Aukatekjur ríkissjóðs

54. fundur
Þriðjudaginn 17. desember 1991, kl. 15:35:00 (2192)

     Frsm. efh.- og viðskn. (Rannveig Guðmundsdóttir) :
     Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. frá efh.- og viðskn. á þskj. 274 um frv. til laga

um aukatekjur ríkissjóðs.
    Nefndin hefur fjallað um frv. Á fund hennar komu Indriði H. Þorláksson, Snorri Olsen og Jón Ragnar Blöndal frá fjmrn. og Ari Edwald frá dómsmrn.
    Nefndin leggur til að nokkrar breytingar verði gerðar á frv. Varða þær allar atriði sem áttu upphaflega að vera í frv. en höfðu fallið út á vinnslustigi þess. Veigamesta breytingin lýtur að því að við bætist ákvæði til bráðabirgða sem kveður á um að ákvæði frv., sem varða sýslumenn, skuli gilda um bæjar- og borgarfógeta fram til 1. júlí 1992 er lög um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði ganga í gildi.
    Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þskj.
    Geir H. Haarde tók þátt í afgreiðslu málsins í fjarveru Matthíasar Bjarnasonar, sbr. 3. mgr. 17. gr. þingskapa.
    Undir þetta nál. rita allir nefndarmenn en Halldór Ásgrímsson, Kristín Ástgeirsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Jóhannes Geir Sigurgeirsson undirrita með fyrirvara.
    Breytingartillögur nefndarinnar eru á þskj. 275 og eru eftirfarandi.
    1. 2. málsl. 6. gr. falli brott.
    2. Við 9. gr. Í stað orðsins ,,arfleiðsluskrá`` í 2. mgr. komi: erfðaskrá.
    3. Við 11. gr. Við 18. tölul. bætist nýr stafliður, er verði a-liður, og orðist svo:
    a. til sex mánaða eða skemur kr. 20.000.
    4. Við 14. gr. Á eftir 4. tölul. bætist nýr tölul. svohljóðandi:
    Leyfi til skilnaðar að borði og sæng kr. 2.000.
    5. Við bætist ákvæði til bráðabirgða er orðist svo:
    Ákvæði þessara laga, er varða sýslumenn, gilda um bæjarfógeta og borgarfógeta eftir því sem við á til 1. júlí 1992.
    Til útskýringar á 3. lið þá mun þetta vera gjald fyrir áfengisleyfi sem veitt er til sex mánaða eða skemur. Annað skýrir sig nokkurn veginn sjálft.