Um dagskrá og vinnubrögð í nefndum

55. fundur
Miðvikudaginn 18. desember 1991, kl. 13:53:00 (2231)

     Svavar Gestsson :
     Virðulegi forseti. Hér er komin upp mjög alvarleg og sérkennileg staða í þinghaldinu. Á fundi í hádeginu tilkynntum við forustumenn stjórnarandstöðuflokkanna formönnum þingflokka stjórnarliðsins og forseta Alþingis að það gæti ekki verið um neitt samstarf að ræða um þinghaldið við þær aðstæður sem nú eru. Ástæðurnar liggja í raun í augum uppi. Stjórnarandstaðan hefur síðustu daga reynt að gera allt sem hægt er til að greiða fyrir gangi þingmála. Hér voru afgreidd ýmist frá Alþingi eða á milli umræðna ellefu þingmál í gær. Við höfum hjálpað til við að fleyta málum á milli umræðna í atkvæðagreiðslum eins og kemur t.d. fram á skjali sem ég er með fyrir framan mig þar sem ljóst er að stjórnarsinnar eru minni hluti í atkvæðagreiðslum í þinginu hvað eftir annað. Stjórnarandstæðingar hafa orðið að hjálpa til við afgreiðslu á málum til að þoka þeim á milli umræðna. Stjórnarandstaðan hefur sýnt samvinnulipurð með þeim hætti og líka t.d. með þeim hætti að fallast á það fyrir sitt leyti að staðið yrði að upphafi 3. umr. fjárlaga eins og gert var á laugardaginn var. Sú ákvörðun orkaði tvímælis af einni ástæðu. Þeirri, að í þingsköpunum stendur alveg skýrt að álit efh.- og viðskn. á tekjuhlið fjárlaganna eigi að liggja fyrir áður en 3. umr. hefst. Það álit lá ekki fyrir frá efh.- og viðskn. Þess vegna bar auðvitað að leita afbrigða. Menn létu það yfir sig ganga að það var ekki gert. Þetta er ég að nefna til marks um það að stjórnarandstaðan hefur sýnt samvinnuvilja í verki.
    Það er einnig ástæða til að benda á í þessu sambandi að stjórnarandstaðan hefur reynt að greiða fyrir málum þó að hlutirnir hafi verið mjög í lausu lofti af hálfu ríkisstjórnarinnar. Síðast í gærkvöld var heilbrigðiskafla fjárlagafrv. snúið við í grundvallaratriðum án þess að það fengist í raun rætt nokkurs staðar. Þrátt fyrir þennan samvinnuvilja stjórnarandstöðunnar gerist það að haldinn er hér útbýtingarfundur í gærkvöldi klukkan tíu, það er tilkynnt hér á forsetastóli rétt fyrir klukkan sjö og við gerðum engar athugasemdir við það vegna þess að við gerðum ráð fyrir því að hér væri um hefðbundinn útbýtingarfund að ræða þar sem ekki væri verið að kasta inn ágreiningsmálum á tæpu vaði. Hvað gerist? Það birtist, virðulegi forseti, þetta nál. um frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992 frá meiri hluta efh.- og viðskn. Nál. sem er hvorki meira né minna en 20 síður --- klukkutíma eftir að nefndarfundinum lauk. Sömuleiðis birtast brtt., ekki ein, heldur fimmtán, við frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992, klukkutíma eftir að fundinum lauk. Síðan gerist það að dreift er nál. meiri hlutans um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins og brtt. örfáum mínútum eftir að fundinum lauk í sjútvn. þannig að það er greinilegt að nál. og brtt. voru tilbúnar löngu áður en fundinum lauk í sjútvn. Með öðrum orðum: Fulltrúa stjórnarandstöðunnar, sem tóku þátt í fundi sjútvn. í gærkvöldi í góðri trú, var verið að draga á asnaeyrunum. Telja þeim trú um að þarna væri um eðlileg og þingræðisleg vinnubrögð að ræða. Þessi framkoma við stjórnarandstöðuna er algjörlega óþolandi. Af þeirri ástæðu lýstum við því yfir, forustumenn stjórnarandstöðuflokkanna, áðan á fundi með forseta að ekkert samkomulag væri um þinghaldið að neinu leyti við þær aðstæður sem nú er um að ræða.

    Á þessum fundi í gærkvöldi var líka dreift, eins og kom fram hjá hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur, frv. til laga um Lánasjóðs ísl. námsmanna. Það er enginn smápappír. Formenn þingflokka stjórnarliðsins hafa aldrei nefnt þann möguleika á fundum formanna þingflokkanna að þetta mál yrði sýnt eða tekið fyrir á þeim dögum sem eftir eru af þinginu, hvenær svo sem því lýkur.
    Auðvitað getur stjórnarliðið gert það sem því sýnist. Auðvitað getur það ákveðið dagskrá eins og því sýnist. Auðvitað getur forsetadæmið ákveðið að setja 3. umr. fjárlaga á dagskrá á morgun ef því sýnist svo. Auðvitað er það þannig. Auðvitað ráðið þið þessu, forsetinn og ríkisstjórnin. En þá er það líka þannig að þið skuluð ekki vera að leita samstarfs við stjórnarandstöðuna þegar gengið er yfir hana með þessum grófa og óþingræðislega hætti sem hér gerðist í gærkvöld. Þessu hljótum við að mótmæla, virðulegi forseti, og ef hv. 17. þm. Reykv. vill gera hlé á fundum hér þá getur hann gert það mín vegna en hann er ekki að gera það að beiðni stjórnarandstöðunnar. Það skal vera skýrt.