Skattskylda innlánsstofnana

53. fundur
Þriðjudaginn 17. desember 1991, kl. 01:53:00 (2166)

     Ólafur Ragnar Grímsson (frh.) :
     Virðulegi forseti. Ég frestaði ræðu minni eftir u.þ.b. 10 mín. þegar málið var fyrst til umræðu vegna þess að ég óskaði eftir því, að hæstv. samgrh., hæstv. forsrh. og hv. þm. Geir Haarde væru viðstaddir a.m.k. þann þátt umræðunnar sem að mínu máli snýr. Nú tók ég eftir því að hæstv. landb.- og samgrh. hafði sama hátt á og síðast þegar hann komst að því að ég ætlaði að ræða þetta mál, þá tók hann strikið út úr salnum. --- Kemur hann nú aftur inn í salinn og veri hann velkominn.
    Ástæðan fyrir því, hæstv. forsrh., að ég óskaði eftir því að forsrh. yrði viðstaddur þessa umræðu var að leita svara við því hvenær Sjálfstfl. hefði ákveðið að styðja þetta frv. Nú vill svo til að það er alveg rétt sem hæstv. fjmrh. sagði þegar hann fjallaði um þetta frv. að á ferðinni væri gamall kunningi, svo ég noti óbreytt orð hæstv. fjmrh. Já, þetta er gamall kunningi sem hlaut þau örlög í desember 1988, hæstv. forsrh., að Sjálfstfl. neitaði að afgreiða fjárlögin í desember 1988 nema þetta frv. yrði dregið til baka. Slík var andstaða Sjálfstfl. við þessar hugmyndir að hann gerði það úrslitakröfu til að greiða fyrir afgreiðslu fjárlagafrv., að þáv. ríkisstjórn félli frá þessum áformum. Hæstv. fjmrh. orðaði það svo kurteislega í máli sínu að segja að það sem í frv. væri hefði orðið viðskila, svo ég noti hans óbreyttu orð, við það sem var síðan samþykkt á þinginu.
    Nú get ég upplýst það að þegar ég kom í fjmrn. í mikilli skyndingu í september

1988 með viku fyrirvara, þá blasti við að leggja fram fjárlög og tekjuöflunarfrv. með skemmri fyrirvara en gert hafði verið um langt árabil m.a. vegna þess að fjárlagavinnan hafði ekki hafist í fjmrn. allt sumarið 1988. Í skúffunum í fjmrn. var þetta frv. sem mér var tjáð að fyrirrennari minn, Jón Baldvin Hannibalsson, hefði reynt að fara með inn í þá ríkisstjórn sem hann var fjmrh. í en við lítinn orðstír og enn minni árangur. Ég segi þá sögu alveg eins og hún gekk fyrir sig, að ég tók það síðan að mér fyrir góð orð ýmissa embættismanna, að fara með þetta inn í þingið og skoða hvernig gengi að fá þetta lögfest. Ég varð hins vegar reynslunni ríkari og ég segi það við hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. að í ljósi þeirrar reynslu varð ég, þó vægt sé til orða tekið, ærið undrandi á því að sjá þetta hér á borðunum sem stjfrv. núv. hæstv. ríkisstjórnar nánast bara upp á punkt og prik, staf og kommu, það sama og ég skildi eftir í skúffum fjmrn. 1988 sem strandgóss frá desembermánuðinum 1988 og engum hafði dottið í hug að hreyfa í ráðuneytinu síðan. Ég dró þann lærdóm af reynslu minni að það væru slíkir erfiðleikar á því að festa í lög skattlagningu af þessu tagi, að það þyrfti ærið mikla viðbótarvinnu og viðbótarumræður áður en hægt væri að reyna það aftur. Ég lét ekki þá viðbótarvinnu og viðbótarumræður fara fram í minni tíð. Ég sé á þessu frv. að það a.m.k. bólar ekki mikið á þeirri viðbótarvinnu í frágangi þessa frv.
    Hv. þm. Geir Haarde sagði t.d. um þetta frv., þetta sama frv. og við erum að tala um, á þingi 22. des. 1988, með leyfi hæstv. forseta: ,,Ég vek hins vegar athygli á því að frv., eins og það var lagt fram, var illa undirbúið af hálfu fjmrn. og á ábyrgð fjmrh.`` --- til að koma nú sökinni alveg af embættismönnunum, sem er innskot mitt. ,,Í því voru ákvæði sem ekki var búið að kanna til hlítar hvort fengjust staðist``. ( Gripið fram í: Þetta er allt rétt). Allt rétt, segir hv. þm. Halldór Ásgrímsson. Mér leikur nú nokkur forvitni á að vita hvort formaður þingflokks Sjálfstfl. sem felldi þennan dóm í desember 1988 um nákvæmlega sama texta og hér liggur fyrir hefur fengið sönnur á því hvort þetta frv. stenst í dag og hver hefur þá komið með þær sönnur og hvar eru þær skrifaðar, því að ekki eru þær í greinargerð með þessu frv.
