Aukatekjur ríkissjóðs

54. fundur
Þriðjudaginn 17. desember 1991, kl. 15:38:00 (2193)

     Steingrímur J. Sigfússon :
     Hæstv. forseti. Ég ætla að gera lítillega grein fyrir þeim fyrirvara sem er á stuðningi mínum við þetta frv. og fram kemur í nál. Hann lýtur fyrst og fremst að tvennu. Annars vegar þeirri hækkun sem hér er gerð á ýmsum liðum og er kannski ekki ýkja vandlega rökstudd í ýmsum tilvikum. Það er samkvæmt fylgigögnum með frv., sem við öfluðum frá fjmrn., og koma ekki fram með skýrum hætti í frv. sjálfu á þskj. 209. En samkvæmt fylgigögnum sem við fengum og upplýsingum frá fjmrn. er ætlunin að tekjuauki ríkissjóðs af þeim hækkunum sem á ýmsum aukatekjum eða gjöldum verður með lögfestingu þessa frv. verði um 390 millj. kr. eða tæplega 400 millj. kr.
    Hins vegar segir síðan að vegna hugsanlegra ofáætlana sé ekki rétt að reikna með því að allur sá tekjuauki skili sér og þess vegna mun í forsendum fjárlagafrv. vera miðað við að hækkunin á þessum liðum skili 350 millj. kr. í ríkissjóð.
    Það er annars vegar sú tillaga að hækkunum í einstökum tilvikum, sem frv. gerir ráð fyrir og hlýtur fyrst og fremst að verða á ábyrgð þeirra sem frv. leggja fram og hafa unnið þær tillögur, sem veldur þeim fyrirvara sem á er um stuðning minn. Að öðru leyti er ekki nema eðlilegt að þessi gjöld séu tekin til skoðunar og hækkuð til samræmis við verðlag með einhverjum hætti eins og önnur.
    Hitt lýtur að því að það er alveg ljóst að með þessu frv. er ekki á nokkurn hátt ráðin bót á því ástandi sem er varðandi tekjuöflun ríkissjóðs í þessum efnum þar sem eru álögur ýmiss konar og gjöld af mismunandi tagi svo sem eins og dómsmálagjöldin, gjöld

