Jöfnunargjald

53. fundur
Þriðjudaginn 17. desember 1991, kl. 02:35:00 (2173)

     Steingrímur J. Sigfússon (um þingsköp) :
     Ég hlýt að spyrja, hæstv. forseti, hvað vakir fyrir mönnum að fara að hefja umræðu um nýtt og stórt mál á þessum tíma nætur. Ég sé ekki tilgang með því nema menn ætli sér það af í verkum að ljúka umræðum um þetta mál. Ég sé ekki hvaða tilgangi það þjónar að hefja umræðuna til þess eins að slíta hana sundur. Það liggur fyrir að efh.- og viðskn., sem væntanlega verður ætlað að taka við þessu frv., hefur meira en nóg af verkefnum á fundum sínum í fyrramálið og þess vegna á morgun og allan þann sólarhring. Í fljótu bragði fæ ég ekki séð hvað upp úr því hefst að halda mönnum hér lengur við umræður annað en það eitt að með því slitnar þessi umræða í sundur. Við höfum þegar mátt sæta því og reyndar fallist á það til að greiða fyrir hlutum og liðka fyrir hæstv. fjmrh. í þó nokkrum tilvikum að hann hafi þennan hátt á. En ég kem ómögulega auga á skynsamleg rök sem mæla með því að hafa það svona við þessar aðstæður.
    Menn sögðu hér og m.a. hæstv. forsrh. að þingmenn gerðust væmnir og --- ég man ekki hvaða orð hann viðhafði en það var alla vega eitthvað tengt væmni og það er verið að vorkenna starfsfólki þingsins. Það er allt í lagi að sleppa því þá. Ég ætla ósköp einfaldlega að benda á við sem erum í efh.- og viðskn. erum búin að vera að stanslaust, án nokkurs hlés, síðan kl. 8.15 í morgun. Bæði sleppt hádegismat og kvöldmat, verið á stanslausum nefndarfundum. Það hefur ekki fallið mínúta úr af þaulskipulögðum fundahöldum allan þennan tíma fyrir okkur. Við eigum að sjálfsögðu að byrja kl. 8.15 í fyrramálið og ég geri ráð fyrir því að morgundagurinn verði með svipuðum hætti fram um miðnætti eða guð má vita hvað. Ég spyr þess vegna: Er ekki mál að linni í bili og hæstv. fjmrh. bíði einfaldlega með sína framsöguræðu þangað til við getum farið í þessa umræðu af alvöru? Hvað vinnst með því að slíta hana svona sundur? Mér hefur sjálfum ofboðið á undanförnum dögum hversu oft það hefur gerst að umræður hafa verið margtættar í sundur. Jafnvel fáheyrðir hlutir hafa gerst í þeim efnum eins og þegar menn hafa verið látnir fresta

ræðu sinni í miðjum klíðum og aðrir þingmenn teknir fram fyrir sem er auðvitað mjög fátítt. Ég mundi satt best að segja ekki fordæmi fyrir slíku fyrr en ég sá að það gerðist í þessum umræðum. Því spyr ég í mikilli alvöru hvort ekki sé hægt að ná lendingu og hætta þessu og fara að sofa.