    Hv. þm. Geir Haarde sagði meira þennan sama dag, 22. des. 1988 um þetta frv. ( Gripið fram í: Var enn þá þinghald þá?) 22. des.? Já, að sjálfsögðu var þá þinghald, enda hafði fjárlagafrv. ekki komið fram fyrr en í lok októbermánaðar en ekki 1. okt. eins og nú. (Gripið fram í: Gekk ykkur svona illa?) Gekk ykkur svona illa, sagði hv. þm. Halldór Blöndal. Hann ætti að lesa þingskjölin frá hæstv. ráðherra Halldóri Blöndal frá haustþinginu 1988 til að leita skýringa á því af hverju okkur gekk svona illa.
    Hv. þm. Geir Haarde sagði 22. des. orðrétt að það hefði vafist fyrir færustu lögfræðingum að gera út um það hvaða sjóðir væru þess eðlis að unnt væri að skattleggja þá með sama hætti og aðrar lánastofnanir. ,,Það er hins vegar í samræmi við annan málatilbúning hæstv. ríkisstjórnar að hún skuli taka þarna inn ýmsa þá sjóði sem ríkið leggur til meiri part síns fjármagns en þannig kom þetta frv. fram í upphafi í hv. efri deild en, hefur nú sem betur fer verið breytt.`` --- Það er rétt. Afgangurinn, sem ekki var breytt, er nú kominn hingað á okkar borð alveg eins og hann var í desember 1988 og var þá dæmt að væri í samræmi við annan málatilbúnað þáv. ríkisstjórnar og þótti ekki par fínt. En nú er það allt í einu orðið stórgott stjórnarfrumvarp sem meira að segja er lögð svo mikil áhersla á að afgreiða að við erum pínd til þess að vera hér klukkan tvö um nótt ( ÖS: Búið að koma vitinu fyrir þá.), til þess að ræða þetta mál. Búið að koma vitinu fyrir þá, segir hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Það vita nú allir að hann hefur ekkert vit á þessu máli, þannig að það er einhvers staðar annars staðar, vitið í Alþfl. sem hefur verið reitt yfir til Sjálfstfl. í pokum í þessu máli. Ég get fullyrt að það er ekki frá hæstv. iðnrh. Jóni Sigurðssyni. (Gripið fram í.) Þá hefst leitin, segir hv. þm. Össur Skarphéðinsson og mun nú verja nóttinni í það að leita hvaða vitmaður í Alþfl. hefur komið þessu í gegn.
    En mér er þetta ekkert gamanmál. Menn halda það kannski í salnum, en svo er ekki, vegna þess, eins og ég sagði áðan, að 1988 tók ég þátt í þeirri tilraun að fara með þetta í gegnum þingið og þá komu fram ýmis málefnaleg rök og athugasemdir við meðferð málsins. Ég hef ekki heyrt nein svör frá hæstv. fjmrh. um það hvers vegna Sjálfstfl. hefur skipt um skoðun. Ég ætla að vona að hæstv. fjmrh. fyrirgefi mér þó að ég segi að hann tók bara gömlu ræðuna mína og flutti hana hér. (Gripið fram í.) Og get gert það aftur, segir hæstv. fjmrh., en sá er munurinn á mér og honum að ég flutti hana ekki aftur 1988.
    Hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson lýsti þessum gangi máls 22. des. á þann veg, með leyfi hæstv. forseta: ,,Þetta var orðin hálfgerð kómedía á pörtum, en að vísu hitnaði í gærkvöldi og fram eftir nóttu alla vega svolítið í sumum út af þessu og þar á meðal mér . . . ``
    Ég vil spyrja hv. þm. Eyjólf Konráð Jónsson: Er þetta ekki lengur kómedía? Er það kannski orðið tragíkómískt að í þessu máli skuli Sjálfstfl. koma með þetta inn?
    Hv. þáv. þm. Halldór Blöndal, núv. samgrh., var harður í andstöðunni gegn þessu frv. á sínum tíma, flutti lengstu ræðurnar og sótti harðast að frv. Þá varði hann löngu máli í Ed., t.d. 7. des., til að rökstyðja að ekki komi til greina að Framleiðnisjóður landbúnaðarins geti verið liður í slíkri skattlagningu. Hann tekur einnig Orkusjóð, Hafnabótasjóð og fjölmargt annað sem hann rekur mjög rækilega að geti ekki fallið undir eðlilega skattlagningu af þessu tagi.
