Úrskurður Evrópudómstólsins um EES-samninginn

54. fundur
Þriðjudaginn 17. desember 1991, kl. 16:06:00 (2199)

     Hjörleifur Guttormsson :
     Virðulegur forseti. EES-skútan svokallaða er á strandstað og að þessu sinni er með öllu óvíst hvort hún muni losna þaðan og komast á flot á ný. Um það ber nánast öllum saman sem um málið fjalla, blöðum vítt um Evrópu, talsmönnum Evrópubandalagsins og EFTA og þó að ekki séu allir á einu máli um túlkanir, þá er óvissan um framhaldið yfirgnæfandi.
    Evrópudómstóllinn, EB-dómstóllinn, telur samningsdrögin ómerk og stangast á við Rómarsáttmálann. Samingsaðilar beggja megin við borðið virðast koma af fjöllum. Klögumálin ganga á víxl milli samningsaðila, engar skýrar hugmyndir liggja fyrir um framhald málsins, sumir tala um einfaldar, tæknilegar breytingar á samningnum eins og danski utanríkisráðherrann. Fyrstu viðbrögð aðaltalsmanns EFTA um þessar mundir, utanríkisviðskiptaráðherra Finna, Pertti Salolainen, voru þau að ekki komi til greina að samningaviðræður verði hafnar að nýju. Menn verði að líta á EES-samninginn, segir hann, sem eina heild og ekki verði unnt að breyta einstökum atriðum eins og skipan dómstóls án þess að endurskoða allan samninginn.
    Það er auðvitað óhjákvæmilegt að ræða þessa stöðu hér á Alþingi, þótt miklar annir, séu áður en hlé verður gert á störfum þingsins. Utanríkisráðherra Íslands á að taka við forustu EFTA nú um áramótin og gegna henni á fyrri hluta næsta árs og þannig er vandi Íslands sem aðila að þessu máli meiri en ella væri. Það segir sig auðvitað sjálft að þar sem ráðherranum verður ætlað ef á reynir að halda utan um hagsmuni EFTA í heild þá er hann

settur í vanda sem hann er kannski ekki alveg óvanur að sjá framan í þegar hann gegndi slíkri formennsku fyrr á árum, en nú mundi reyna enn frekar á í þessum efnum.
    Fulltrúum þingflokka hér á Alþingi þarf auðvitað að gefast færi á að tjá sig um þetta stóra mál í þeirri stöðu sem það er nú. Ég mun hér lýsa mínum viðhorfum til málsins og okkar alþýðubandalagsmanna og bera fram nokkrar spurningar til utanrrh. um viðhorf hans til framvindu mála. Ég minni á að við alþýðubandalagsmenn höfum haft margt við þetta mál að athuga frá því að viðræður hófust um að mynda þetta efnahagssvæði í ársbyrjun 1989 og þingflokkur Alþb. hafði uppi skýra fyrirvara um málið. Ég get vísað til tveggja samþykkta landsfunda flokksins sem gagnrýndi harðlega ýmis efnisatriði þessa fyrirhugaða samnings og sló því ótvírætt föstu að Ísland ætti ekki að sækja um aðild að Evrópubandalaginu. Á því leikur enginn vafi hvað snertir afstöðu Alþb.
    Ég mun aðeins minna hér á þrjú atriði sem tengjast þessum samningi. EES-samningurinn með fjórfrelsið gerir Ísland háðara Evrópubandalaginu efnahagslega og pólitískt, háðara en samræmst getur hagsmunum okkar að mínu mati eins og í pottinn er búið. Evrópskt efnahagssvæði væri að líkindum aðeins stundarfyrirbæri og aðild að því auðveldar þeim leikinn sem geta hugsað sér aðild landsins að Evrópubandalaginu. Ísland á að hasla sér völl sem óháð og sjálfstætt ríki til frambúðar og aðild að Evrópubandalaginu á ekki að koma til álita. En nú liggur fyrir dómsniðurstaða Evrópudómstólsins sem skilaði skriflegu áliti eftir fundahöld sl. föstudag og þetta er einróma álit á 52 síðum undirritað af öllum 13 dómurum dómstólsins og eru svör við fyrirspurnum framkvæmdastjórnarinnar sem sendi dómstólnum fyrirspurnir þann 13. ágúst sl. í alllöngu máli og það eru viðbrögð við því sem fram kemur í þessu áliti dómstólsins. Það er réttarkerfið í þessum fyrirhugaða samningi sem dómstóllinn fjallar um og segir í sínu áliti að sé ósamrýmanlegt Rómarsáttmálanum.
