Skattskylda innlánsstofnana

53. fundur
Þriðjudaginn 17. desember 1991, kl. 02:19:00 (2170)

     Halldór Ásgrímsson :
     Herra forseti. Hér hefur verið upplýst að ákveðið hafi verið að taka einn sjóð út úr þessari upptalningu, þ.e. Lánasjóð ísl. sveitarfélaga. Síðan sé verið að vinna að því að aðgreina tiltekinn hluta af starfsemi ákveðinna sjóða frá þannig að hægt verði að aðgreina hana frá annarri starfsemi sjóðanna.
    Ég ætla ekki að spá fyrir um það hvernig það gengur. En hins vegar er alveg ljóst að þegar um er að ræða einn sjóð með sameiginlegt skrifstofuhald og sameiginlega starfsemi, þá er það ekki einfalt verk að ætla sér að skilgreina að tiltekinn hluti starfseminnar sé skattskyldur en tiltekinn hluti sé skattfrjáls. Það er nokkur nýlunda í íslenskri skattalöggjöf, svo ekki sé meira sagt, og væri fróðlegt að vita frá hæstv. fjmrh. hvað þessari vinnu miði. ( Gripið fram í: Það eru mörg dæmi um þetta) Eru mörg dæmi um þetta? ( Gripið fram í: T.d. í virðisaukaskattinum) Í virðisaukaskatti. Virðisaukaskattur er bara allt annað en tekjuskattur, hæstv. fjmrh. Í virðisaukaskatti er verið að tala um að aðgreina einhverjar tilteknar vörur eins og bækur og annað slíkt og gengur ekki alltaf nægilega vel. Ég gæti trúað því að menn vildu koma ýmislegu undir hugtakið bækur, jafnvel þótt það séu ekki mjög fagurfræðilegar bókmenntir. Mönnum mundi kannske detta í hug sumum hverjum að koma svona pappírum, eins og þessum illa unnu frumvörpum, sem hér eru að koma jafnvel þó að margir fjmrh. hafi komið þar að, og kalla þetta allt í einu bækur, jafnvel bókaflokk, framhaldssögur, framhaldsbókmenntir. En ekki eru þær að sama skapi skemmtilegar.
    Ég tek það þá svo að hæstv. fjmrh. sé í reynd að segja að hann reikni ekki með því að þetta frv. verði afgreitt fyrir jól. Ég held að honum geti ekki verið alvara með því. Hann er að segja að nefndin hafi góðan tíma til þess að fara í það og ég tel að hæstv. fjmrh. sé þá að segja að við getum tekið okkur allgóðan tíma í það og þess vegna liggi ekkert á. Ég veit ekki, satt best að segja, af hverju fjmrh. er að standa fyrir því að tala efnislega um þetta mál klukkan hálf þrjú að nóttu. Ekki nema hann hafi svo góðan tíma um þessar mundir og sé svo vel á sig kominn að hann hafi lítið annað að gera. Það er náttúrlega alveg ljóst að fara þarf í allverulega vinnu í þessu máli. Það þarf að tala við alla þessa sjóði, kalla þá alla fyrir, vinna þessa vinnu sem hæstv. fjmrh. var að tala um, sem ég held að sé ekki einföld. Þar að auki eru hér sjóðir eins og Orkusjóður, Hafnabótasjóður, Framleiðnisjóður landbúnaðarins, sem hæstv. núv. landb.- og samgrh. hefur áður fært gild rök fyrir að eigi náttúrlega ekkert heima þarna. Ég á ekki von á því að hæstv. núv. landb.- og samgrh. hafi skipt um skoðun í þeim efnum því að hann hefur náttúrlega séð það þá, sem var rétt hjá honum, að þetta gengur ekki upp og auðvitað hefur engin breyting orðið þar á. Ég vildi því gjarnan biðja hæstv. fjmrh. um að segja okkur það hér á eftir að þetta sé eitt af þeim málum sem ekki þurfi að leggja mikla vinnu í fyrir jólin. Við getum tekið okkur einhvern tíma í það strax í janúar. Ég skil mjög vel að þetta mál má ekki dragast um of. Það má ekki ríkja mikil óvissa um starfsemi sjóðanna en hún er líka mjög slæm þessi aðferð núv. ríkisstjórnar og stjórnarmeirihlutans að tilkynna um breytingar. Hæstv. núv. fjmrh. tilkynnir á morgunverðarfundi að það standi til að selja Búnaðarbankann fyrir lítið. Síðan kemur meiri hluti efh.- og viðskn. og tilkynnir það í nál. að þessi breyting á starfsemi sjóðanna sé undirbúningur þess að gera þá að hlutafélögum. Ég hef spurt hæstv. fjmrh. hvort það beri að taka alvarlega að breyta eigi öllum þessum sjóðum í hlutafélög. Hefur meiri hluti efh.- og viðskn. heimild til þess að tilkynna það í nál.? Hvers konar vinnubrögð eru þetta? Þetta eru mikilvægir sjóðir sem þjóna miklu hlutverki hér í landinu og það á ekki að fjalla um þá af einhverri léttúð sem mér finnst vera gert með sífelldum tilkynningum um stöðu þessara mikilvægu sjóða. Ég vil endurtaka að ég er ekki mótfallinn því að mál þessara sjóða séu tekin til endurskoðunar. Ég ætla ekki að fjölyrða hvort eigi að breyta þeim í hlutafélög. Það er mjög flókið mál, eins og ég veit að núv. hæstv. fjmrh. veit, enda hefur hann sagt það og þekkir þetta mál mjög vel. Það á ekki að vera að tilkynna um breytingar á stöðu þessara sjóða fyrr en niðurstaða er komin í málinu og undirbúningi þannig háttað að hægt sé að bera hana fram, en ekki með því formi eins og hér er gert. Ég vildi fyrst og fremst fá það staðfest hjá hæstv. fjmrh. hvort það sé ekki rétt skilið að við munum þá fara í þetta mál þegar þing kemur saman í janúar og þurfum ekki að eyða vinnu í það núna þessa fáu daga fram að jólum. Ég sé ekki að efh.- og viðskn. hafi nokkurt ráðrúm til þess.