Meðferð einkamála

54. fundur
Þriðjudaginn 17. desember 1991, kl. 18:12:00 (2213)

     Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir) :
     Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. hv. allshn. um frv. til laga um meðferð einkamála, sem er 71. mál þessa löggjafarþings, en nefndarmenn standa allir að þessu áliti. Með leyfi forseta mun ég nú gera grein fyrir þessu nefndaráliti:
    ,,Nefndin hefur fjallað um frumvarpið. Á fundi nefndarinnar kom Markús Sigurbjörnsson prófessor. Einnig komu Hrafn Bragason, hæstaréttardómari og formaður réttarfarsnefndar, Gestur Jónsson, formaður Lögmannafélags Íslands, Valtýr Sigurðsson, formaður Dómarafélags Íslands, Garðar Gíslason, formaður Lögfræðingafélags Íslands, og Rúnar Guðjónsson, formaður Sýslumannafélags Íslands.
    Frumvarpið er liður í heildarendurskoðun löggjafar um dómstólaskipan, réttarfar og meðferð framkvæmdarvalds í héraði. Því er einkum ætlað að koma í stað laga nr. 85/1936, um meðferð einkamála í héraði, en byggir að meginstefnu til á núgildandi réttarfarsreglum þeirra laga og laga um Hæstarétt Íslands, nr. 75/1973. Talsverðar breytingar hafa verið gerðar á lögum nr. 85/1936 að frátöldum þeim breytingum sem lagðar eru til í þessu frumvarpi. Með því að fella þegar komnar breytingar og breytingar, sem tillaga er gerð um í frumvarpinu, inn í nýtt heildarfrumvarp til laga um meðferð einkamála eru lögin gerð aðgengilegri. Framsetning laga um meðferð einkamála er og samræmd við lög um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, með þessu frumvarpi. Helstu breytingar, sem frumvarpið hefur í för með sér, eru þessar:
    Í 25. gr. frumvarpsins eru tvenn nýmæli. Annars vegar er sóknaraðila veitt heimild til að leita dóms um viðurkenningu á réttindum sínum þótt þannig standi á að hann geti gert kröfu um að skyldu gagnaðila hans verði fullnægt með aðför. Hins vegar er veitt heimild handa félögum og samtökum til þess að höfða mál í eigin nafni þegar þau ætla að leita dóms um viðurkenningu á réttindum félagsmanna sinna.
    Í 37. gr. frumvarpsins er gerð tillaga um svokallað neytendavarnarþing. Yrði heimildinni einkum beitt við málsókn neytanda á hendur seljanda vöru eða þjónustu.
    Varðandi sönnun og sönnunargögn má nefna það nýmæli í frumvarpinu að gert er ráð fyrir heimild til að afla þeirra í gegnum síma eða önnur fjarskiptatæki. Einnig er veitt heimild til að leita eftir öflun sönnunargagna fyrir dómi án þess að mál hafi verið höfðað.
    Lögð er til sú breyting í frumvarpinu að sóknaraðili greini einungis í stefnu sinni frá þeim atriðum sem áður var greint frá bæði í stefnu og greinargerð, en nokkuð hefur verið á reiki í framkvæmd hvaða atriði eigi að koma fram í hvoru skjali um sig.
    Ein veigamesta breytingin, sem lögð er til í frumvarpinu, varðar útivistarmál. Lagt er til að sömu reglur gildi um áskorunarmál skv. XX. kafla laga nr. 85/1936 og um önnur útivistarmál. Mundi þá almenna reglan vera sú að þegar stefndi mætir ekki fyrir dóm getur dómari lokið máli með áritun á stefnu að fullnægðum tilteknum skilyrðum. Enn fremur er lagt til að í stað málskots til Hæstaréttar eigi stefndi þess kost að fá endurupptöku útivistarmáls fyrir héraðsdómi eftir reglum sem greindar eru í frumvarpinu. Á slík endurupptaka útivistarmáls sér hliðstæðu í lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991.