    Það væri freistandi, virðulegi forseti, að fjalla um ástæðurnar sem dómurinn hefur fyrir áliti sínu. Ég nefni hér fimm atriði í því sambandi.
    Réttarkerfið samkvæmt samningnum brýtur að mati dómstólsins í bága við 164. gr. Rómarsamningsins þess efnis að EB-dómstóllinn eigi að tryggja að farið sé að lögum við túlkun og beitingu samnings þessa, þ.e. Rómarsáttmálans. Þetta er einhver allra stysta grein Rómarsáttmálans sem þarna er um að ræða. Hún er 1 1 / 2 lína og það má segja að ef þetta er aðalfyrirstaðan þá veltir lítil þúfa oft þungu hlassi.
    EES-dómstóllinn mun ekki verða bundinn af úrskurðum EB-dómstólsins að mati þeirra 13 dómaranna í Lúxemborg eftir undirskrift EES-samningsins. Samningurinn mun hafa áhrif á túlkun reglna um frjáls viðskipti innan Evrópubandalagsins í framtíðinni og því er réttarkerfi samningsins ekki í samræmi við umrædda 164. gr. Rómarsáttmálans.
    Í þriðja lagi er sú tilhögun að EB-dómarar eigi sæti í EES-dómstól talin auka á hættuna fyrir réttarkerfi Evrópubandalagsins. Dómarar EB lenda í þeirri aðstöðu að þurfa að túlka sömu ákvæði eftir mismunandi forsendum og markmiðum eftir því hvort þeir sitja í EB- eða EES-dómstólnum. Með þessu skerðir EES-kerfið sjálfræði EB-dómstólsins.
    Í fjórða lagi segir á þessum síðum að EB-dómstólnum sé ætlað að túlka hugtakið ,,samningsaðili`` samkvæmt samningnum og það fer eftir eðli máls hvort samningsaðili af hálfu Evrópubandalagsins er bandalagið í heild sinni eða einstök aðildarríki þess. Þannig mun dómstóllinn geta kveðið á um verkaskiptingu milli Evrópubandalagsins sem heildar og aðildarríkja þess. Með því er sjálfræði EB stofnað í hættu en samkvæmt Rómarsáttmála má aðildarríki ekki vísa deilumálum til annarra en EB-dómstólsins.
    Og í fimmta lagi, það síðasta sem ég nefni hér af málsástæðum þótt fleiri séu, að EES-samningurinn væri sem alþjóðasamningur hluti af réttarkerfi Evrópubandalagsins og úrskurðir EES-dómstóls samkvæmt honum væru bindandi fyrir Evrópubandalagið, einnig sjálfan Evrópudómstólinn.

    Fleiri atriði eru nefnd í þessu áliti, m.a. ákvæði um forúrskurði sem EFTA-ríki hafa heimild til að leita eftir hjá EB-dómstólnum en án þess að slíkir úrskurðir, sem EB-dómstóllinn fellir, væru bindandi fyrir EFTA-ríkin eða EFTA-dómstóla.
