Um dagskrá og vinnubrögð í nefndum

55. fundur
Miðvikudaginn 18. desember 1991, kl. 14:46:00 (2248)

     Stefán Guðmundsson :
     Virðulegi forseti. Það kom fram áðan í máli hv. 18. þm. Reykv. Kristínar Ástgeirsdóttur að hún hafði hlustað á fjölmiðla í gærkvöldi, eins og sjálfsagt fleiri, og ummæli hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar, að verið væri að vinna að nýjum tillögum í sambandi við ætlan ríkisstjórnar um að svipta sjómenn þeim kjörum sem þeir hafa haft og við höfum hér verið að tala um og nefnum sjómannafslátt. Hæstv. fjmrh. hefur ekki séð ástæðu til þess að vera hér í dag fremur en margir aðrir ráðherrar til að fylgjast með málum og liðka fyrir þeim að þau megi ganga fram. En ég hef séð þennan þingmann af og til hér í salnum sem þessi ummæli hafði í fréttum í gær og langar þess vegna að spyrja um hvort ekki væri hægt að fá hann hingað í þennan ræðustól til þess að gefa okkur upplýsingar um það hvar og hver er að vinna að þessum málum. Ég veit að það er mikið rætt um þetta úti á hafi á meðal sjómannanna sjálfra. Eru það þær tillögur sem Guðmundur Hallvarðsson er að tala um? Eða er ríkisstjórnin í alvöru farin að gera sér grein fyrir því að hún kemur þessu máli hér ekki fram?
    Virðulegi forseti, ég ætla ekki að tefja þessa umræðu en ég gæti sagt mörg orð í sambandi við Hagræðingarsjóðinn og hvernig þau mál gengu fram á fundi í gær, vegna þess að það var stuttlega vikið að þætti mínum þar í gærkvöldi en ég geymi mér það þangað til umræða um málið fer fram, en í mínum huga er enginn vafi að það er verið að brjóta lög. Það er verið að brjóta lög með því að setja þetta mál fram á þennan hátt. --- [Fundarhlé.]