Jöfnunargjald

54. fundur
Þriðjudaginn 17. desember 1991, kl. 14:16:00 (2185)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
     Virðulegi forseti. Ég skil út af fyrir sig ákaflega vel hvers vegna hv. 8. þm. Reykn. er innan brjósts eins og auðheyrt var af ræðu hans hér áðan. Ég held að honum líði ósköp svipað og þeim skemmtikrafti sem horfir allt í einu á annan mann sem er búinn að stela rullunni hans í beinni útsendingu. Það sem hv. þm. var að segja var einfaldlega þetta: Þetta er mitt mál. Þetta er mitt jöfnunargjald, þetta er mín rulla, þetta er mitt númer. Látið þið þetta vera.
    Það eina sem vantaði í þessa kómedíu var að sjálfsögðu að hv. þm. lyki ræðu sinni með því að lýsa því yfir að hann styddi málið að sjálfsögðu, eindregið og afdráttarlaust, enda væri þetta hans mál. Hann getur hneykslast á því sem hann á að fagna. Hann á auðvitað að fagna því að eftirmaður hans í embætti, sem hafði athugasemdir við það í stjórnarandstöðu, skuli taka upp mál fyrirrennara síns og gera það með svo myndarlegum hætti að það má segja að þetta sé frv. hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar. Það er ekkert í þessu frv. sem er ekki nánast skrifað eigin hendi af hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni. Athugasemdirnar eru skrifaðar frá orði til orðs af hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni.
    Rökin fyrir þessu máli eru einfaldlega þau hin sömu og hv. þm. notaði sem fjmrh., uppsöfnunaráhrifin, þetta er skrifað frá orði til orðs af hæstv. fyrrv. fjmrh. Það vantar bara eitt, þ.e. að fagna því að sjálfsögðu einlæglega að aðrir menn, sem ekki höfðu skilning á þessum rökum ráðherrans í tíð fyrri ríkisstjórnar, eru nú snúnir á band með honum --- eða hvað?
    Það eru tveir hv. þm. hér inni sem enginn vafi getur leikið á að styðja þetta mál og þeir eru báðir í núv. stjórnarandstöðu. Það eru hv. 8. þm. Reykn. og hv. 1. þm. Austurl því að í tíð fyrri ríkisstjórnar var það hverju orði sannara, sem fram kom af máli hv. 8. þm. Reykn., að þeir voru einlægir, ódeigir og óhvikulir baráttumenn fyrir því að viðhalda jöfnunargjaldi. Nú er niðurstaðan sú að það er framlengt um hálft ár, með þeirra rökum, með þeirra eigin texta, með þeirra eigin orðalagi og það er ekkert sem vantar. Og hvers vegna fagna mennirnir ekki? Hvar er rökvísin, hv. 8. þm. Reykn.?
    Það er hins vegar einn maður í stjórnarliðinu sem alveg afdráttarlaust hefur enga ástæðu til að fagna þessum málalokum, enga ástæðu til þess að fagna þeim þótt hann verði að bíta í það súra epli að una þeim. Það er t.d. sá sem hér stendur. Og hv. 8. þm. Reykn. spurði: Hvers vegna, hvernig stendur á því að núv. utanrrh. og sá sem var utanrrh. í fyrrv.

ríkisstjórn unir því, lætur þetta yfir sig ganga, úr því hann hafði verið að beita sér gegn þessum tillögum hv. 8. þm. Reykn. í ríkisstjórn?
    Já hvers vegna, hv. 8. þm. Reykn., hvers vegna? Kannast hv. þm. við að til sé í íslensku máli orðatiltækið að stundum brjóti nauðsyn lög? Veit hv. 8. þm. Reykn. hvað hefur gerst í íslensku þjóðfélagi frá því að stjórnarskiptin urðu? Hefur það farið fram hjá hv. þm. að við höfum nú orðið að taka á okkur afleiðingar af fimmtungs aflasamdrætti? Veit hv. þm. hvaða áhrif það hefur á afkomu ríkissjóðs? Veit hv. þm. hvaða áhrif það hefur á samdrátt íslenskra þjóðartekna og þjóðarframleiðslu? Hefur það farið fram hjá hv. 8. þm. Reykn. að við höfum orðið að fresta áformum okkar um að byggja álver? Veit hv. þm. hvað það þýðir fyrir atvinnustig í landinu á næsta ári? Veit hv. þm. hvað það þýðir þegar fram líða stundir í tekjufalli fyrir þetta þjóðfélag?