    Þá ætla ég að víkja aðeins að því sem hefur valdið mér nokkurri undran og það er hvers vegna álit dómstólsins kom mönnum í opna skjöldu. Ég hélt að það væri á allra vitorði að Evrópudómstóllinn vill vera óháður og á að vera það samkvæmt Rómarsáttmálanum. Hann tekur ekki við pólitískum fyrirmælum framkvæmdastjórnar eða ráðherraráðs EB. Hann telur sig þurfa og eiga að vernda grundvöll Evrópubandalagsins og dæma út frá markmiðum Rómarsamningsins um samruna. Hann lítur á Evrópubandalagið, svo vitnað sé til orða í umsögninni, sem tæki til þess að koma á æ meiri einingu og það var einmitt skref í þá áttina sem verið var að stíga í Maastricht á dögunum með því að þróa Evrópubandalagið enn frekar í átt að ríkisheild. Hugmyndir stjórnmálamanna jafnt innan Evrópubandalagsins og EFTA í þá veru að þeir geti pantað niðurstöðu hjá Evrópudómstólnum ber vott um að þeir hafi ekki lesið sína heimalexíu, hvað þá biblíu Evrópubandalagsins.
    Fyrri dómar Evrópudómstólsins, m.a. dómar í litlu máli frá 1977, gátu sagt mönnum hvað í vændum væri og auðvitað áttu samningamenn EFTA ekki síður að gera sér grein fyrir þessu en framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins. Menn verða að þekkja gagnaðila sinn í samningum. Það er EFTA en ekki Evrópubandalagið sem væntanlega telur sig eiga meira í húfi ef EES-samningurinn verður áfram á strandstað og þá á ég við þá sem bera þetta mál fyrir brjósti. Þessi niðurstaða Evrópudómstólsins ætti að vera mönnum, einnig hér á Alþingi, nokkur lexía um það hvers eðlis Evrópubandalagið er og muninn á stofnunum þess, markmiðum og vilja einstakra aðildarríkja. Raunar er vikið að þessu í grein á síðum Morgunblaðsins í dag. Í þessu samhengi vaknar spurningin um stöðu EES-samningsins gagnvart stjórnarskrá íslenska lýðveldisins, grænu bókinni okkar. Hún er þunn í samanburði við hina stjórnarskrána.
    Ég hef oft velt þeirri spurningu fyrir mér hvort þessi samningur standist ákvæði íslensku stjórnarskrárinnar og ég leyfði mér að benda á spurningar þar að lútandi í séráliti þegar Evrópustefnunefnd skilaði áliti til Alþingis í skýrslu vorið 1990. Ég tel raunar knýjandi að Alþingi tryggi fyrr en seinna að þessi hlið málsins verði rækilega könnuð ef framhald verður á umfjöllun um EES-samning af Íslands hálfu. Ég vil leyfa mér, þótt tími sé hér naumur, að vitna aðeins til viðtals við þjóðréttarfræðing í Ríkisútvarpinu í útvarpsþætti 2. des. sl. Þar á ég við dr. Guðmund Alfreðsson sem starfar nú á mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna í Genf en hefur fjallað um alþjóðarétt, Evrópurétt og þjóðarrétt, m.a. í kennslu við Háskóla Íslands undanfarin ár. Hann vekur rækilega athygli á því að mörgum spurningum er ósvarað í þessu efni og nefnir dæmi til umhugsunar. Hann segir þar:
    ,,Í fyrsta lagi mælir stjórnarskráin um að löggjafarvaldið sé í höndum Alþingis og forseta og er það þá nóg í ljósi þessara ákvæða stjórnarskrárinnar að við förum með formlegt neitunarvald vegna nýrra reglna, viðbóta eða breytinga á þessu EES-sviði á meðan efnislega löggjafarvaldið verður að miklu í höndum annarra aðila, þar á meðal stofnana Evrópubandalagsins þar sem við erum ekki aðilar.``
    Þetta er ein spurning og fyrsta spurningin. Líka í öðru lagi í tengslum við löggjafarvaldið. Það segir í þessum EES-samningsdrögum, í 6. gr. að mig minnir, að dómum eða úrskurðum Evrópudómstólsins, þ.e. dómstóls EB, sem hafi verið kveðnir upp í gegnum árin eða áður en EES-samningurinn er undirskrifaður, skuli beitt við túlkun og notkun EES-samningsins. Þá er það spurning: Getur Alþingi samþykkt slíka tilvísun án þess að viðkomandi gögn séu lögð fram? Margt af þessum gögnum snýst um grundvallaratriði. Er það hægt stjórnskipunarlega að samþykkja þetta allt saman óséð og óskoðað og þetta er ein

spurning?