    Í frumvarpinu er að finna nýmæli um svokallaða flýtimeðferð einkamála að fullnægðum ákveðnum skilyrðum, en með henni er verið að opna leið til skjótari meðferðar en ella á málum sem varða athöfn eða ákvörðun stjórnvalds eða atriði í tengslum við vinnudeilur.

    Loks eru í þessu frumvarpi reglur um málskot til Hæstaréttar. Er verið að hverfa að mestu frá þeirri stefnu laga nr. 75/1973 að reglur um málskotsheimildir komi þar fram ásamt heildarfyrirmælum um meðferð mála fyrir æðra dómi.
    Nefndin mælir með því að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.``
    Undir nál. rita Sólveig Pétursdóttir, Anna Ólafsdóttir Björnsson, Björn Bjarnason, Ingi Björn Albertsson, Jón Helgason, Össur Skarphéðinsson, Eyjólfur Konráð Jónsson, Kristinn H. Gunnarsson og Ólafur Þ. Þórðarson, þeir þrír síðastnefndu með fyrirvara.
    Hæstv. forseti. Frv. er fyrst og fremst ætlað að leysa af hólmi lög um meðferð einkamála í héraði, nr. 85/1936. Á undanförnum áratugum hafa talsverðar breytingar orðið á þeim lögum. T.d. hafa verið felldir úr þeim heilir kaflar og öðrum bætt inn í staðinn án þess þó að upphaflegum númerum annarra greina hafi verið breytt. Mikið skortir því á að þau beri heildstæðan svip auk þess sem mörg ákvæði laganna eru orðin úrelt.
    Breytingar á núgildandi einkamálalögum voru orðnar aðkallandi, m.a. til samræmis við löggjöf sem sett hefur verið á öllum öðrum sviðum íslensks réttarfars vegna fyrirhugaðs aðskilnaðar dómsvalds og umboðsvalds í héraði og tekur gildi 1. júlí á næsta ári. Sá kostur var talinn ákjósanlegastur að gera frv. til nýrra heildarlaga um meðferð einkamála í stað þess að breyta núgildandi lögum enn einu sinni og þá um leið að færa til betri vegar ýmis atriði sem óhægt hefði verið að koma við í breytingalögum.
    Frv. er einnig ætlað að leysa af hólmi ákvæði í lögum um Hæstarétt Íslands, nr. 75/1973, þar sem í því er kveðið á um málskot einkamála til Hæstaréttar og að nokkru um meðferð máls fyrir réttinum. Ákvæði um þetta var í raun áður að finna í einkamálalögum allt fram til ársins 1962 en þá voru þau færð í lög um Hæstarétt.
    Eins og ég lýsti áður bera núgildandi einkamálalög heitið ,,Lög um meðferð einkamála í héraði.`` Í frv. er hins vegar breytt heiti: Frv. til laga um meðferð einkamála. Þetta er m.a. lagt til í ljósi áðurgreindra breytinga um að ákvæði frv. taki ekki eingöngu til málsmeðferðar fyrir héraðsdómi heldur einnig til meðferðar kærumála í heild fyrir Hæstarétti. Að auki samrýmist heiti frv. betur heiti laganna um meðferð opinberra mála sem voru samþykkt sl. vor og taka gildi um leið og önnur ný réttarfarslög um mitt næsta ár. Þess má svo geta að efnisröð ákvæða í frv. er nokkuð breytt frá núgildandi einkamálalögum og er þá sérstaklega haft í huga samræmi við ákvæði áðurgreindra laga um meðferð opinberra mála.
    Samkvæmt nýjum réttarfarslögum verður leyst úr málum á báðum þessu sviðum fyrir sömu héraðsdómstólum. Hagkvæmt er að lagaákvæði beggja laganna og efnisuppbygging verði svo lík sem kostur er þótt að sjálfsögðu verði aldrei hægt að líta fram hjá umtalsverðum eðlismun sem er á einkamálum og opinberum málum.
