Um dagskrá og vinnubrögð í nefndum

55. fundur
Miðvikudaginn 18. desember 1991, kl. 14:26:00 (2240)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Forsetinn sagði hér fyrir skömmu síðan með réttu að fundarstörfin í gær hefðu gengið mjög vel við erfiðar aðstæður. En það er líka mjög mikilvægt að forsetinn geri sér þá skýra grein fyrir því hvers vegna þau ganga illa í dag. (Gripið fram í.) Og hæstv. forseti átti sig á því að það eru mistök stjórnarforustunnar og forseta þingsins sem valda því að allt er komið í uppnám á nýjan leik.
    Stjórnarandstaðan greiddi þannig fyrir málum hér í gær að það var með atkvæðum stjórnarandstöðunnar sem fjölmörg mál voru afgreidd og jafnvel gerð að lögum vegna þess að það skorti fjölmarga þingmenn í stjórnarmeirihlutanum til þess að slíkt væri hægt. Síðan gerist það að hv. þm. Össur Skarphéðinsson skipuleggur að láta halda hér dreifingarfund og dreifa nefndaráliti nefndar sem örfáum mínútum áður var að ljúka störfum. Það eru undirmál, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, og er byggt á reynsluleysi og ber að fyrirgefa vegna þess að hin eðlilegu vinnubrögð, og hv. þm. óskaði eftir leiðbeiningum um þau, eru að þegar nefndin lýkur störfum þá fái allir nefndarmenn eðlilegan tíma, sem getur verið nokkrar klukkustundir eða einn sólarhringur lágmark, til að ganga frá sínum nál. og þeim er dreift. Að dreifa prentuðu nál. örfáum mínútum eftir að nefndarfundi lýkur er auðvitað ekkert annað en að fara í kringum eðlileg vinnubrögð og er annaðhvort undirmál eða byggt á reynsluleysi.
    Það eru líka mistök hjá hæstv. forseta að taka á dagskrá í dag 20. og 21. mál áður en nál. minni hlutanna liggja fyrir. Það eru aðeins nál. meiri hlutans sem liggja fyrir og það er ekki liðinn nema rétt rúmur hálfur sólarhringur, virðulegur forseti, frá því að nefndirnar luku störfum um þessi mál. Og það er fullkomlega óeðlilegt og eru engin fordæmi fyrir því að forseti hafi tekið á dagskrá mál sem minni hluti þingsins hefur ekki fengið nema rétt rúman hálfan sólarhring til að skila nál. í og hefur ekki gert það enn. Það eru því einfaldlega mistök hjá forseta þingsins að hafa tekið þetta á dagskrá og er hér upplýst að hv. þm. Össur Skarphéðinsson óskaði eftir því að þetta væri gert. Þess vegna tel ég eðlilegt að virðulegur forseti, til að greiða fyrir þingstörfum á nýjan leik, biðjist afsökunar á þessum mistökum með því að taka þessi tvö mál út af dagskránni, þau eiga ekki heima á dagskránni með eðlilegum hætti.
    Síðan vil ég segja það að lokum, virðulegi forseti. Grundvallarregla íslenskrar stjórnskipunar er þingræði og forseta þingsins ber að vera aðalvarðmaður þess að þingræðið sé haldið. Það liggur alveg ljóst fyrir að það er lagaskylda í gildandi lögum um tvennt sem hér hefur verið rætt. Í fyrsta lagi að hafa samráð við hagsmunaaðila í sjávarútvegi um það frv. sem hér er um Hagræðingarsjóð. Það er kannski hugsanlega túlkunaratriði hvort það samráð hefur verið haft en það er þó alveg ljóst að þeim vafa verður að eyða. Og það er forsetinn sem samkvæmt embætti sínu ber ábyrgð á því að Alþingi brjóti ekki lög. Það er enginn annar sem ber ábyrgð á því, hæstv. forseti. Í öðru lagi er það ótvírætt í lögum að efnahagsnefnd þingsins verður að skila áliti á tekjuhlið fjárlaganna áður en 3. umr. getur

hafist. Og forseti hefur þess vegna enga heimild samkvæmt gildandi lögum að setja 3. umr. fjárlaga á dagskrá fyrr en efnahagsnefnd hefur skilað formlegu áliti á tekjuhlið fjárlaganna. Og ég trúi því ekki að forsetinn fari að beita sér fyrir því að landslög séu brotin.