Tekjuskattur og eignarskattur

53. fundur
Þriðjudaginn 17. desember 1991, kl. 01:33:00 (2163)

     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
     Herra forseti. Ég hjó eftir því í ræðu hæstv. forsrh. að hann taldi að Íslendingar og þingið væru aðeins bundnir af stjórnarskrá varðandi lagasetningu til höfuðs sveitarfélögunum. Svo er ekki lengur vegna þess að við samþykktum 17. des. 1990 Evrópusáttmálann um sjálfsstjórn sveitarfélaga. Þar segir í 9. gr. m.a. varðandi tekjustofna sveitarfélaga: ,,Sveitarstjórnum skulu tryggðir fullnægjandi tekjustofnar innan ramma hinnar opinberu fjármálastefnu og skal þeim frjálst að ráðstafa þeim að eigin vild innan valdssviðs síns.``
    Það fer ekki saman að skrifa undir svona samning, að sveitarfélögin hafi rétt til að ráðstafa fjármunum innan valdssviðs síns og ætla að koma svo með ríkiskrumluna ofan í vasann á þeim og taka peningana burtu með valdi. Þetta hlýtur hæstv. forsrh. að gera sér grein fyrir. Þess vegna skora ég á hæstv. ríkisstjórn að láta lögfræðinga meta það hvort þessar aðgerðir standast samkvæmt samningnum sem samþykktur var 17. des. 1990 og núv. félmrh. lagði áherslu á að yrði staðfestur hér á Alþingi Íslendinga.