Jöfnunargjald

54. fundur
Þriðjudaginn 17. desember 1991, kl. 14:08:00 (2184)

     Kristín Einarsdóttir :
     Virðulegi forseti. Við erum að ræða hér frv. til laga um breytingu á lögum nr. 78/1980, um jöfnunargjald. Ég get tekið undir það með þeim sem hér hafa talað á undan mér að þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið hérna undanfarna daga eru alveg dæmalaus og þarf kannski ekki að hafa mörg orð um það. Ég trúi því ekki að ríkisstjórnin geti verið stolt af þeim vinnubrögðum sem hún hefur viðhaft hér í þinginu. En ég ætla ekki að nota ræðutíma minn til að ræða það frekar, það dæmir sig sjálft.
    En ef horft er á þetta frv. um jöfnunargjald þá get ég út af fyrir sig alveg fallist á að lagt sé gjald á innfluttar vörur til þess að reyna að hafa jákvæð áhrif á innlenda framleiðslu, styðja innlenda framleiðslu. En við verðum að gera okkur grein fyrir því að við erum bundin ákveðnum samningum, alþjóðasamningum, og í þessu tilviki þá erum við í fríverslunarsamtökum. Við erum í EFTA og verðum að gangast undir þær skuldbindingar sem í því felst. Ég tel óþarfa að vera að rekja af hverju jöfnunargjaldið var sett á á sínum tíma. En það hlýtur öllum að vera ljóst að þær aðstæður sem þá voru eru ekki lengur til staðar.
    Í grg. með þessu frv., og reyndar las hæstv. fjmrh. það upp, segir á bls. 2, með leyfi forseta:
    ,,Þó eru sterk rök fyrir því að jöfnunargjald verði ekki afnumið í upphafi næsta árs.``
    Ég hef ekki heyrt þau sterku rök enn þá þannig að ég vildi gjarnan fá að vita hvaða sterku rök það eru sem réttlæta það að hafa áfram jöfnunargjald, ef rétt er, sem margoft hefur komið hér fram, að við séum skuldbundin vegna samninganna við EFTA til þess að fella þetta gjald niður. Ég er búin að hlusta á margar ræður hér undanfarin ár, m.a. úr munni hæstv. fjmrh., um það að þetta sé hrein lögleysa.
    Það kemur einnig fram í bréfi sem undirritað er af Vilhjálmi Egilssyni, framkvæmdastjóra Verslunarráðs, og hefur verið lesið upp hér að talið er að þetta samrýmist á engan hátt fríverslunarsamningum og muni ekki standast gagnvart dómstólum. Mér þykja það mjög alvarlegar fréttir ef Verslunarráðið ætlar að veita félögum sínum aðstoð við að leita réttar síns fyrir dómstólum og við verðum þá að gera okkur grein fyrir því hvað það mundi þýða. Það er talað um að afla ríkissjóði ákveðinna tekna með þessu 3% gjaldi en væru þær tekjur ekki fljótar að fara ef lögsókn mundi gera ríkissjóð skaðabótaskyldan gagnvart þeim aðilum sem hafa orðið að greiða þetta gjald. Það er þannig alls ekkert einfalt mál að setja svona gjald á. Ég get þess vegna ómögulega fallist á að þetta gjald sé sett á án þess að þetta verði athugað mjög gaumgæfilega.
    Mér finnst mjög einkennilegt ef ríkisstjórnin heldur að þegar hún er búin að gangast undir alþjóðasamninga þá þurfi hún ekki að standa við það sem skrifað er undir. Það kemur mér ekki sérlega á óvart eftir að vera búin að fylgjast með samningum um Evrópskt efnahagssvæði nú um nokkurt skeið því að þar virðist sem hæstv. utanrrh., og væntanlega ríkisstjórnin öll, telji að hægt sé að gera ákveðna samninga og síðan getum við eingöngu tínt rúsínurnar úr kökunni og sagt að við þurfum ekkert að gangast undir þær kvaðir sem í samningum felast og allar þær skuldbindingar sem við tökum á okkur getum við breytt með innlendri löggjöf. Við höfum heyrt það margoft að þó að mjög skýrt og greinilega segi í samningum um Evrópskt efnahagssvæði að ekki megi mismuna eftir þjóðerni

á svæðinu þá telur hæstv. utanrrh. ekkert því til fyrirstöðu að setja bara lög um hvað eina sem honum dettur í hug sem afnemi þær skyldur sem við tökum á okkur. Þetta stenst auðvitað engan veginn og það er það sama sem gildir um þetta. Ef við erum búin að taka þá ákvörðun að vera aðilar að EFTA, eins og við gerðum á sínum tíma, og gangast undir þær skyldur sem í því felst þá verðum við auðvitað að standa við þær.
    Ég tek mark á því sem kemur fram í áliti Verslunarráðs Íslands og tel að hv. efh.- og viðskn. þurfi að kanna mjög vel og vandlega hvað þarna er á ferðinni. Ég kalla einnig eftir viðbrögðum hæstv. utanrrh. í þessu máli. Hvað meinar hann með því að segja á einum tíma að ekki megi setja á þetta gjald og skyndilega að það sé allt í lagi að setja það á? Þetta stenst engan veginn. Og ég kalla líka eftir skýringum á því sem fram kemur í athugasemdum með frv. á bls. 2 þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Ekki er með nákvæmni unnt að segja til um hvenær uppsöfnunaráhrifa af söluskatti hættir að gæta og ákvörðun um lokadag jöfnunargjalds getur því ekki verið einhlít.``
    Hvernig var þá fundið út að 1. júlí 1992 væri einmitt rétti tíminn? Var ekki alveg eins hægt að segja 31. des. 1992? Ef þetta er á annað borð löglegt því ekki þá að hafa skattinn áfram út árið vegna þess að mér skilst að ekki veiti ríkisstjórninni af að fá einhverjar tekjur því að að fyrirséð er að nokkur þeirra tekjuöflunarfrv. sem hún leggur fyrir eiga a.m.k. ekki auðvelda leið í gegnum þingið. Þetta finnst mér verða að koma fram við þessa umræðu áður en málið fer til efh.- og viðskn.