    Í þriðja lagi, og þá kannski til að ljúka upptalningunni þar, önnur spurning sem lýtur bæði að framkvæmdar- og dómsvaldinu og er kannski besta dæmið í þeirri upptalningu um hugsanlegt valdaafsal. Þessi spurning snýst um vald Eftirlitsstofnunar EFTA og EES-dómstólsins í sambandi við samkeppnisreglur samningsins. Þarna virðist útlent vald, hvort sem það er framkvæmdar- eða dómsvald hjá EFTA eða EES, fá heimild til að taka ákvarðanir sem þá gildi ekki bara að þjóðarrétti heldur líka að landsrétti. Og það eina sem kemur í hlut innlendra aðila er þá að fullnægja niðurstöðunni að utan og maður spyr: Er þetta hægt? Er þetta leyfilegt miðað við ákvæði stjórnarskrárinnar um innlent framkvæmdar- og dómsvald?
    Virðulegur forseti. Ég nem hér staðar í annars ítarlegra viðtali og ábendingum dr. Guðmundar Alfreðssonar sem varðar íslensku stjórnarskrána og ég minni jafnframt á að lögmaður, sem mikið hefur fjallað um þessi mál, rætt og ritað, prófessor Stefán Már Stefánsson, hefur ekkert fullyrt í þeim efnum, hann hefur ekki tekið af nein tvímæli um það að þessi samningsdrög standist ákvæði íslensku stjórnarskrárinnar.
    Ég taldi nauðsynlegt að vekja athygli á þessu, virðulegur forseti, og beini spurningu til hæstv. utanrrh. varðandi þetta mál. Þetta ætti líka að verða mönnum til hugsunar þegar fjallað er um samskipti okkar við Evrópubandalagið, ég tala nú ekki um fyrir þá sem gæla við þá hugsun að Ísland gæti átt heima í evrópska stórríkinu í framtíðinni. Ég er ekki í þeim hópi og sem betur fer ber ekki mikið á hugmyndum í þá átt í umræðunni þessa daga. Menn telja það væntanlega ekki skynsamlegt að viðra slíkar hugmyndir nú. Á þessu er þó undantekning sem satt að segja kom verulega á óvart.
    Hv. 10. þm. Reykv. Ingibjörg Gísladóttir, þingmaður Kvennalistans, hefur verið óþreytandi undanfarna daga að nefna inngöngu í Evrópubandalagið sem kost fyrir Ísland sem sé, ef ég hef skilið þingmanninn rétt, skárri en aðild að Evrópsku efnahagssvæði. Þessa speki endurtekur hv. þm. enn og aftur í viðtali við Morgunblaðið í dag og menn geta flett upp á því til þess að sjá hvernig hún orðar þessar hugmyndir. Ég hef hingað til skilið málflutning Kvennalistans þannig að þær teldu sig hvað eindregnasta andstæðinga aðildar jafnt að EES sem og EB. Því er fullt tilefni, finnst mér, til að fá það upplýst hvort Kvennalistinn hefur breytt um stefnu að því er varðar aðild að Evrópubandalaginu.
    Engin nauður rekur Íslendinga til þess, virðulegi forseti, að ganga í Evrópskt efnahagssvæði hvað þá að afsala sér sjálfstæði okkar og ganga í gin Evrópubandalagsins. Efnahagslega kæmi slíkt sjálfsmorði næst til lengri tíma litið, að ekki sé talað um þjóðlegt sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétt. Því væru það góð tíðindi ef hæstv. utanrrh. svaraði því hér afdráttarlaust að hann hefði ákveðið í ljósi síðustu atburða að leggja öll áform um aðild Íslands að Evrópsku efnahagssvæði á hilluna.