fyrir aðfararaðgerðir, nauðungarsölu, þinglýsingar, skipti dánarbúa, en þó sérstaklega liðurinn Ökuskírteini, vegabréf og ýmis önnur gjöld. Hvað þá hlið mála snertir er í raun og veru fullkomin ringulreið, liggur mér við að segja, ríkjandi hvað varðar þennan hlut sem tekjuöflunarpóst fyrir ríkissjóð. Þá á ég auðvitað fyrst og fremst við að það er algjört misræmi ríkjandi milli upphæðarinnar sem greidd er í einstökum tilvikum og umfangi þeirrar þjónustu sem á móti kemur. Í sumum tilvikum er um að ræða býsna háar upphæðir, nánast fyrir það eitt að skrifa undir eitt blað þar sem er á ferðinni útgáfa leyfisbréfa af ýmsu tagi. Í öðrum tilvikum er um að ræða gjald þar sem umtalsverð þjónusta kemur á móti og ætla má að hið opinbera hafi haft allnokkurn kostnað af því að fullnægja viðkomandi skilyrðum. Þetta getur átt við þegar t.d. úttekt, ýmiss konar athugun eða umsvif af öðru tagi tengjast því, eru undanfari þess að tiltekið leyfi sé gefið út. Í öðrum tilvikum er það ekki. Þegar til að mynda um er að ræða útgáfu leyfisskírteina fyrir ýmsar starfsstéttir, sem þegar hafa lokið embættisprófi og þegar hafa fullnægt öðrum skilyrðum sem þarf til að öðlast löggildingu starfsheitis eða þau réttindi önnur sem eiga við í einstökum tilvikum, þá er oft á tíðum, að best verður séð, ekki um annað að ræða af hálfu ríkisins en að viðkomandi aðilum er gert að skila inn öllum gögnum sem þarf til þess að leggja mat á hvort þau fullnægi viðkomandi skilyrðum og ef svo er þá er gefið út skírteini á eitt blað, A 4, kannski á löggiltan skjalapappír, ef vel lætur, og skrifað undir það. Önnur er þjónusta ríkisins ekki í slíkum tilvikum. Þetta getur kostað 50--75 þúsund kr. eftir sem áður. Til samanburðar við t.d. ýmis leyfi til starfsemi þar sem á undan fer úttekt og mat á aðstæðum.
    Hér er auðvitað fullkomin ringulreið á ferðinni og ég tel að það verði að ganga í þá vinnu fyrr en síðar að koma einhverju samræmi á hlutina. Það er einnig ljóst að einstakar starfsstéttir og hópar fara mjög misjafnlega út úr þessari gjaldtöku ríkisins, eins og hún hefur þróast á undanförnum árum, og það ber að taka fram að það er ekki eingöngu hæstv. núv. fjmrh. sem hefur verið duglegur við að hækka þessa hluti svona af og til. Ýmsir fleiri hafa spýtt myndarlega í þetta við og við og slumpungshækkanir hafa orðið af og til með nokkru árabili og satt best að segja ekki verið mjög mikil regla á því.
    Auðvitað má líka velta því fyrir sér hvort menn eru kannski í sumum tilvikum komnir út í talsverða ofstjórn þar sem ýmsir hlutir eru leyfisbundnir. Það kostar jafnvel nokkrar fjárhæðir að fá skírteini eða löggildingu eða hvað það er í hverju tilviki. Þannig er t.d. spurning hvort ástæða er til þess skrifræðis og kostnaðar sem fylgir því að gefa út naglabyssuskírteini og kosta 5 þúsund krónum til í hverju tilviki. Hvort með einhverjum einfaldari hætti sé ekki hægt að tryggja það eftirlit eða öryggi eftir atvikum, sem væntanlega er mönnum efst í huga, án þess að fara þessa leið, að vera með þetta leyfisbundið og gjaldið ákvarðað í sérstökum lögum.
    Að lokum, hæstv. forseti, ætla ég í umfjöllun um þetta að minna á þáltill. sem liggur fyrir þinginu og tekur á þessum málum. Það er 201. mál á þskj. 224, till. til þál. um aukatekjur ríkissjóðs og gjaldtöku ríkisstofnana. Ég tel að þar sé hreyft við þessu máli með mjög athyglisverðum og málefnalegum hætti þar sem lagt er til að ríkisstjórninni verði falið að láta fara fram heildarendurskoðun á þessum aukatekjum ríkissjóðs og gjaldtöku ríkisstofnana, sem er auðvitað náskylt mál. Og markmið þeirrar úttektar verði að samræma þessa hluti, að gera skýran greinarmun á annars vegar þjónustugjöldum og hins vegar sköttum eða beinni tekjuöflun án þess að viðkomandi þjónusta sé kostuð í þeim tilvikum. Því er auðvitað fullkomlega hrært saman í þessu máli, eins og það er útbúið í dag og hefur verið undanfarin ár, vel að merkja, ég er ekki að halda því fram að það sé að versna neitt við þessar breytingar. En það verður alla vega engin bót á þar með þessari afgreiðslu. Að lokum legg ég þess vegna á áherslu það að fyrirvari minn við frv. þetta tengist einnig því

að farið verði í þetta verkefni, að endurskoða þessa hluti og koma þeim í betra horf. Að mínu mati er alveg nauðsynlegt að notendur þjónustu eða þeir sem kaupa tiltekna hluti af þessu tagi, hafi á hreinu hvað þeir eru að greiða fyrir. Í hvaða mæli þar er um að ræða endurgreiðslu á útlögðum kostnaði vegna viðkomandi þjónustu og í hvaða mæli um er að ræða hreina skattlagningu í ríkissjóð. Ég bind vonir við að úttekt af því tagi sem hreyft er í þessari þáltill. á þskj. 224 gæti orðið fyrsta skrefið í því efni að koma reglu á þessa hluti.