Úrskurður Evrópudómstólsins um EES-samninginn

54. fundur
Þriðjudaginn 17. desember 1991, kl. 17:34:00 (2206)

     Steingrímur Hermannsson :
     Virðulegi forseti. Ég hef raunar afar litlu við það að bæta sem ég sagði í fyrri umferð. Þá var tíma mínum lokið og ég nefndi að fróðlegt hefði verið að ræða um svör hæstv. utanrrh. Reyndar er aðeins eitt svar sem ég vil lauslega nefna Hæstv. utanrrh. lýsti þeirri skoðun sinni að samningurinn stangist á engan máta á við íslensku stjórnarskrána eða fullnægi ákvæðum hennar. Ég hef satt að segja líka verið þeirrar skoðunar að mér finnst ég geti ómögulega látið orð dr. Guðmundar Alfreðsssonar sem vind um eyru þjóta. Þar talar lögfróður maður og vekur athygli á nokkrum atriðum sem mér finnst mjög athyglisvert að lesa. Ég heyrði ekki þetta viðtal en hef síðan lesið það sem eftir honum er haft og

reyndar það sem hann sagði í umræðunum. Ég held að til fyllsta öryggis væri ástæða til að leita álits lögfróðustu manna. Ef úr samningnum verður viljum við ekki lenda í sömu stöðu og ráðið í Brussel, vona ég. Ég held að við getum öll verið sammála um það.
    Þetta vildi ég fyrst og fremst nefna. Hins vegar er mér ljóst að það kann að vera nokkuð erfitt að leita þessa álits á meðan samningurinn er í lausu lofti, getum við sagt og ekkert liggur fyrir hvernig honum verður breytt, ef honum verður á annað borð breytt. Þannig að það kann að vera að það sé ekki auðvelt á þessari stundu en ég vildi leggja til að hæstv. ríkisstjórn undirbyggi sig undir það að leita slíks álits og mætti þá gjarnan gera það í samráði við t.d. þær nefndir Alþingis sem um þetta mál fjalla.