Um dagskrá og vinnubrögð í nefndum

55. fundur
Miðvikudaginn 18. desember 1991, kl. 14:33:00 (2243)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
     Virðulegi forseti. Ég skal ekki taka langan tíma en hv. 17. þm. Reykv. og formaður þingflokks Alþfl. lýsti eftir því hvar mál væru þannig á floti að ekki væri hægt að semja um þingstörfin fram að jólum. Ég vil, virðulegur forseti, upplýsa hv. 17. þm. Reykv. um það að fyrir hv. efh.- og viðskn. liggur frv. að breytingum á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Ég held að mér sé óhætt að segja það að ekki mun vera nokkur ágreiningur um það meðal nefndarmanna jafnt stjórnar og stjórnarandstöðu að það mál sé þess eðlis að ekki sé hægt að afgreiða út úr nefnd öðruvísi en að á því hafi verið gerðar gagngerar breytingar og endurbætur. Ef ég tek meira upp í mig en ég get staðið við þá vil ég biðja hv. nefndarmenn úr stjórnarmeirihlutanum að koma hér upp og bera þetta til baka. En ég get ekki, virðulegi forseti, skilið umræðurnar öðruvísi en svo að þar er um að ræða frv. sem er þannig unnið og hefur fengið svo harkaleg viðbrögð m.a. frá aðilum vinnumarkaðarins að ómögulegt er að afgreiða það nema með gagngerðum breytingum. Og ég held reyndar, virðulegur forseti, að það væri mesti óleikur, og kannski ættum við að gera það, sem hægt væri að gera hæstv. ríkisstjórn að senda það frv. aftur inn í þingið í því formi sem það er núna. Málið er það umfangsmikið að þó við værum öll af vilja gerð þá sé ég ekki annað en við þurfum a.m.k. tvo daga til viðbótar til að vinna málið upp. Það þýðir samkvæmt þingsköpum að við getum ekki afgreitt umsögn okkar um tekjuhlið fjárlaganna fyrr en þessari vinnu er lokið. Á þetta vildi ég benda, virðulegur forseti, þar sem hv. 17. þm. Reykv. kaus að hefja máls á þessu á þennan hátt.