Um dagskrá

54. fundur
Þriðjudaginn 17. desember 1991, kl. 13:09:00 (2178)

     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
     Varðandi það að þingflokksformenn hafa ekki komið saman á fund með forseta svo sem hafði verið áætlað klukkan hálfellefu er skýringin einföld. Það var ekki hægt að kalla þingflokksformenn á fund vegna þess að sumir þeirra voru uppteknir á nefndafundum og því varð að ráði að boða þennan fund jafnskjótt og hægt væri eftir að þingfundur væri hafinn og ræða um mál sem kæmu á dagskrá. Þess vegna er fundurinn ekki boðaður fyrr en hálftvö.
    Forseti taldi að það gæti varla komið að sök þótt eitthvað af þessum málum, sem hér hafa nú verið afgreidd, og eins það að koma málum til nefnda og koma málum til 3. umr., mundi ekki koma að sök þar sem hér er einungis um samkomulagsmál að ræða. En ef gerðar eru strangar athugasemdir um að þessi háttur verði hafður á, og að forseti geti ekki ráðið því að taka þessi mál fyrir sem hér bíða afgreiðslu, þá mun forseti að sjálfsögðu endurskoða það.