Um dagskrá og vinnubrögð í nefndum

55. fundur
Miðvikudaginn 18. desember 1991, kl. 14:24:00 (2239)

     Jón Helgason :
     Hæstv. forseti. Þar sem hér á að fara að halda samráðsfund um framkvæmd þingskapa eða þingmála þá langaði mig að koma því á framfæri að mér sýnist stefna í mjög mikið óefni með framkvæmd þingskapa miðað við þá umræðu sem fram fór þegar hin nýju

lög voru sett. Rökin fyrir því að færa Alþingi úr tveimur deildum í eina voru fyrst og fremst þau að það ætti að breyta vinnubrögðum í nefndum. Nú skyldu nefndirnar fara að vinna mjög ítarlega og rækilega og undirbúa málin þannig að það kæmi ekki að sök þó ekki væri tvöföld umferð á lagafrumvörpum milli deilda. En í morgun hitti ég menn sem voru kallaðir á fund í nefnd Alþingis í gærkvöldi og að því er þeir sögðu til þess að þegja því tíminn væri svo naumur að þeir gætu ekki fengið tíma til að tjá sig. Og þá held ég að við séum komin út á ákaflega hættulega braut í framkvæmd þingskapa. Þessu atriði langaði mig að koma hér á framfæri áður en menn fara að ræða um vinnubrögðin hvort það á sem sagt að þurrka út alveg þennan megingrundvöll að breytingu þingskapanna.