    Ég mun í stuttu máli benda á helstu nýmæli og breytingar sem frv. ráðgerir frá núgildandi löggjöf en það er einkum í eftirfarandi atriðum:
    Þar má fyrst telja að orðalagi ákvæðis um hæfi héraðsdómara til að fara með mál hefur verið breytt til samræmis við inntak 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópuráðsins eins og henni hefur verið beitt í úrlausnum Mannréttindadómstóls Evrópu. Á það ákvæði sáttmálans reyndi einmitt mikið við meðferð íslensks máls fyrir mannréttindanefnd Evrópu en það mál varð í raun einn helsti hvati þess að lög um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði voru samþykkt vorið 1989. Með breyttu orðalagi sem lagt er til í frv. er tekinn af allur vafi um að íslensk löggjöf sé í fullu samræmi við ákvæði mannréttindasáttmálans hvað þetta varðar.
    Segja má að nú séu gerðar meiri kröfur um hæfi dómara en áður var og hin almenna vanhæfisregla í frv. í 5. gr. g-lið sé í eðlilegu framhaldi af dómi Hæstaréttar 9. janúar 1990 þegar grundvallarsjónarmiðum mannréttindasáttmálans var beitt í fyrsta sinn við

mat á hæfi dómara. Rétt er að geta þess viðhorfs er fram kom í nefndinni að auknar hæfiskröfur feli það t.d. í sér að ef dómari væri í þröngum félags- eða hagsmunasamtökum þar sem sérstakt trúnaðarsamband ríkti milli félagsmana sem gæti með réttu dregið óhlutdrægni hans í efa yrði dómari talinn vanhæfur.
    Fram til þessa hefur nokkur óvissa ríkt um hvernig fyrirsvari í dómsmálum skuli háttað þegar ríkisvaldið á í hlut. Þetta hefur leitt til þess að ósamræmi er í því hverjum er stefnt fyrir hönd ríkisins. Oftar en ekki er fjölda aðila stefnt með þessu markmiði, t.d. forstöðumanni opinberrar stofnunar í félagi með þeim ráðherra sem stofnunin heyrir undir og að auki fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs. Þetta er kannski ekki undarlegt í ljósi þess að engin ákveðin regla er um þessi efni í núgildandi einkamálalögum. Í lögum um málflytjendur er þó að finna ákvæði um fyrirsvar sem svarar þó hvergi hvernig því skuli vera háttað fyrir ríkið og hefur það verið túlkað á misjafnan veg. Í frv. er hins vegar reynt að taka af tvímæli um hvernig fyrirsvari fyrir ríkið skuli háttað.
    Í frv. er að finna skýrari reglur en nú gilda um svokallaða samlagsaðild í einkamálum þegar fleiri en einn eru aðilar í einkamáli hvort heldur er sóknar- eða varnarmegin. Samkvæmt núgildandi lögum er slík samlagsaðild heimil ef dómkröfur eru af sömu rót eða samrættar en þetta orðalag hefur oft gefið tilefni til vafa um túlkun og jafnvel orðið til þess að dómkröfur tveggja aðila sem augljóslega eru sprottnar af sama atviki hefur ekki mátt sækja í einu lagi þótt augljóst hagræði sé af því vegna þess að þær hafa ekki verið byggðar á sömu lagaforsendu.
    Í frv. er heimild til samlagsaðildar víkkuð út og orðað sérstaklega að fleiri en einum sé heimilt að sækja sama mál ef dómkröfur þeirra má rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings. Með þessu orðalagi er tekinn af vafi um að það sé ekki skilyrði samrættra krafna að þær séu byggðar á sömu lagaforsendu. Þessi skilgreining á samrættum kröfum er síðan lögð til grundvallar víðar í frv., m.a. í ákvæðum um kröfu samlags þegar margar kröfur eru sóttar í einu máli og í reglum um gagnsök.