    Ég held að íslenska þjóðin sé smám saman að átta sig á því hvað er hér á ferðinni. Skoðanakönnun, sem gerð var af Félagsvísindastofnun á dögunum, sýndi niðurstöðu sem ég var satt að segja undrandi á, þ.e. um helmingur þeirra, sem svöruðu og höfðu gert upp hug sinn, lýsti andstöðu við þennan ráðgerða samning og það var áður en kom til þess atburðar sem sigldi þessu máli í strand nú um síðustu helgi.
    Ég tel að við eigum ekki að bíða eftir því, virðulegur forseti, ekki að draga það stundinni lengur að kistuleggja áformin um það að mynda þetta Evrópska efnahagssvæði eins og málum er komið. Ég vísa til þess, sem fær nú sívaxandi undirtektir, að tvíhliða samningar milli Íslands og Evrópubandalagsins er það sem við eigum að undirbúa, greina okkar hagsmuni vandlega, taka okkur til þess tíma, leita samninga um endurbætur á annars góðum viðskiptasamningum við Evrópubandalagið nú á næstunni og taka þar upp samninga, ekki aðeins á viðskiptasviði heldur eins og er opið fyrir okkur á menningarsviði og

á mörgum öðrum sviðum þar sem við höfum verið að gera tvíhliða samninga með góðum árangri á undanförnum missirum.
    Ég sagði, virðulegur forseti, að hæstv. utanrrh. væri mikill vandi á höndum ef hann ætlar sér að stýra EFTA og jafnhliða hugsanlega að leiða frekari samningaviðræður um Evrópskt efnahagssvæði. Ég vona sannarlega að til þess komi ekki að það reyni þannig á ráðherra. En við hljótum að leita svara frá hæstv. ráðherra hvernig hann ætlar að samræma þetta verkefni að gæta hagsmuna Íslands og jafnframt að passa upp á hagsmuni alls EFTA-hópsins, jafnsundurleitir og þeir hagsmunir eru. Þeir voru sundurleitir, þeir eru margfalt dreifðari nú en þeir hafa verið nokkru sinni áður að því er varðar hagsmuni þessara ríkja gagnvart Evrópubandalaginu.
    Ég leyfi mér að lokum, virðulegi forseti, að leggja fyrir hæstv. ráðherra sex spurningar sem ég hef komið á framfæri við hann skriflega fyrir þessa umræðu:
    1. Er utanrrh., í ljósi síðustu atburða, reiðubúinn til að hverfa frá áformum um aðild Íslands að Evrópsku efnahagssvæði og hefja þess í stað undirbúning að tvíhliða viðræðum við Evrópubandalagið um framtíðarsamskipti Íslands við bandalagið?
    2. Ef ráðherrann hefur enn ekki gefið samninga um EES upp á bátinn, hvaða breytingar telur hann líklegt að gera verði á samningnum sem EFTA, og Ísland í þeim hópi, geti staðið að?
    3. Hversu langan tíma telur utanrrh. að EFTA-ríkin geti tekið sér til þess að fá niðurstöðu um hugsanlegan samning?
    4. Hversu langt er komið undirbúningi að tvíhliða samningi um sjávarútvegsmál milli Íslands og Evrópubandalagsins og hvenær hefur verið gert ráð fyrir að hann lægi fyrir fullbúinn?
    5. Telur utanrrh. að fyrirliggjandi samningsdrög um EES samræmist ákvæðum stjórnarskrár Íslands?
    6. Telur utanrrh. það samrýmanlegt að taka að sér formennsku í EFTA frá áramótum til miðs árs 1992 og eiga á sama tíma að gæta íslenskra hagsmuna í samningaviðræðum um EES ef til kemur?
    Ég vænti þess, virðulegur forseti, um leið og ég þakka fyrir þessa umræðu, að hér eigi margt eftir að skýrast varðandi það stóra mál sem hér er til umræðu í raun á allt of þröngum tíma fyrir Alþingi en skiljanlegt að menn leiti samkomulags í önnum þingsins.