndar eftir einni setningu hjá ræðumanni sem ég ætla að nefna vegna þess að einn starfsmaður hér hafði sagt fyrir nokkrum dögum: Mér finnst þingmenn verða hvað væmnastir þegar þeir fara að tala um það að ekki megi hafa næturfundi til þess að þreyta nú ekki starfsfólk. Taktu eftir því að þetta verður einhvern tíma sagt og þá gerast þeir væmnastir, þingmenn í þessu húsi --- sagði þessi starfsmaður. Ég hafði ekki heyrt það fyrr en nú en ég heyrði þetta einmitt núna rétt í þessu.