    Eitt nýmæla sem frv. kveður á um er heimild til handa félögum eða samtökum til að reka í eigin nafni mál til viðurkenningar á tilteknum réttindum félagsmanna. Eftir núgildandi lögum hefur þessi leið verið talin útilokuð. Hagsmunasamtök og stéttarfélög hafa þá gjarnan brugðist við með þeim hætti að þau fá einhvern félagsmanna sinna til að höfða mál um sína eigin hagsmuni til að fá fordæmi í dómsúrlausn um réttindi annarra félagsmanna. Nærtækt dæmi er BHMR-málið svokallaða þar sem einn félagsmanna höfðaði mál til að fá dómsúrlausn um gildi bráðabirgðalaga þótt niðurstaðan hefði almennt gildi fyrir alla innan vébanda stéttarfélagsins. Sú leið sem lögð er til í frv. að félagið sjálft geti höfðað mál hlýtur að vera ólíkt einfaldari og eðlilegri og má í erlendum rétti finna ýmis afbrigði af sambærilegum heimildum.
    Nokkrar breytingar eru ráðgerðar í frv. á reglum um varnarþing. M.a. er þar tekinn af vafi í ýmsum atriðum sem varða heimilisvarnarþing en álitaefni hafa skapast um það í framkvæmd núgildandi laga. Neytendavarnarþing er nýmæli sem lagt er til í frv. en fyrirmyndir að því er að finna víða í erlendri löggjöf. Með neytendavarnarþingi er átt við að kaupandi geti höfðað mál vegna kaupa á vöru eða þjónustu á því varnarþingi þar sem höfða mætti mál gegn honum sjálfum sem yrði í flestum tilvikum í þeirri þinghá þar sem hann á sjálfur heimili. Ætla má að heimild þessi feli í sér sérstakt hagræði fyrir neytendur sem mundu nýta sér hana við málsókn á hendur seljanda vöru eða þjónustu. Heimildin er þó ekki bundin við neytendur heldur geta fyrirtæki og aðrir lögaðilar nýtt sér hana án tillits til þess hvort vöru var aflað til eigin nota, til neyslu eða til endursölu.
    Fram til þessa hefur ekki verið lögfest í íslenskri löggjöf að aðilar eigi rétt á milliliðalausri sönnunarfærslu í máli fyrir dómstólum. Með því er átt við að sönnunarfærsla eigi

sér stað frammi fyrir sama dómara og þeim sem kemur til með að dæma í máli. Tilgangur reglunnar er að dómari geti með betra móti sett sig inn í og fylgst með öllum þáttum máls sem hann hefur til meðferðar, t.d. metið trúverðugleika vitna sem leidd eru fyrir dóm í máli. Þetta hefur verið talin ein af meginreglum nútímaréttarfars í öllum lýðræðisríkjum og við setningu núgildandi einkamálalaga frá árinu 1935 var vissulega gengið út frá að milliliðalaus sönnunarfærsla væri æskilegt markmið. Hins vegar var talið að ógerningur væri að leiða hana í lög vegna staðhátta hér á landi.
    Með gerbreyttum staðháttum og byltingu í samgöngum á þeim áratugum sem liðnir eru síðan hefur reglan um milliliðalausa sönnunarfærslu þó fest sig í sessi í framkvæmd. Um árabil hefur aðalreglan því verið sú að sönnur séu færðar frammi fyrir dómaranum sem leysir síðan úr máli. Er því eðlilegt að hún verði nú lögboðin eins og frv. þetta ráðgerir. Reglunni er þó ætlað að vera sveigjanleg að því leyti að víkja má frá henni ef hún hefur í för með sér verulegan kostnað eða óhagræði en þá má dómari í máli verða við ósk aðila um að sönnunarfærslu sé leitað fyrir öðrum dómstóli.
