Um dagskrá og vinnubrögð í nefndum

55. fundur
Miðvikudaginn 18. desember 1991, kl. 13:59:00 (2232)

     Hjörleifur Guttormsson :
     Virðulegur forseti. Þessi umræða er um gæslu þingskapa, eins og nú er farið að kalla umræður um þingsköp, og ég held að það sé rétt að menn virði fyrir sér þá grein sem hér er verið að ræða um sem er 39. gr. þingskapanna, um 2. umr. Þar stendur, með leyfi forseta:
    ,,Önnur umræða fer eigi fram fyrr en einni nóttu eftir fyrstu umræðu eða útbýtingu nefndarálits og skal þá ræða greinar frumvarpsins og breytingartillögur við þær.`` --- Þetta er textinn. Ég held að það sé rétt að menn hugleiði: Eru hér reglur uppfylltar að formi og að innihaldi?
    Ég geri ráð fyrir því að menn telji að þetta geti staðist með formið. Hæstv. forseti kom með þá túlkun. Þó er það háð mjög rúmri túlkun á því hvað er nótt og hvað er dagur. Ég held það væri rétt að menn áttuðu sig á því, þar á meðal forseti þingsins virðulegur og forsætisnefnd, að í rauninni er þörf á því að skýra þingsköpin að þessu leyti. Er það eðlilegt að haldinn sé fundur, sem tilkynnt er um að kveldi, sem útbýtingarfundur og að fundi verði frestað? Þetta er gert á fundi þar sem sárafáir þingmenn voru enn til staðar, að ég held, þegar fundi var frestað. Síðan klukkan tíu er haldið áfram fundi og þá er útbýtt þessum pökkum frá ríkisstjórninni sem menn hafa verið að nefna hér. Nál. frá nefnd, sem var að ljúka störfum fimm mínútum fyrr, um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins og minni hluta auðvitað ekkert ráðrúm gefið til að skila sínu áliti, og nýju frv., sem hér liggur á borðum þingmanna, um breytingar á lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna.
    Ég held að þetta sé allt á tæpasta vaði og í rauninni er hér komið fram á nótt miðað við það að við skiptum sólarhringnum í nótt og dag og viljum kannski halda tólf stundum hvorum megin.
    Síðan er talað um nefndarálit. Hvað er nefndarálit? Er það bara álit meiri hlutans? Er ekki hluti af nál. einnig álit minni hlutans? Ég er alveg viss um að hægt er að vísa hér í hefðir um að hliðstætt hafi gerst, eins og hv. þm. Jón Kristjánsson minntist hér á og er ágætt að hann rifjaði upp tilefnið og það sem á eftir á fylgdi. Ég segi þetta hér vegna þess að þörf er á því að menn vandi sig gagnvart þingsköpunum að þessu leyti. Full ástæða gæti verið til þess að taka skýrar til orða í þingsköpum að þessu leyti, t.d. þetta: Hvað er nefndarálit?
    Ég er þeirrar skoðunar að minni hluti í þingnefnd eigi ekki að hafa ótakmarkað ráðrúm til þess að tefja að mál komist á dagskrá. En hann á að hafa eðlilegt svigrúm til þess og í rauninni alveg lágmark að það sé sólarhringur eins og almennt er gert ráð fyrir varðandi þingmál að sé virt.

    Síðan, virðulegur forseti, hefur komið fram hjá þingmönnum að ekki hefur gefist ráðrúm til að afla grundvallarupplýsinga eins og um nýja þætti af hálfu ríkisstjórnarinnar varðandi frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum og þá nýbreytni að ætla að fara að leggja löggæslukostnað á sveitarfélögin. Menn greinir á, heyri ég, sem hafa nefnt það efnislega í þessari umræðu, hvað sé rétt og hvað sé rangt í því efni. Það er auðvitað ekki til sparnaðar varðandi umræður í þinginu að fá efnislega þætti málsins ekki fram í nefnd. Ég tek því undir með hv. 1. þm. Austurl. sem nefndi þetta alveg sérstaklega í sínu máli.
    Svo vil ég segja, virðulegi forseti, að það er auðvitað ljóst í hvað stefnir hér. Ríkisstjórnin er með allt niður um sig í sambandi við undirbúning mála gagnvart þinginu. Það skortir mjög á að hér komi mál fram með eðlilegum hætti miðað við það að ljúka þinghaldi fyrir jól enda er hæstv. forsrh., ég hygg fyrstur af hálfu ríkisstjórnarinnar og þingsins, til að nefna að trúlega þurfi að halda áfra störfum þingsins að loknum jólum, milli jóla og nýárs eða á nýju ári. Mér sýnist það blasa við, eins og málum vindur hér fram eða öllu heldur eins og staðið er að málum af hálfu ríkisstjórnarinnar gagnvart þinginu, að menn hljóti að halda hér áfram án þess að gera hefðbundið jólahlé. Mér sýnist stefna í það efni eins og forsrh. hefur þegar gefið til kynna.