    Nú vona ég að þessir hv. þm. og ráðherrar Sjálfstfl. fyrirgefi mér þó að ég spyrji við þessa umræðu og skal ekki taka langan tíma til þess: Hver eru rökin fyrir því að Sjálfstfl. hefur núna kúvent svona gjörsamlega í þessu máli? Það er auðvitað ekki boðlegt í svona alvarlegu máli eins og skattlagningu fjármálastofnana að koma hér og segja: Af því bara. Eða fara í einhvern gamanleik um það að hæstv. núv. fjmrh. skemmti sér við að flytja gömlu ræðurnar mínar aftur á Alþingi. Við erum að tala um veigamikla þætti í fjármálakerfi landsins. Mín niðurstaða var sú að reyna þetta ekki aftur nema málið hefði hlotið miklu veigameiri vinnu af hálfu fjmrn. og annarra aðila sem málið snertir. Sú vinna hefur ekki farið fram, sýnist mér. Ég sé engin merki hennar í þessu frv. Ekki heldur í framsöguræðu hæstv. fjmrh. Er það virkilega ætlunin að taka á þessu máli með svo óvönduðum hætti að húrra því í gegn, knýja þingið til þess að samþykkja það án þess að fá nokkuð í hendur um að nú séu til örugg svör við því sem knúið var á um í desember 1988 og var ekki hægt að svara þá?
    Ég ætla ekki að halda því fram að Sjálfstfl. hafi ekki meint orð af því sem hann sagði í des. 1988. Ég ætla ekki að gera það vegna þess að ég sannfærðist um það þegar ég var búinn að hlusta á þá og fara í gegnum þessa umræðu í desember 1988 að þeir höfðu töluvert til síns máls. Niðurstaðan í Ed. var, eins og ég veit að hæstv. núv. umhvrh. man mjög rækilega, að gerð var sú málamiðlun að taka hluta út úr hinu upphaflega frv., sem allir gátu sæst á, en láta hitt liggja og það hefur legið síðan.
    Ég vil einnig beina því til hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. að, eins og fram hefur komið í þessum umræðum, ætlunin er að fella niður ríkisábyrgð á sumum af þessum sjóðum sem hér á að skattleggja. Látum það vera, menn geta haft þá afstöðu í sjálfu sér. Þá er tvennt sem verður að svara við meðferð málsins. Það fyrra er: Er það rétt sem sumir halda fram að ef ríkisábyrgðin er tekin af þeim sjóðum, sem hér eru taldir upp, gjaldfalli verulegur hluti þeirra lána sem sjóðirnir hafa tekið í heild sinni? Ástæðan er sú að í lántökuskilmálum sjóðanna hafi ríkisábyrgðin verið svo veigamikill þáttur að lánveitendurnir áskilji sér rétt til þess að gjaldfella lánin í heild sinni á sjóðina og þar með á íslenska

ríkið ef ríkisábyrgðin er tekin af. Ef það yrði, yrði harla lítið orðið eftir í mörgum af þessum sjóðum til að skattleggja.
    Hitt atriðið er: Hvaða áhrif hefur það á lántökukostnað íslenska ríkisins erlendis á alþjóðlegum mörkuðum ef farið er inn á þá braut að taka ríkisábyrgðina af þessum sjóðum og skattleggja þá með þessum hætti? Hvort tveggja í senn á sama árinu á sama þinginu. Er hugsanlegt, sem sumir halda fram, að þar með geti lánskjör íslenska ríkisins á alþjóðlegum mörkuðum versnað vegna þess að lánshæfnismat íslenska ríkisins verði neikvæðara að dómi þeirra alþjóðlegu fyrirtækja sem sérhæfa sig í því og hafa veruleg áhrif á hinum alþjóðlega markaði?
    Mér finnst eiginlega ekki hægt að fara í gegnum 1. umr. um þetta alvarlega mál án þess að fá svör við þessum atriðum. Það er ástæðan fyrir því, virðulegi forseti, að ég frestaði ræðu minni á sínum tíma og óskaði eftir því að hæstv. forsrh. og hæstv. samgrh. og einnig hæstv. fjmrh. veittu svör við því sem hér hefur verið spurt um. Ég ætla í sjálfu sér ekki að óska eftir því að hv. þm. Geir Haarde og Eyjólfur Konráð Jónsson taki þátt í umræðunnni þó að mér þætti vænt um að fá að heyra hvort þeir hafa skipt um skoðun eða hvort þeir eru enn á sömu skoðun, sérstaklega vegna þess að ég veit að sjálfsagt er sú skipan eins í þessari ríkisstjórn og hinum fyrri að formaður þingflokksins gefur formlega grænt ljós á það að frumvörpin séu lögð fram sem stjórnarfrumvörp á Alþingi, a.m.k. hefur það verið siðvenja í þeim ríkisstjórnum sem ég þekki til að ekkert stjórnarfrumvarp er lagt fram nema formenn þingflokkanna hafi fyrir hönd þingflokkanna gefið grænt ljós á það.
    Ég vona, virðulegi forseti, þó að hér sé nótt, að þessir hæstv. ráðherrar og jafnvel hv. þingmenn taki að nokkru þátt í þessari umræðu svo við getum betur áttað okkur á því hvað á að gera við það frv. sem við erum með í höndum og á sér þá skrautlegu sögu sem ég hef vikið hér að.