    Í frv. er að finna ýmis nýmæli og breytingar varðandi reglur um efni stefnu og stefnubirtingar. Sú tilhögun er afnumin að stefnandi leggi fram greinargerð um þingfestingu máls þar sem hann lýsir m.a. röksemdum sem hann byggir mál sitt á nánar en í stefnu. Frv. leggur hins vegar til að stefnanda sé gert skylt að skýra þessi atriði út með gagnorðum hætti strax í stefnunni sem er birt hinum stefnda. Það má ætla betri kost að stefnda sé þannig gert ljóst í upphafi um hvað málið snýst og á hverju stefnandi byggir kröfur sínar án þess að það þarfnist frekari skýringa í greinargerð stefnanda. Ný tilhögun sem frv. ráðgerir um stefnubirtingar felst einkum í því að nægilegt er að einn stefnuvottur birti stefnu í stað tveggja eins og nú er lögskylt og jafnframt er veittur valkostur um svokallaðar póstbirtingar. Það þýðir að hægt er að nýta þjónustu póstburðarmanna við stefnubirtingar fyrir stefndum með sambærilegum en þó nákvæmari hætti en notaðar eru í dag við útburð á ábyrgðarbréfum. Þetta getur verið mjög hagkvæmt, ekki síst vegna þess að slíkar stefnubirtingar yrðu væntanlega talsvert ódýrari en þær eru í dag. Jafnframt verður stefnubirtingin sem slík ólíkt einfaldari í sniðum en nú er og vera má að sú aðferð að nýta póstþjónustuna í þessu skyni í stað stefnuvotts sé óformlegri og um leið síður niðurlægjandi fyrir þann sem stefnan er birt fyrir eða beinist að. Loks er lögð til í frv. sú nýjung að það jafngildi stefnubirtingu að stefndi sjálfur eða lögmaður hans riti sjálfur undir yfirlýsingu á stefnu um að samrit hennar hafi verið afhent sér.
    Ætla verður að ein mikilvægasta breytingin sem lögð er til í frv. lúti að því hvernig verður farið með svokölluð útivistarmál en það eru mál þar sem stefndi mætir ekki fyrir dóm við þingfestingu máls eða síðar þegar málið er tekið fyrir og það er því dæmt að honum fjarstöddum. Meira en níu af hverjum tíu einkamálum við dómstóla á landinu í dag eru útivistarmál. Eftir núgildandi reglum getur stefndi áfrýjað útivistardómi til Hæstaréttar en í raun er þó aðeins tekin afstaða til varna hans á einu dómsstigi þar sem Hæstiréttur endurskoðar þá ekki úrlausn héraðsdómara á sömu forsendum og hann hefði gert ef stefndi hefði tekið til varna fyrir héraðsdómi. Þetta er helsta ástæðan að baki þeirri tillögu í frv. að í stað þess að útivistarmálum verði skotið til Hæstaréttar geti stefndi komið fram endurupptöku fyrir héraðsdómi þar sem leyst verður úr máli á nýjan leik en þá með vörnum stefnda.
    Reglurnar um endurupptöku útivistarmála fyrir héraðsdómi eru hliðstæðar reglum um sama efni í lögum um meðferð opinberra mála. Ætla má að þær feli í sér réttarbót fyrir þann sem fær á sig dóm í einkamáli án þess að hann hafi komið fram vörnum auk þess sem þær hljóta að einhverju leyti að létta álagið á Hæstarétti. Þess má geta að frestir til að krefjast endurupptöku máls eru hliðstæðar þeim sem nú gilda til áfrýjunar.