    Hefur það farið fram hjá hv. þm., eða er honum það kannski bara fagnaðarefni, að það er því sem næst búið að rifta samningum um EES sem var eina ljósglætan í þessu myrkri þar sem vonir okkar um ný tækifæri í undirstöðuatvinnuvegum byggðust á? Hefur það farið fram hjá hv. þm.?
    Veit hv. þm. að nýjasta þjóðhagsspá kynnir það í fyrsta sinn í gervallri sögu lýðveldisáranna að nú rétt fyrir 3. umr. fjárlaga gerist það að við endurmat á tekjuspá er spáin lækkandi í fyrsta sinn á lýðveldistímanum? Veit hv. þm. að þetta þjóðfélag hefur orðið fyrir slíkum áföllum á þessu tæpa hálfa ári sem liðið er frá stjórnarskiptum að það má reikna í tugum milljarða?
    Og svo spyr hv. þm.: Hvernig á að stjórna þessu landi í andstöðu við allt og alla? Þeir hafa uppi stóru orðin sín. Þeir vitna í atvinnurekendur sem segja að þetta sé aðför að atvinnulífinu í landinu. Var þetta sama skattafrv., sem er baráttumál hæstv. fyrrv. fjmrh., borið fram í fyrrv. ríkisstjórn, einhver aðför að atvinnulífinu, hv. þm.? --- Nei, það var það ekki. ( ÓRG: Það var ekki þetta mál sem var aðför að Alþingi. Þú bara veist ekki hvað það er sem ég er að segja þér.)
    Ætli það sé svo að talsmenn atvinnulífsins, hv. 8. þm. Reykn., mundu segja þegar þessi ríkisstjórn kemur fram með frv. sitt um skattlagningu á fjármagnstekjur að það sé aðför að atvinnulífinu í landinu? Mundu samtök atvinnurekenda segja það þegar flutt er mál, að vísu ekki afturvirkt, boðað með árs fyrirvara um að við ætlum að hætta því, eina þjóðfélagið á Vesturlöndum, að arður, hvort heldur er inni í fyrirtækjum eða útgreiddum, skuli vera tvískattfrjáls? Eina þjóðfélagið á Vesturlöndum. Ætlar hv. þm., form. Alþb., að taka undir slík sjónarmið? Ætlar hann að segja að stjórnvöld á Íslandi eigi tvímælalaust að beygja sig fyrir slíkum rökum? Hvers vegna fagnar hann ekki sinnaskiptunum, ef hann telur þetta vera sinnaskipti hjá Sjálfstfl.? Hvers konar rökvísi er þetta eiginlega?
    Það er með öðrum orðum einfalt svar við spurningu hv. þm. um það hvers vegna sá sem hér stendur hefur fallist á það, að vísu fremur nauðugur en viljugur, að framlengja þetta gjald. Svarið er að á þessu sl. tæpu hálfa ári hefur þjóðfélagið orðið fyrir þvílíkum áföllum að okkur er nauðsynlegt að gera það. Við verðum að beygja okkur fyrir þeirri nauðsyn vegna þess að það er ein höfuðnauðsyn við afgreiðslu fjárlaga nú. Og það svarar spurningu hv. þm. um það hvernig á að stjórna þessu landi. Sú höfuðnauðsyn er að draga úr þeirri sjálfvirkni útgjalda í ríkisbúskapnum og þeirri niðurstöðu í ríkisbúskapnum sem stefnir í 10 milljarða halla á yfirstandandi ári. Það verður að skera þann halla niður. Það verður að skila fjárlagafrv. sem er innan þeirra marka að því er varðar halla að það reynist vera trúverðugt í þessu þjóðfélagi. Það verður til þess að draga úr lánsfjárþörf ríkisins og opinberra aðila. Það verður að gera þetta til þess að draga úr verðbólgu. Það verður að gera þetta til að skapa forsendur fyrir lækkun vaxta. Það verður að gera þetta vegna þess að það er eina leiðin til að skapa forsendur fyrir nýjum kjarasamningum sem taka mið af þeim áföllum sem þjóðfélagið hefur orðið fyrir. Þetta eru rökin, hv. þm.