    Önnur veigamikil breyting sem varðar útivistarmál er að þeim verði almennt hægt að ljúka með áritun dómara á stefnu. Samkvæmt núgildandi lögum verður aðeins svokölluðum áskorunarmálum lokið með áritun á þar til gerðar áskorunarstefnur. Þessi hugtök leggjast af ef frv. verður að lögum og gert er ráð fyrir víðtækari heimild til að ljúka útivistarmálum með slíkri áritun dómara. Þessi tilhögun hefur án efa í för með sér verulegan verksparnað fyrir dómara en réttur stefnda sem dæmdur er í útivistarmálum með þessum hætti er á hinn bóginn gerður tryggari með áðurgreindum heimildum til að krefjast endurupptöku á málinu fyrir héraðsdómi.
    Með aðskilnaði dómsvalds og umboðsvalds í héraði verður að fullu skilið á milli handhafa dómsvalds og umboðsvalds í héraði. Sýslumenn verða eftir það eingöngu handhafar framkvæmdarvaldsins og algerlega óháðir því sem fram fer fyrir dómstólum. Í frv. er að finna það nýmæli að aðilar einkamáls geta lagt mál sitt fyrir sýslumann til sáttaumleitana af hans hálfu. Þessi heimild er lögð til í því skyni að aðilar geti átt þess kost að beina máli sínu til óháðs embættismanns sem getur tjáð sig opinskátt við þá um álit sitt á ágreiningsefninu. Slíkt getur dómari ekki gert þegar hann leitar sátta með aðilum einkamáls án þess að hæfi hans til þess að leysa úr ágreiningsefninu verði teflt í tvísýnu. Þetta er því ný leið sem hefur opnast fyrir aðilum en hana er eins og vænta má ekki hægt að fara á meðan dómsvald og framkvæmdarvald sameinast í sýslumönnum eins og samkvæmt núgildandi skipan.
    Reglur frv. ráðgera að mál geti sætt sérstakri flýtimeðferð undir sérstökum kringumstæðum en slík heimild er ekki fyrir hendi í núgildandi lögum. Tilgangur reglna um flýtimeðferð er að opna leið til skjótrar meðferðar á málum sem varða ákvörðun eða athöfn stjórnvalds eða ef um ræðir vinnudeilur en oft er brýn þörf á skjótri úrlausn ágreinings vegna verkfalla eða verkfallsvörslu svo sem dæmi er um á síðustu árum. Það getur því verið mikið hagsmunamál að opna slíka leið en þeir málaflokkar sem eru sérstaklega tilgreindir í frv. um flýtimeðferð eru valdir með tilliti til þess að málsaðili getur almennt ekki leitað verndar á hagsmunum sínum í þessum tilvikum með lögbanni en tafir á því að fá dómsúrlausn geta hins vegar leitt til þess að þeir glatist.
    Ákvæði frv. um gjafsókn fela í sér breytingar frá þeim reglum sem nú gilda um gjafsókn. Eru þær að nokkru leyti studdar við fyrirmyndir í V. kafla frv. til laga um opinbera réttaraðstoð sem var lagt fram á 113. löggjafarþingi. Frv. varð ekki útrætt en með því var stefnt að flutningi lagaákvæða um gjafsókn úr einkamálalögum í sérlög um opinbera réttaraðstoð. Helstu nýmæli sem frv. ráðgerir á gjafsóknarreglum er að dómsmrh. skipi nefnd þriggja lögfræðinga, svokallaða gjafsóknarnefnd, til að fjalla um umsóknir um gjafsókn. Samkv. reglum frv. eru mál þessi þannig borin undir sérfróða menn sem meta hvort skilyrði eru til gjafsóknar í stað eldri tilhögunar að dómsmrh. hafi einn ákvörðunarvald um hvort gjafsókn væri veitt. Ráðgert er að meðmæli nefndarinnar verði skilyrði þess að dómsmrh. geti veitt gjafsókn. Á hinn bóginn er ráðherra ekki bundinn af meðmælum nefndarinnar að því leyti að hann geti synjað um gjafsókn þótt nefndin mæli með henni.
    Að lokum mun ég með fáum orðum reifa nokkrar breyttar reglur sem lagðar eru til í frv. um málskot til Hæstaréttar. Eins og ég rakti í upphafi ræðu minnar er gert ráð fyrir að málskotsreglur verði fluttar úr núgildandi lögum um Hæstarétt í lög um meðferð einkamála, enda samsvara þau reglum um málskot opinberra mála til Hæstaréttar í lögum um opinber mál. Tillögur frv. um málskot til réttarins ganga flestar í þá átt að þrengja heimildir til málskots. Brýn þörf er á að létta af Hæstarétti miklu álagi vegna málafjölda sem getur leitt til þess að meðferð mála fyrir réttinum taki óeðlilega langan tíma. Það stafar ekki síst af því að innan um mál, sem mikilvægt er að fá niðurstöðu Hæstaréttar um með skjótum hætti, er að finna fjölda minna mála sem vart eiga þangað nokkurt erindi, enda

oft um smávægilega hagsmuni að ræða. M.a. til að ráða bót á þessu eru skilyrði til að skjóta máli til Hæstaréttar þrengd samkvæmt ákvæðum frv. Dæmi um það eru sérstakar takmarkanir sem gerðar eru á kæruheimildum eftir að aðalmeðferð einkamáls er hafin fyrir héraðsdómi en þetta leiðir að sjálfsögðu einnig til þess að tafir á málum í héraði minnka að sama skapi. Einnig er lagt til að strangari skilyrði verði sett fyrir áfrýjun mála til Hæstaréttar en gilda í dag, bæði hvað varðar fresti til áfrýjunar og þá lágmarkshagsmuni sem þurfa að vera í húfi í máli sbr. ákvæði 1. mgr. 152. gr. frv. sem setur það skilyrði að fjárkrafa í máli nemi a.m.k. 150 þús. kr. til þess að hægt sé að áfrýja því án sérstaks leyfis. Samhliða þessu er ráðgert að í stað þess að dómsmrh. veiti áfrýjunarleyfi þegar áfrýjunarfresturinn er liðinn flytjist slíkar leyfisveitingar til Hæstaréttar. Rétturinn metur þá sjálfur hvort leyfi til áfrýjunar verði veitt, hvort heldur í þeim tilvikum þar sem áfrýjunarfjárhæð er of lág eða frestir til áfrýjunar liðnir. Þessar breytingar á reglum um áfrýjun til Hæstréttar eru sambærilegar við þær sem voru lagðar til í breytingafrv. við lög um Hæstarétt sem var lagt fram undir lok 113. löggjafarþings og varð ekki útrætt.
    Hæstv. forseti. Ég hef lokið við að benda á helstu nýmæli og breytingar sem frv. það sem hér er mælt fyrir í áliti felur í sér miðað við núgildandi löggjöf. Ég vil nota þetta tækifæri að þakka hv. nefndarmönnum fyrir vel unnin störf í allshn. í máli þessu en það felur í sér miklar réttarbætur og er hluti af þeim miklu réttarfarsbreytingum sem taka munu gildi 1. júlí nk.
    Allshn. hefur nú fjallað um þau þrjú meginfrumvörp sem eftir stóðu vegna fyrirhugaðs aðskilnaðar dómsvalds og umboðsvalds í héraði, þ.e. frv. til laga um nauðungarsölu er varð að lögum hér á hinu háa Alþingi 12. des. sl. og frv. til laga um breytingar vegna aðskilnaðar dómsvalds og umboðsvalds í héraði o.fl. og loks það frv. sem hér um ræðir, þ.e. frv. til laga um meðferð einkamála sem nefndin mælir samhljóða með í áliti sínu að verði samþykkt óbreytt.
    Ljóst er að svo víðtæk réttarfarsbreyting sem um ræðir þarf allnokkurn undirbúningstíma og því er það von mín að frv. það sem hér er mælt fyrir fái góða og skjóta meðferð á hinu háa Alþingi.